Íslensk stjórnvöld fangelsa „við hæstu öryggisgæslu … fólk sem hefur ekki framið neina glæpi“

Baldvin Þór Bergsson tók viðtal við Guðrúnu Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra, í Kastljósi RÚV á mánudagskvöld. Í viðtalinu var ráðherrann spurð um áform sín í málefnum flóttafólks, áður en vikið var að vopnaburði lögreglunnar og rafbyssum.

Fyrri hluti viðtalsins samanstóð af tólf spurningum og svörum. Umsjónarmaður þáttarins spurði ráðherrann hvort ríkið þyrfti ekki með einhverjum hætti að tryggja öryggi og velferð þeirra sem hér er synjað um vernd en komast ekki úr landi.

Mannúðarkrísan innbyggð í lögin

Ráðherrann svaraði ítrekað með því að forðast spurninguna, segja ríkið „veita þjónustu“ þeim sem sýni „samstarfsvilja“ í þeirri merkingu að greiða fyrir brottvísun sinni. Þann hóp sem ekki sýnir þann samstarfsvilja gerði ráðherrann ljóst að hún telur réttlausan, í þeim skilningi að hvorki ríki né sveitarfélög varði um það hvort það kemst í húsaskjól eða nærist. Hún sagði það hafa verið ljóst frá því að stjórnvöld knúðu breytingar á Útlendingalögum gegnum þingið síðasta vor:

„Sko, það lá alveg ljóst fyrir þegar þessi lög voru samþykkt í mars á þessu ári, að þegar fólk er búið að fá synjun í gegnum sanngjarna málsmeðferð, þá hefur fólk 30 daga til að yfirgefa landið enda er það þá eftir þann tíma í ólögmætri dvöl. Það lá alltaf fyrir að fólk myndi missa þessa þjónustu. Þess vegna getur það ekki verið markmið þessara laga að þegar þessi 30 daga frestur er liðinn og fólk missir þjónustuna, að það eigi að fara að veita þjónustuna einhvers staðar annars staðar. Þjónustan hefur verið veitt í 30 daga eftir synjun, af ríkinu. Og þá ber sveitarfélögum ekki skylda til þess að grípa fólk og veita þjónustu á hinum endanum. Og svo ætlast sveitarfélögin til að ríkið greiði síðan aftur. Það hlýtur hver að sjá að þetta gengur ekki upp svona.“

„Ég vil tala um búsetuúrræði“

Ráðherrann ítrekaði það álit sitt að „lausnin“ á þeirri mannúðarkrísu sem lagabreytingarnar hefðu þannig valdið væri að setja á laggirnar það sem hún nefnir „búsetuúrræði með takmörkunum“.

– Já, þannig að þú ert að vísa í, í rauninni, spurði umsjónarmaður, einhvers konar búðir þar sem fólk dvelur og hefur þá jafnvel ekki heimild til þess að fara út fyrir þessar búðir?

„Ég vil tala um búsetuúrræði,“ ítrekaði ráðherrann. „Ég er að tala um búsetu fólks sem að er í ólögmætri dvöl í landinu og því ber að fara frá landinu. Og þá er það í búsetuúrræðum með takmörkunum, sem þýðir að þegar þú ert búinn að fá synjun um þína umsókn, að þá getur þú ekki verið hér þátttakandi í þessu samfélagi að öllu leyti, enda áttu ekki rétt til dvalar hér. Það þýðir að þér ber að yfirgefa landið. Og þá býr fólk í þessu búsetuúrræði þangað til að brottflutningi kemur.“

„Fólk hreinlega sett í varðhald fram að brottför“

Það var til að rökstyðja þessa niðurstöðu enn frekar sem ráðherrann nefndi loks, í svari við síðustu spurningu umsjónarmanns í þessum hluta viðtalsins, að íslensk stjórnvöld beiti enn harðneskjulegri úrræðum í dag, en þar verði á ferðinni. Ráðherrann sagði:

„Mig langar líka, í þessu sambandi, að fá að benda á það, fyrir þá sem hugnast ekki þessi orðræða mín, að íslensk stjórnvöld hafa í dag heimild, og eru að beita heimild, til þess að fangelsa fólk, að fara með fólk hér inn í mestu öryggisgæslu sem við Íslendingar eigum, meðal annars inni á Hólmsheiði, og þar er fólk hreinlega sett í varðhald fram að brottför. Þar er fólk í hæstu öryggisgæslu, innan um dæmda glæpamenn, fólk sem hefur ekki framið neina glæpi, og á eingöngu að fara frá landinu.“

Þessar upplýsingar hafa ekki komið fram í máli ráðherra áður, ef þær hafa komið fram opinberlega yfirleitt. Svo það sé endurtekið með orðum ráðherrans, lið fyrir lið: að íslensk stjórnvöld beiti heimild til að fangelsa fólk, í mestu öryggisgæslu, meðal annars á Hólmsheiði, fram að brottför, innan um dæmda glæpamenn, fólk sem hefur ekki framið neina glæpi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí