Segir mannúðarkrísu ríkja á Íslandi og kallar eftir róttækri byltingu innan úr kerfinu

Flóttafólk 3. ágú 2023

Sema Erla Serdaroglu, stofnandi Solaris, hjálparsamtala fyrir hælisleitendur og flóttafólk, segir mannúðarkrísu ríkja á Íslandi. Hún birtist nú helst í því að mikill fjöldi einstaklinga með flóttabakgrunn hafa nú þegar verið sviptir þaki yfir höfuðið, sviptir framfærslu og mikilvægri þjónustu eins og td. heilbrigðisþjónustu eða telja niður dagana þar til þeir verða í þeim hópi. Á næstu vikum og mánuðum getur þessi staða náð til nokkuð hundruð einstaklinga.

„Þetta þýðir að á Íslandi er nú hópur fólks á flótta sem á ekki í nein hús að vernda og er á götunni. Þau eru heimilislaus. Þau sofa undir berum himni,“ skrifar Sema Erla á Facebook-síðu sína. „Fólkið á ekki fyrir mat, það er með lítið sem ekkert af eigum og það hefur ekkert bakland. Fólkið er því ansi berskjaldað gagnvart hvers kyns ofbeldi, misnotkun og jafnvel sjálfsskaða. Aðrir eru í felum frá yfirvöldum, þeirra á meðal börn, og enn aðrir sjá ekki tilgang í að lifa lengur þar sem þau héldu að þau væru komin í skjól en frekari flótti, vergangur og áföllin sem því fylgir eru það sem blasir við.“

„Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, vinstri grænna og framsóknar með Jón Gunnarsson og alla hina dómsmálaráðherra síðustu ára, Bryndísi Haraldsdóttur, Bjarna Benediktsson, Katrínu Jakobsdóttur, Guðmund Inga Guðbrandsson og Ásmund Einar Daðason í fararbroddi hafa með stefnu sinni og löggjöf í málefnum fólks á flótta búið til alvarlega mannúðarkrísu á Íslandi,“ skrifar Sema Erla á síðu sína.

Sema Erla segir að þetta sé staða sem einstaklingar og sjálfboðaliðasamtök ráða ekki við. „Það var varað við því að þetta myndi gerast með nýju lögunum og það var sagt að samfélagið myndi vera máttlaust gagnvart þessari stöðu. Það var ekki hlustað þá. Það er ekki hlustað núna. Því þetta er það sem ríkisstjórnin og annað stuðningsfólk kerfisbundins rasisma, mismunun í garð flóttafólks og mannréttindabrota skrifuðu undir,“ skrifar Sema Erla.

„Það eina sem mun geta stöðvað þessa hörmulegu mannúðarkrísu sem nú ríkir á Íslandi er róttæk bylting á kerfinu innan frá,“ er niðurstaða Semu Erlu.

Og hún ávarpar allar þær stofnanir sem koma að málefnum hælisleitenda og fólkið sem þar vinnur: „Sveitarfélög! Stofnanir! Yfirvald! Starfsfólkið sem ber ábyrgð á að framfylgja þessari grimmilegu meðferð á fólki og misbýður siðleysið og ómannúðleg meðferð á flóttafólki þarf að mótmæla og neita að framfylgja skipunum sem embættismenn skrifa undir í vellystingum sínum um að setja fólk í viðkvæmri stöðu á götuna, klippa á kortin þeirra og neita þeim um læknisþjónustu án þess að þurfa nokkurn tímann að horfast í augu við fólkið og upplifa örvæntingu þeirra,„ skrifar Sema Erla.

Og heldur áfram með ákallið: „Þið sem fóruð að starfa í þessu kerfi til þess að „breyta því innan frá“ – það er komið að ykkur!“ skrifar hún. Og bætir við: „Þar til róttæk bylting gegn kerfinu hefst (innan frá) og stjórnvöld sitja sem fastast mun staðan halda áfram að versna og við verða máttlausari gagnvart þessu ríkisofbeldi gegn flóttafólki!“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí