Á undanliðnum árum hafa æ fleiri sveitar- og borgarstjórnir á Ítalíu heimilað skráningu foreldra af sama kyni, þar til undanliðna mánuði að ríkisstjórn landsins, að frumkvæði Giorgiu Meloni forsætisráðherra, hefur krafist þess að aðeins gagnkynja foreldrar fái skráningu sem slíkir hjá hinu opinbera og skráning samkynja foreldra verði afturkölluð. The Guardian greindi frá.
Hundruð fjölskylda á Ítalíu eru þar með stödd í lagalegu millibilsástandi, að sögn baráttufólks fyrir réttindum samkynhneigðra. „Það er verið að gera börnin munaðarlaus með tilskipun“ lét Alessandro Zan hafa eftir sér, samkynhneigður stjórnmálamaður sem starfar á vettvangi Lýðræðisflokksins. Evrópuþingið hefur hvatt ítölsk stjórnvöld til að hverfa af þessari braut, enda sé með afskráningu foreldra brotið á réttindum barnsins, sem er kveðið á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Martröð fyrir börn og foreldra
„Þetta er martröð fyrir foreldrana, ekki síður en börnin,“ sagði Angelo Schillaci, prófessor í lögfræði við Sapienza háskólann í Róm. „Annað foreldrið getur eiginlega ekkert gert, frá því að fara með barn til læknis til þess að sækja það í skólann, án heimildar frá hinu skráða foreldri.“
Áhættan sem fylgir þessu formsatriði er sögð gríðarleg: ef aðeins annað foreldri barns er skráð sem slíkt og fellur frá eða veikist illa, þá hefur hitt foreldrið engan rétt til forræðis yfir barninu, sem þarmeð gæti lent á forræði stofnana eða annarra ættingja.
„Við þurfum lög sem viðurkenna rétt samkynja foreldra“ sagði Schillaci. „Skorturinn á slíkri löggjöf veldur röð mismununar og brota á réttindum barna.“
Talsmaður Arcigay, stærstu baráttusamtaka LGBTQ+ fólks á Ítalíu, sagði bannið við skráningu samkynja foreldra vera áþreifanlegustu birtingarmynd þeirrar heiftar sem hægristjórn Meloni er að leysa úr læðingi í garð hinsegin og kynsegin fólks.