Samstöðin er komin með öll leyfi til að senda út dagskrá á útvarpsbylgju en vantar fé til að geta hafið útsendingar. Ekki verður byrjað með fulla dagskrá heldur verða þættir Samstöðvarinnar sendir út í beinni og svo endurfluttir ásamt eldri þáttum. Með auknum styrk mun svo sérstök dagskrá verða búin til fyrir útvarpið.
„Það hefur verið reglan hjá Samstöðinni frá upphafi að við gerum ekkert nema hafa efni á því,“ segir Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar. „Fyrst höfðum við engar tekjur og því var allt unnið í sjálfboðavinnu og tækin sem við notuðum voru í eigu vina og vandamanna. Eftir því sem fleira fólk hefur gerst áskrifendur og við höfum fengið styrki og stuðning fólks og félagasamtaka, hefur starfsemin eflst. Við gætum byrjað útvarpssendingar fljótlega eftir verslunarmannahelgina en verðum að sjá fyrir að við getum haldið þeim úti um ákveðin tíma áður en við byrjum.“
Til að halda úti útsendingum á útvarpsbylgju þarf að borga gjöld til hins opinbera og semja við hljómlistarfólk um gjald fyrir flutning tónlistar. Samstöðin er fyrst og fremst með talað mál en mun spila eilitla tónlist á milli dagskrárliða.
Gunnar Smári segir að Samstöðinni vanti um 150 nýja áskrifendur til að geta byrjað. Hægt er að gerast áskrifandi hér: Áskrift. Áskrifendur kjósa flestir að verða samhliða félagar í Alþýðufélaginu, en það félag á Samstöðina. Samstöðin er því í eigu lesenda, áhorfenda og hlustenda. Þau sem gerast áskrifendur eignast fjölmiðil. Áskriftin er aðeins 2.000 kr.
Þau sem ekki vilja gerast áskrifendur geta stutt útvarpssendingarnar með því að leggja styrk inn á reikning Alþýðufélagsins: Bankanúmer: 1161-26-001669 Kennitala: 550891-1669
Eftir verslunarmannahelgi fer dagskrá Samstöðvarinnar í eðlilegan búning eftir sumarleyfi. Rauða borðið færist fljótt yfir á öll virk kvöld, frá mánudegi til fimmtudags. Sanna Reykjavík snýr aftur og líka Helgi-spjall, Vikuskammtur og Sósíalískir feminstar. Rauður raunveruleiki hefur verið vel virkur í sumar en Ungliðaspjallið mun snúa aftur. Í sumar voru Fótboltasögur fyrir svefninn á dagskrá en þeir þættir munu líklega byrja aftur með haustinu. Í haust mun líka byrja nýr þáttur á sunnudagsmorgnum í umsjón Oddnýjar Eir Ævarsdóttur og Möggu Stínu. Og fleiri þættir munu líta dagsins ljós.
Sumarið var m.a. notað til að setja upp annað stúdíó á vegum Samstöðvarinnar. Fólk og félagasamtök sem vilja halda úti þáttum á stöðinni ættu því að senda erindi á samstodin@samstodin.is. Þótt höfuðáherslan Samstöðvarinnar sé samfélagsumræða frá sjónarhóli verkalýðs- og hagsmunabaráttu almennings, þá rúmar Samstöðin alls kyns þætti – ekki bara brauð, heldur líka rósir.
Fréttavefur Samstöðvarinnar hefur verið að eflast undanfarnar vikur. Inn á hann komu yfir 140 þúsund gestir í júlímánuði sem var 22% fjölgun frá júnímánuði. Þetta þykir góður árangur um mitt sumar, þegar vanalega dregur úr áhorfi og lestri fjölmiðla.
„Samstöðin er að byggjast upp nokkuð örugglega. Og ástæða þess er fyrst og fremst aukinn stuðningur almennings,“ segir Gunnar Smári. „Áhorf á umræðuþættina fer vaxandi og ég held að óhætt sé að segja að alla daga séu þetta stærstu fundirnir um samfélagsmál á landinu. Fréttavefurinn hefur styrkst og æ fleiri sækja þangað fréttir. Með því að senda út á útvarpsbylgjum nær dagskráin til fleiri, ekki síst til þeirra sem eru lokaðir inn í bílum í umferðarteppu borgarinnar.“
En hvert ætlar Samstöðin sér?
„Við höfum farið að ráðum Páls postula sem sagði fólki að reyna allt og halda því sem gott er,“ segir Gunnar Smári. „Við höfum leyft okkur að æfa okkur fyrir framan fólk. Við erum því sannarlega að sigla skipinu meðan við smíðum það. Við höfum einfaldlega ekkert fé til að æfa okkur fyrst. Samstöðin er því casual TV, hversdagslegt, þar er enginn hátíðleiki og ekki verið að reyna að stilla upp neinum glansmyndum. Það er úr þessari deiglu, getu okkar og viðbrögðum áhorfenda og lesenda sem framtíðin sprettur fram. Það á við um útvarpið. Við getum byrjað og munum gera það þegar nógu stór hópur hefur lagt því verkefni lið.“