Í Sýrlandi kyndir 140% verðbólga undir mótmæli Drúsa gegn ríkisstjórn Assads

Í borginni Al-Suwayda í suðvesturhluta Sýrlands hafa mótmælendur nú komið saman aðra vikuna í röð, brennt myndir af Assad, forseta landsins, kastað meðlimum hins ríkjandi Baath-flokks út úr opinberum skrifstofum, og veifað fánum Drúsa.

Í umfjölllun Al Jazeera kemur fram að mótmælin hafi upphaflega sprottið af vaxandi verðbólgu og bágum efnahag í hinu stríðsrhjáða landi, en að áhersla þeirra hafi fljótt færst að kröfu að ríkisstjórn Assads víki. Mótmælin eru þó ekki sögð teljast ógn við stjórnvöld á þessu stigi.

Undirliggjandi fátækt og verðbólga

Mótmælin eru óvenjueg að því leyti að héraðið Al-Suwayda, sem borgin Al-Suwayda tilheyrir, hefur hingað til verið hlutlaust í erjum milli Assad og andstæðinga hans. Fyrir marga er sagt að dropinn sem fyllti mælinn hafi verið dropinn sem fyllti mælinn einmitt ekki, þegar stjórnvöld skáru niður opinberar niðurgreiðslur á eldsneyti. Laun opinberra starfsmanna voru hækkuð umtalsvert til að vega á móti þeim auknu útgjöldum, en launahækkanirnar eru sagðar hafa kynt undir verðbólgu og veikt gengi sýrlenska pundsins á mörkuðum. Verðbólga í Sýrlandi mældist um 140% í júlímánuði.

Mótmælin hafa dreift úr sér og eru ekki lengur bundin við Al-Suwayda. Mótmælendur hafa komið saman í borginni Daraa, sem er ekki langt frá Al-Suwayda, en einnig í Aleppó, stærstu borg Sýrlands, og Idlib, sem báðar eru í norðvesturhluta landsins, og fleiri borgum í norðaustri. Enn sem komið er eru mótmælin þar þó ekki eins fjölmenn og í Al-Suwayda. Í Daraa hafa að minnsta kosti 57 mótmælendur verið handteknir, að sögn samtakanna Syrian Network for Human Rights, sem hafa aðsetur í Bretlandi. Stjórnvöld hafa ekki beitt drápsvopnum gegn mótmælendum, eins og þau gerðu í mótmælunum 2011, sem hófust í Daraa.

Níutíu prósent Sýrlendinga búa við fátækt, segir í umfjöllun Al-Jazeera. Viðskiptahömlur Vesturlanda og spilling innan Sýrlands sjálfs hafa hvor tveggja orðið til að auka á þá fátækt sem stríðsátökin í landinu hafa haft í för með sér.

Rauði flöturinn á kortinu sýnir legu héraðsins Al-Suwayda í suðvestur-hluta Sýrlands.

Minnihlutahópurinn Drúsar

Drúsar eru trúarsamfélag, minnihlutahópur í Sýrlandi en meirihluti íbúa í Al-Suwayda. Af um 700 þúsund Drúsum í Sýrlandi búa um 340 þúsund í Al-Suwayda héraði. Trúarbrögð Drúsa eru abrahamísk eingyðistrúarbrögð eins og íslam, gyðingdómur og kristni en eru sögð hafa þróast undir áhrifum víðar að og gera til að mynda ráð fyrir endurholdgun. Drúsar eru um leið þjóðarbrot, og er nýliðun ekki leyfð innan trúarhópsins, fólk getur aðeins fæðst inn í hann og sjaldgæft að Drúsar giftist út fyrir sínar raðir.

Staða Drúsa innan Sýrlands skilgreinist þó ekki eingöngu af stöðu trúarsamfélagsins. Íbúar Al-Suwayda, einkum ungir karlmenn, hafa á undanliðnum árum gripið til vopna til að verja byggðir héraðsins bæði fyrir liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna ISIS/ISIL og fyrir vopnuðum hópum tengdum framleiðslu og smygli á lyfinu Captagon, sem skylt er amfetamíni.

Að sögn Al-Jazeera eru stjórnvöld í Damaskus ófús að beita óhóflegu afli gegn Drúsum, enda leggi ríkisstjórn Assads nokkuð upp úr þeirri ásýnd að hún verji trúarlega minnihlutahópa gegn islömskum öfgahópum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí