Starfsmenn sem unnu við efnissíun fyrir Facebook höfða nú mál vegna sálræns skaða

Meðal þeirrar ósýnilegu vinnu sem liggur að baki internetinu eins og við þekkjum það, er fjöldi fólks sem starfar við að sía út skaðlegt myndefni sem notendur gera tilraunir til að birta á samfélagsmiðlum. Myndir af aftökum og sjálfsvígum eru þar á meðal. Eitt verktakafyrirtækjanna sem hefur miðlað slíkum verkefnum fyrir hönd Facebook er bandaríska útvistunarfyrirtækið Sama. Fjöldi fólks sem unnið hefur við efnissíun á þess vegum í Kenýa hefur nú höfðað mál á hendur fyrirtækinu, og segjast glíma við áfallstreituröskun eftir verkefnin. Þetta kemur fram í umfjöllun The Guardian.

Vinnumarkaðsdómstóll í Kenýa hefur þegar móttekið vitnisburð um vinnuaðstæður. Í skriflegum vitnisburði segir einn fyrrum starfsmaður: „Ég man eftir fyrstu upplifun minni af manndrápi í beinni útsendingu … ég stóð upp, ómeðvitaður, og öskraði. Í mínútu gleymdi ég næstum hvar ég var og hver ég var. Allt þurrkaðist út.“

Hvorugt fyrirtækið segist eiga sök í málinu

Daniel Moataung var ráðinn til slíkra síunarverka af Sama árið 2019. Á síðasta ári höfðaði hann mál gegn bæði Sama og Meta, móðurfyrirtæki Facebook, og sagðist hafa orðið fyrir tjóni af myndefni og öðru áfallavaldandi innihaldi sem hann hefði staðið frammi fyrir við störf sín. Hann sagði að sér hefði ekki verið gert viðvart um að slíks væri að vænta áður en hann tók verkið að sér, né hafi hann notið sálræns stuðnings við störf sín, sem hefðu valdið honum áfallastreituröskun. Þá sagði hann að honum hefði verið sagt upp störfum eftir að hann lagði sig eftir stofnun stéttarfélags með samstarfsfólki sínu, til að berjast fyrir bættum vinnuaðstæðum.

Fulltrúar Meta hafa svarað ásökununum og segja fyrirtækið ekki eiga hlut að máli, aðeins sé við milliliðinn Sama að sakast, ef það fyrirtæki hefur ekki uppfyllt þau skilyrði sem Meta setji um viðunandi vinnuaðstæður og sálrænan stuðning. Sama heldur því að sama skapi fram að „vellíðunarráðgjafar“ standi starfsfólki fyrirtækisins ávallt til boða.

Dómstóll í Kenýa úrskurðaði í febrúar síðastliðnum að mál sem fyrrum starfsmaður hafði höfðað á hendur Sama vegna slíks tjóns væri tækt til meðferðar fyrir dómstólnum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí