Komið hefur fram í máli bæði dómsmálaráðherra og þingmanna um þá stöðu sem komin er upp eftir gildistöku breytinga á Útlendingalögum, að þingmenn hafi á síðasta ári heimsótt bæði Danmörku og Noreg til að ráðfæra sig við þarlend yfirvöld um markmið og leiðir í útlendingamálum, nánar til tekið um meðferð á umsóknum fólks um alþjóðlega vernd, og þau ferli sem styðjast má við þegar slíkum umsóknum er synjað.
Um leið hefur ítrekað komið fram að Norðurlöndin, og þó sér í lagi Danmörk, hafa á undanliðnum árum tekið upp harða stefnu gegn flóttafólki, eða nánar tiltekið gegn fólksflutningum utan skipulagðra rása ríkja og alþjóðastofnana – gegn þeim flutningum fólks milli landa sem á ensku nefnist yfirleitt einu nafni: migration.
Enginn flóttamaður skal inn að eigin frumkvæði
Í bandaríska dagblaðinu Washington Post birtist síðastliðið vor ítarleg umfjöllun um þessa stefnubreytingu Danmerkur, undir fyrirsögn sem mætti þýða: „Hvernig hin framfarasinnaða Danmörk varð að ásjónu vinstristefnu gegn förufólki“.
Í upphafi greinarinnar segir að hin „dagfarsprúða og framfarasinnaða“ Danmörk hafi fyllst tortryggni í garð hælisleitenda. Mette Frederiksen, forsætisráðherra á vegum sósíal-demókrata, hafi haldið á lofti þeirri stefnu að „núll“ manneskjur skuli koma til Danmerkur utan flóttamannakerfis Sameinuðu þjóðanna: það er að Danmörk skuli aðeins taka á móti þeim sem á íslensku hafa verið nefndir „kvótaflóttamenn“ en ekki þeim sem flýja harðræði, ofsóknir eða stríð og leita skjóls að eigin frumkvæði. Það er sagður vera lykilþáttur í stefnu danskra stjórnvalda að Evrópusambandi setji á laggirnar miðstöðvar til að annast umsóknir þeirra langt utan landamæra Evrópuríkjanna sjálfra.
„Jafnvel á meðan dönsk stjórnvöld mikla sig af þeirri stefnu sem þau reka í mannréttindamálum utanlands hafa þau í hótunum um að brottvísa flóttafólki frá Sýrlandi og halda því fram, þvert á margvíslegar vísbendignar um annað, að svæðið í kringum Damascus, og tvö önnur svæði í landinu, séu örugg. Þau geta ekki í reynd sent fólk til baka – Danmörk viðurkennir ekki sýrlensk stjórnvöld – en margir Sýrlendingar lifa í ótta um að vera sparkað burt, og lítill fjöldi þeirra dvelur langdvölum í brottvísunarmiðstöðvum. Kaershovedgaard-miðstöðin var í reynd áður fangelsi.“
Öfga-hægrihugmyndir í meginstraumi stjórnmála
Höfundur greinarinnar segir þróun málaflokksins í Danmörku til marks um „mikla grósku í hugmyndum öfga-hægrihópa, jafnvel í löndum þar sem öfga-hægrið hefur átt erfitt uppdráttar“. Sumir líti svo á að þróun Danmerkur sýni hvernig auðug lýðræðisríki grafi undan vernd flóttafólks og varpi af sér ábyrgð án þess að ráðast að rótum vandans. Danmörk gefi að því leyti mögulega vísbendingar um hvert Evrópusambandið stefnir, í heild sinni.
Höfundur tekur fram að harðlínustefna danskra stjórnvalda nái ekki til allra sem leita þar verndar. Landið hafi til að mynda tekið á móti tugþúsundum flóttamanna frá Úkraínu árið 2022, og greitt leið þeirra bæði til náms og starfa. Í því samhengi er vitnað í Nadiu Hardman, sérfræðing sem starfar á vegum samtakanna Human Rights Watch, sem segir stefnu Danmerkur einkennast af „rasisma, tvöfeldni og hræsni.“
Kaare Dybvad, ráðherra málaflokksins í Danmörku, svaraði þeirri einkunn með yfirlýsingu þar sem hann sagði umsögnina móðgandi. Stefna stjórnvalda væri ekki að enginn fengi vernd í landinu, heldur aðeins að enginn fengi vernd sem ekki kæmi þangað gegnum fyrirfram skilgreindar, kerfisbundnar leiðir. „Flóttafólk ætti að koma til Danmerkur í gegnum flóttamannakerfi Sameinuðu þjóðanna, þar sem má velja þá úr á grundvelli mannúðarsjónarmiða,“ er haft eftir honum. Washington Post bendir á móti á að á undanliðnum þremur árum eftir 6 milljón manna landið Danmörku tekið á móti færri en 250 flóttamönnum í gegnum það kerfi, samkvæmt opinberum gögnum.
Harðlínutal Danmerkur bergmálar um Evrópu
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur enda verið gagnrýnin á nálgun Danmerkur. „Það var aldrei ætlunin,“ segir í úttekt stofnunarinnar á stöðu málaflokksins í Danmörku undir lok ársins 2022, „að flóttafólk skyldi sæta stöðugu endurmati á stöðu sinni eftir að þörf þess fyrir vernd hefur verið viðurkennd“.
Greinarhöfundur segir að þar sem dönsk stjórnvöld hafa kosið að halda landinu að miklu leyti utan við regluverk Evrópusambandsins á sviðinu, blasi ekki við að stefnu þess yrði auðvelt að afrita og heimfæra upp á önnur lönd sambandsins. „En harðlínu-talið í landinu, hvernig það heldur til streitu að vernd skuli tímabundin og áhersla þess á að varpa ábyrgð út fyrir eigin strendur, bergmála um álfuna.“
Fulltrúar danskra sósíal-demókrata taka í sama streng. „Danska leiðin gæti orðið að meginstraumi í Evrópu,“ er haft eftir Kasper Sand Kjaer, þingmanni og talsmanni sósíal-demókrata á sviði fólksflutninga og aðlögunar.
Súrralískt millibilsástand brottvísunarbúða
Í greininni er rætt við Douniu Ibrahim Khalaf og Rangin Mohamed Belal, Sýrlendinga frá Damascus-héraði, sem dvelja nú í Kaershovedgaard brottvísunarbúðunum, langt utan alls þéttbýlis. Þau hvorki vilja fara til Sýrlands né geta dönsk stjórnvöld neytt þau til þess. Það sem stjórnvöld gera í staðinn er að halda þeim í þessum búðum, á meðan þau bíða frekari úrlausnar mála sinna. „Þau mega ekki leita sér að vinu. Þau verða að vera á staðnum fyrir daglegt eftirlit sem, ásamt skorti á samgöngum, takmarkar hve langt þau geta farið.“ Verst segja þau sjálf þó að sé þetta „súrrealíska millibilsástand.“ Hvenær, spyr Khalaf, mun þessu öllu ljúka?
Danmörk var ekki alltaf svona, segir greinarhöfundur. Fyrir þrjátíu árum síðan hafi landið verið tiltölulega opið, boðið fólk velkomið og veitt hælisleitendum og flóttafólki sterka vernd. „En það tók að breytast á tíunda áratug síðustu aldar, þegar tal hins öfga-hægrisinnaða Danska Þjóðarflokks gegn innflytjendum reyndist hafa pólitískt aðdráttarafl.“ Með boðskap gegn innflytjendum hafi fjölda Dana verið seld sú hugmynd að árangur landsins á mörgum sviðum væri að þakka einsleitni íbúanna – að ekki væri hægt að verja velferðarkerfið nema með því að standa vörð um „danskleika“.
Grimmdin er markmiðið
Þegar fjöldi fólks flúði stríðið í Sýrlandi til Evrópu árin 2015 og 2016 hafi þessi öfl séð sér leik á borði, og árið 2015 samþykkti danska þingið lög með nýjum ákvæðum um tímabundna vernd, sem draga mætti til baka þegar aðstæður í upprunalandi flóttamanns hafa skánað, jafnvel aðeins lítillega. Árið 2016 veittu stjórnvöld embættum heimild til að gera verðmæti umsækjenda um vernd upptækt við komu þeirra, að sagt var til að fjármagna umsýslu við dvöl þeirra í landinu. „Lög gegn gettóum“ voru samþykkt skömmu síðar, sem takmörkuðu fjölda „óvestrænna“ íbúa í tilteknum hverfum.
Árið 2019 tóku innflytjendayfirvöld í Danmörku að fylgja nýju lögunum eftir með því að taka dvalarleyfi sýrlenskra flóttamanna frá Damascus til endurskoðunar. Síðan þá hafa yfir þúsund dvalarleyfi verið endurskoðuð og yfir hundrað verið afturkölluð. Mannréttindasamtök og sérfræðingar á sviðinu benda á, að sögn blaðsins, að í meirihluta þeirra tilfella þar sem dvalarleyfi eru afturkölluð sé ákvörðuninni snúið við, eftir áfrýjun, sem þýði að stefnan hafi í reynd lítil áhrif nema að hræða líftóruna úr þeim sem leita verndar í Danmörku og senda lítinn fjölda þeirra í hinar eymdarlegu brotttvísunarbúðir. „Grimmdin, segja gagnrýnendur, er markmiðið.“