Ráðherra segir „brogaða framkvæmd“ Útlendingalaga vera á ábyrgð ríkislögreglustjóra

Nú um helgina fara samtímis fram flokksráðsþing Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins, eins og fram hefur komið. 40 fulltrúar landsfundar sitja í flokksráði VG, auk aðalmanna í stjórn flokksins, þingmanna, sveitarstjórnarfulltrúa og fleiri. Í dag, laugardag, ávarpaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra flokksráðsþingið, sem fer fram í félagsheimilinu á Flúðum.

Í ræðu sinni sagði Guðmundur Ingi enn vera vindasamt í pólitíkinni, eftir sex ára samfellda stjórnartíð Vinstri-grænna. Hann hóf ræðu sína á að fara yfir þau mál sem honum þykir þörf á að klára „á vakt okkar í því stjórnarsamstarfi sem við erum í núna“.

Endurskoðun stjórnarskrár og auðlindamála

Fyrst á lista Guðmundar Inga var sú „vinna sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður okkar Vinstri grænna hefur leitt varðandi endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins.“ Í þeirri vinnu felist ekki bara uppgjör eftir efnahagshrunið, heldur tímabærar breytingar á við „vernd náttúru og umhverfis sem byggist á varúðar- og langtímasjónarmiðum um sjálfbæra þróun, réttinn til heilnæms umhverfis og almannaréttinn … þjóðareign á auðlindum, sjálfbær nýting þeirra og það principp að enginn geti fengið þau gæði og réttindi sem felast í auðlindunum okkar til eignar eða varanlegra afnota, og auðvitað að réttlátt auðlindarenta sé greidd fyrir nýtingu auðlinda í ábataskyni.“

Næst á lista sagði hann umfangsmikla og þverfaglega vinnu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra að nýrri stefnu um sjávarútveg, undir heitinu „Auðlindin okkar“. Þar hafi „umhverfið og vistkerfin verið sett í öndvegi, þ.e.a.s. hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar er grundvöllur stefnumörkunarinnar.“ Litið sé til hámörkunar verðmæta „innan þeirra marka sem vistkerfin setja okkur og tekist á við hvernig megi tryggja sanngjarna dreifingu þeirra verðmæta“.

Heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins

Í þriðja lagi nefndi Guðmundur Ingi heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins, sem sé á hans eigin borði og gangi vel. Brátt verði kynntar í samráðsgátt stjórnvalda breytingar „til að hækka þau sem minnst hafa í kerfinu, að einfalda alltof flókið kerfi, að fjölga hvötum til virkni og atvinnuþátttöku, að styðja fólk betur í að komast út á vinnumarkaðinn, að öðlast aukna færni til vinnu, og að fjölga hlutastörfum og sveigjanlegum störfum til að styðja við breytta hugsun og framkvæmd.“

Þá vék Guðmundur máli sínu sérstaklega að fötluðu fólki, sem borið hafi skarðan hlut frá borði: „Þó svo að engum sé illa við fatlað fólk, þá eru ennþá alltof miklir fordómar í samfélaginu gagnvart fötluðu fólki og fyrirfram ákveðnar skoðanir á því sem fatlað fólk á að geta, á að vilja og á að gera, en kannski aðallega hvað það eigi ekki að gera eða hvað það geti ekki gert.“ Hann sagði að aukinn skilningur viðhorfsbreytingar veðri ekki á einni nóttu, en þau skref sem verið sé að taka í málefnum fatlaðs fólks „með nýrri mannréttindastofnun, lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Landsáætlun um framkvæmd samningsins hérlendis“ séu sannarlega „stór skref í rétta átt.“

Brýnast að ná niður verðbólgu

Brýnasta málið sagði Guðmundur þó vera að ná niður verðbólgu og háu vaxtastigi, enda væri það „besta kjarabót allra heimila, en sérstaklega þeirra sem minnst hafa á milli handanna.“ Verbólguhorfur hafa skánað, sagði hann, og „maður vonar að stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans í vikunni sé sú síðasta í bili.“

Framundan sagði Guðmundur að væru breytingar á tekjuhlið ríkissjóðs, þar sem horft verði til „breytts gjaldtökukerfis af ökutækjum, aukinnar gjaldtöku á ferðaþjónustu og fiskeldisfyrirtæki og tímabundins aukins tekjuskatts á lögaðila, auk endurskoðunar veiðigjalds sem skila mun talsverðum tekjum í ríkissjóð.“ Allt sé það mjög í takt við stefnu VG.

Framkvæmd útlendingalaga á í höndum ríkislögreglustjóra

Að því sögðu vék ráðherrann máli sínu að útlendingamálum.

„Kæru félagar!“ sagði hann, „Ég ætla ekki að yfirgefa ræðustólinn fyrr en ég hef ávarpað útlendingamálin. Hvers vegna endar sumt fólk sem hefur fengið endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd á götunni? Það er ekki í takt við sýn Vinstri grænna á samfélagið. Var þetta vilji Alþingis? Var það vilji þingmanna stjórnarflokkanna? Var það vilji þingmanna VG?“

Og spurningunni svaraði hann sjálfur: „Nei, kæru félagar, það var klárlega ekki viljinn og það kemur skýrt fram í meðförum Alþingis, í minnisblöðum bæði dómsmálaráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis til Allsherjar- og menntamálanefndar þingsins, í ræðum þess sem hér stendur, og fleiri þingmanna meirihlutans, þ.m.t. framsögumanns málsins. Þannig að þá hlýtur það að vera framkvæmd laganna sem er broguð. Og það er staðreynd.“

Hin brogaða framkvæmd laganna sagði ráðherrann að væri í höndum ríkislögreglustjóra:

„Framkvæmdin er í höndum ríkislögreglustjóra, en hann ber ábyrgð á þjónustu við fólk sem hefur fengið endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Og ríkislögreglustjóri heyrir undir dómsmálaráðuneytið.“

Þessi framkvæmd væri með öðrum orðum ekki á ábyrgð Félags- og vinnumálaráðuneytisins. „Það þýðir hins vegar ekki að maður sitji hjá og horfi á húsið brenna,“ bætti hann við.

Verkefnið er að leysa málið en ráðherrann sagði ekki hvernig

„Ég hef stigið inn í þetta mál í því augnamiði að taka þátt í að leysa það. Leysa það út frá vilja Alþingis, út frá grundvallar mannréttindum, út frá stjórnarskrárbundnum réttindum fólks, og út frá sýn okkar í VG á mannúðlega stefnu í útlendingamálum. Ráðuneyti mitt vinnur þess vegna að lausn með sveitarfélögunum, en þau fara vissulega með hlutverk samkvæmt félagsþjónustulögunum þegar kemur að útlendingum í neyð. Lausn þessi lítur vonandi dagsins ljóss sem allra fyrst, þannig að tryggja megi fólki hið minnsta húsaskjól og mat.“

Guðmundur Ingi sagði að málið væri sér þungbært og hann vissi að það ætti líka við um meðlimi flokksráðsins. „Og þó svo að það hefði aldrei átt að þurfa að koma til þessa, þá er verkefnið núna að leysa málið. Og það verður gert.“

Hann vék hins vegar ekki að því hvernig málið yrði leyst, heldur beindi talinu snarlega að öðrum hliðum málaflokksins:

„En ég get ekki skilið við þennan málaflokk öðruvísi en draga líka fram það sem hefur jákvætt gerst. Í takti við stefnu VG þá höfum við aðskilið þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd frá Útlendingastofnun, við höfum búið til móttökustöð í Domus Medica, hina fyrstu sinnar gerðar, og okkur hefur tekist stórslysalaust að taka á móti gríðarlegum fjölda fólks sem hér fær vernd, fundið því húsnæði, fundið börnum skólapláss, fundið vinnu og komið fólki af stað til að festa hér rætur.“

Eftir að telja upp fleiri slík atriði sagði ráðherrann: „Já, við leysum málin!“

Loks sagði hann um þessar mundir unnið að stefnumótun í málaflokknum, „hinni fyrstu sem unnin hefur verið á Íslandi, meðal annars með aðstoð sérfræðinga frá OECD. Vonandi getur sú stefnumótun orðið leiðarljós í útlendinga- og innflytjendamálum á Íslandi.“

Í leit að baráttumálum

Undir lokin á ræðu hans mátti skilja ráðherrann sem svo að þörf væri á að Vinstri græn tækju upp ný baráttumál, enda hefðu þau þegar komið miklu áleiðis í þeim málum sem áður voru sérstaða flokksins:

„Við höfum komið mörgu til leiðar í ríkisstjórn, við höfum fært átakalínur í íslenskum stjórnmálum, málefni sem áður voru róttæk og komu frá okkur eru orðin að meginstefnumálum, og við sem hreyfing þurfum að spyrja okkur hvort við eigum ekki við slík tímamót að tikka í boxin yfir það sem lokið er og draga nýjar, vinstri grænar línur í hið pólitíska landslag. Endurnýja okkur fyrir næstu kosningar.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí