Innviðaráðuneytið og HMS stóðu fyrir húsnæðisþinginu, Heimili handa hálfri milljón (Öflugur húsnæðismarkaður fyrir þjóð í vexti) í morgun á Hótel Nordica.
Hvítbók um húsnæðismál var kynnt lauslega en hún liggur enn í samráðsgátt stjórnvalda og er fólk hvatt til að senda inn umsagnir sem opið verður fyrir til 4. september.
Nokkrir frummælendur tóku til máls á þinginu svo sem Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar, Ingólfur Bendur hagfræðingur Samtaka iðnaðarins og Elmar Erlendsson hagfræðingur HMS, Þóra Margrét Hermannsdóttir frá MHS auk byggingafræðinga og hönnuða úr einkageiranum. Í pallborði voru t.d. Dagur Sigurðsson, Eygló Harðardóttir, Sigurður Ingi og Heiða B. Hilmisdóttir svo einhverjir séu nefndir en allt þetta fólk ætti að þekkja stöðu leigjenda all vel og húsnæðismarkaðinn allan.
Ekkert þeirra talaði þó um bleika fílinn í stofunni þ.e. hvers vegna yfir 90% leigjenda vilji komast inn á eignamarkaðinn og hvers vegna húsnæðismarkaðurinn býr við yfirdrifið vaxtarstig og er ólífvænlegur með öllu. Enginn talaði um ferðaþjónustuna sem hagfræðingar stærstu lífeyrissjóðanna hafa sagt vera ástæðuna fyrir þenslunni í samfélaginu og grunn rót hækkaðra stýrivaxta og þess að framboð dregst saman við það að margir leigi út húsnæði til ferðamanna fremur en íbúa landsins.
Talsmaður SI fór mikinn um hversu margir leigjendur vilji vera á eignamarkaði og dró þá ályktun að í stað þess að setja fjármagn í stofnframlög til óhangaðardrifinna leigufélaga eða til félagslegs húsnæðis þá ætti fremur að veita aukin framlög í hlutdeildarlán. Ekki var þó ljóst hvernig hlutdeildarlán ættu að virka betur fyrir láglaunafólk né hvernig framboð húsnæðis gæti aukist hratt og örugglega.
Þá áætlar HMS að stofna vísindaráð byggingariðnaðarins með atvinnulífinu og mun gefa út svokallaðan Vegvísi í september. Engin samfella virðist vera í þeirri vinnu sem rannsóknarsetur byggingariðnaðarins var að vinna í þegar því var lokað og er enn talað um „áform“ um vísindaráð. Við erum því að horfa á stöðnun í þróun á rannsóknum í byggingariðnaði sem og virkt eftirlit með göllum í framkvæmdum.
Það sem stóð upp úr þinginu var framsaga Arnhildar Pálsdóttir arkitekts og eigandi Lendager á Íslandi en hún var með afar áhugavert erindi um endurnýtingu byggingarefnis og hvernig hægt er að draga úr mengun og úrgangi í byggingariðnaði og vinna að umhverfisvænum og hagkvæmum lausnum í faginu. Arnhildur hlaut viðurkenningu fyrir frumkvöðulastarf í mannvirkjagerð með því að koma á samstarfi við önnur Norðurlönd um nýtingu hringrásarhagkerfisins við mannvirkjagerð auk þess að slá nýjan tón í faginu.
Varaborgarfulltrúi Sósíalistaflokksins Andrea Helgadóttir var mætt á þingið og benti m.a. á að mikið sé hamrað á því að loksins sé komin stefna í Húsnæðismálum þegar Hvítbók er annars vegar og jafnvel ýjað að því að hér hafi aldrei verið slík stefna á Íslandi. Horft sé fram hjá verkamannabústaðakerfinu sem á sínum tíma var það byltingarkennda átak sem þurfti til til að koma vaxandi samfélagi í skjól á viðráðanlegum kjörum. Kerfi sem verkalýðshreyfingin barðist fyrir og byggði upp en ríkið reif niður.
Þá gagnrýndi hún ummæli Ingólfs Bender frá SI um að sá hluti sem kallaður sé „á viðráðanlegu verði” sé niðurgreiddur af ríkinu enda sé mest öll uppbyggingin niðurgreidd á einhvern hátt af ríkinu.
Andrea segir „Ef þessi litli hluti sem hefur verið stefnt á að sé “á viðráðanlegu verði” sé einhvers konar ölmusuaðgerð stjórnvalda, hvað segir það um stöðuna? Ef langsamlega stærsti hluti húsnæðisuppbyggingar er hreinlega viðurkenndur sem á óviðráðanlegu verði, þarf þá ekki eitthvað mun byltingarkenndara viðbragð en það sem verið er að stefna að hér? Jú það sjá allir sem vilja sjá.”
Mynd Samsett, Andrea Helgadóttir t.v. og Arnhildur Pálsdóttir t.h.