Leiðarahöfundur vill endurvekja einstakan sjarma, samheldni og bjartsýni ársins 2007

Menning 14. ágú 2023 Haukur Már Helgason

Haustið 2008 og veturinn í kjölfarið gengu ungir jakkaklæddir karlmenn sem áður virtust eiga heiminn svo hnípnir um götur Reykjavíkur að fólk sem aldrei hafði átt svo mikið sem notaðan bíl á afborgunum gat hlaupið að þeim og togað í bindin þeirra hlæjandi án þess að þeir bæru hönd fyrir höfuð sér. Hvort fólki þótti það ástand léttir og ný bjartsýni liggja í loftinu, eða fundu til andlegra þyngsla og eymsla, valt að nokkru leyti á því hvoru megin þessarar línu það stóð, hvort það gekk með umrædd bindi eða hljóp til og togaði í þau.

Síðan hefur margt vatn runnið til sjávar og ekki allt til vinstri. Ef einhver skyldi efast um hvert hugur hinna bindisklæddu stefnir tók Viðskiptablaðið af öll tvímæli um það um liðna helgi, í leiðara sem ber yfirskriftina „Endur­vekjum árið 2007“.

„Það sem gaf 2007 sinn einstaka sjarma,“ segir þar að hafi verið „sú botnlausa bjartsýni sem hreiðrað hafði um sig í hjörtum landsmanna um það gull og græna skóga sem koma skyldu. Vaxandi kaupmáttur og áframhaldandi hækkun fasteignaverðs var gott og blessað, en það sem flestir vonuðust til að myndi bera sig á vit ríkidæmis og vellystinga voru hlutabréf. Það gátu kannski ekki allir fengið ofurlaun bankamanns, en almenningi stóð til boða að taka þátt í rússíbanareiðinni og það gerðu fjölmargir. Smjör draup af hverju strái.“

Í leiðaranum er það harmað að þegar gróðavonin reyndist tálsýn hafi átakalínur stjórnmálannna tekið miklum breytingum, átökin sjálf orðið harðneskjulegri, sumir jafnvel tekið „að líta á fyrirtæki almennt sem „auðvaldið““, aukin harka færst í átök á vinnumarkaði, „sem segja má að hafi færst áratugi aftur á við. Þjóðarsáttin var gleymd og grafin.“

Það sem einhverjum birtist sem vor í verkó birtist þannig leiðarahöfundi Viðskiptablaðsins sem dapurleg afturför. En svo birtist ljósið í myrkrinu. Leiðarahöfundur viðurkennir að líklega séu fæstir hrifnir af „hugmyndinni um að endurvekja árið 2007 með öllum þeim öfgum, óvarkárni og ójafnvægi sem þá ríkti“. Nýleg endurkoma „almennra fjárfesta í Kauphöllina“ veki þó von í brjósti um að „sárin séu farin að gróa“. Og ef „við höldum rétt á spilunum og flýtum okkur hægt í þetta sinn sé möguleiki á að okkur takist að endurvekja lífsgleðina, samheldnina og bjartsýnina sem glataðist með tálsýninni um íslenska efnahagsundrið.“

Það er til mikils að vinna á fleiri vegu en fjárhagslega, lýkur leiðarahöfundur máli sínu, „með því að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem við getum og freista þess að gera Kauphöllina að vettvangi allra landsmanna á ný.“

Fimmtán árum eftir hrun eru með öðrum orðum enn til afkimar í þessu samfélagi þar sem hægt er að líta svo á að Kauphöllin hafi á einhverjum tímapunkti verið „vettvangur allra landsmanna“. Það hafi falið í sér lífsgleði, samheldni og bjartsýni. Og það megi nokkuð til þess vinna að finnast það ástand ríkja á ný.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí