Verktakar breska innanríkisráðuneytisins voru látnir vita af því að bakterían sem veldur hinum banvæna sjúkdómi legionella eða hermannaveiki hefði greinst um borð í prammanum Bibby Stockholm, mánudaginn 7. ágúst síðastliðinn, það er daginn sem umsækjendur um alþjóðlega vernd voru fyrst fluttir um borð í prammann. Pramminn var þó ekki rýmdur fyrr en fjórum dögum síðar.
„Niðurstöður greiningarinnar komu til baka á mánudag. Hvers vegna voru umsækjendurnir ekki fluttir af prammanum samstundis? Þetta er allt heldur óreiðukennt. Fljótfærnislegar ákvarðanir hafa stefnt fólki á prammanum í hættu,“ hafði The Guardian eftir Carralyn Parkes, sem situr í bæjarráði Portland, þar sem pramminn er staðsettur.
Bakterían, sem getur valdið banvænum veikindum, fannst í vatnsleiðslum sem ekki höfðu verið í notkun um hríð. Fólkið sem var flutt um borð í prammann nýverið var það fyrsta til að nota sturtur og hreinlætisaðstæðu um borð í nokkurn tíma, segir í frétt Guardian, án vitundar um sýkingarhættuna sem því fylgdi.