Um hundrað íbúar bæjarins Hallstatt í Austurríki komu saman til mótmæla á sunnudag og lokuðu í fimmtán mínútur vegagöngunum sem eru meginæð bílaumferðar í bæinn. „Neyðarbremsu núna!“, „Róttæk mörk á fjöldaferðamennsku!“ og „Endalok heimsmenningar“ voru meðal slagorða sem lesa mátti á skiltum mótmælenda.
Mótmæli snúast, eins og slagorðin gefa til kynna, gegn umfangi ferðamennsku í bænum. Íbúafjöldi Hallstatt er 700. Bærinn er hins vegar á heimsminjaskrá UNESCO og hefur auk þess á síðustu árum verið vettvangur vinsælla kvikmyndafrásagna. Nú, á hápunkti vertíðarinnar, heimsækja hann allt að 10 þúsund ferðamenn á dag.
Ferðaiðnaðurinn hefur verið bænum gjöfull, efnahagslega, en mótmælendur segja að gestirnir séu orðnir of margir til að þar sé lífvænlegt fyrir íbúa.
Spjótum sínum beina mótmælendur einkum að því fólki sem kemur til bæjarins í stórum hópum í dagsferðir. Þau krefjast þess að sett verði hámark á fjölda ferðamanna, og bann við rútuferðum til bæjarins eftir klukkan fimm síðdegis.
Salzburger Nachrichten greindi frá.