Fylgi Sjálfstæðisflokksins er í sögulegu lágmarki samkvæmt skoðanakönnunum en fylgi Samfylkingar í hámarki. Diljá Mist Einarsdóttir og Oddný G. Harðardóttir ræddu ríkisstjórnarsamstarfið í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Diljá gerir ráð fyrir því að ríkisstjórnarsamstarfið haldi og að Bjarni njóti fulls trausts. Sjálfstæðismenn ætla að hittast þann 27. ágúst og ræða málin við grasrótina.
Oddný telur hins vegar að formaður Sjálfstæðisflokksins sé í veikri stöðu í kjölfar Íslandsbankasölunnar auk Lindarhvolsmálsins en framhald á umræðum um bæði þessi mál muni veikja hann enn meira.
Þá telur hún að í aðdraganda kjarasamninga og í komandi umræðum um fjárlagafrumvarpið muni veiking velferðarkerfisins koma fram og að ef ekki verði tekið á tekjuhlið almennings í yfirstandandi ástandi muni almenningur mótmæla.
„Innviðir eru að gefa sig” segir Oddný „og við erum með óréttlátt skattkerfi og erum ekki að fá nægilegt gjald fyrir auðlindirnar”. þá segir hún „Við munum aldrei samþykkja niðurskurð í velferðarkerfinu og í þjónustu við veikt fólk.”
Diljá segir útlendingamálin vera mestu óánægjumálin þegar sjálfstæðisfólk tjáir óánægju sína og því verði ríkisstjórnin að vera föst fyrir í þeim málum og megi ekki láta vinsældakannanir stjórna sér. Sama gildi um fjármálakerfið.
Oddný telur Samfylkinguna hagnast á óvinsældum ríkisstjórnarinnar og spáir því að á aðventunni muni ríkisstjórnin springa.