Landsmenn voru 395.280 í byrjun ágúst og hafði fjölgað um 8.109 frá 1. desember í fyrra. Þetta er 2,1% fjölgun á átta mánuðum. Fjölgunin í ár er meiri en í fyrra og er eins og þá drifin af innflutningi verkafólks til að sinna ferðafólki. Með sama áframhaldi má reikna með að landsmenn verði 400 þúsund í desember.
Erlendir ríkisborgarar eru orðnir 18% landsmanna. Af þeim rúmlega 19 þúsund manns bæst hafa við landsmenn síðan 1. desember 2021 eru 85% erlendir ríkisborgarar en 15% íslenskir ríkisborgarar. Það er auðvitað ekki líklegt að þessi mikla fjölgun haldi áfram mörg ár í viðbót. En ef við gerum ráð fyrir því verða erlendir ríkisborgarar yfir 20% landsmanna haustið á næsta og yfir 25% í árslok 2026.
Fjölgun kemur fyrst og fremst frá löndum Austur Evrópu. Ríkisborgarar frá þessum löndum er í dag 11,5% landsmanna. Til samanburðar eru ríkisborgarar frá löndum Vestur-Evrópu 2,3 landsmanna. Íslendingar og aðrir ríkisborgarar Evrópu eru 95,8% landsmanna.
Hér má sjá þau tuttugu lönd sem hafa flesta ríkisborgara á Íslandi.
| Sæti | Ríkisfang | Fjöldi | Hlutfall landsmanna |
|---|---|---|---|
| 1 | Ísland | 324.030 | 82,0% |
| 2 | Pólland | 25.165 | 6,4% |
| 3 | Litháen | 5.563 | 1,4% |
| 4 | Rúmenía | 4.259 | 1,1% |
| 5 | Úkraína | 3.419 | 0,9% |
| 6 | Lettland | 2.953 | 0,7% |
| 7 | Spánn | 1.915 | 0,5% |
| 8 | Þýskaland | 1.907 | 0,5% |
| 9 | Portúgal | 1.841 | 0,5% |
| 10 | Venesúela | 1.339 | 0,3% |
| 11 | Filippseyjar | 1.315 | 0,3% |
| 12 | Króatía | 1.222 | 0,3% |
| 13 | Bretland | 1.212 | 0,3% |
| 14 | Ítalía | 1.120 | 0,3% |
| 15 | Tékkland | 1.111 | 0,3% |
| 16 | Frakkland | 1.063 | 0,3% |
| 17 | Bandaríkin | 1.062 | 0,3% |
| 18 | Danmörk | 925 | 0,2% |
| 19 | Ungverjaland | 893 | 0,2% |
| 20 | Víetnam | 782 | 0,2% |