Í liðinni viku komu meðlimir stéttarfélaga um alla Nígeríu saman til mótmæla, í baráttu gegn hækkandi framfærslukostnaði. Að sögn talsmanna félaganna eru efnahagsaðgerðir nýkjörins forseta, Bola Ahmed Tinubu, ónógar til að kljást við vandann, en árleg verðbólga í landinu mælist nú um 22 prósent.
Stéttarfélögin saka forsetann einnig um að milda ekki nægilega áhrifin af ákvörðunum á við að fella niður niðurgreiðslu eldsneytis. Niðurgreiðslan hefur varað í áratugi og niðurfelling hennar ríflega tvöfaldaði verð á eldsneyti til neytenda, sem hafði um leið veruleg áhrif á verð matvæla og annars neysluvarnings.
Í umfjöllun AP um málið er haft eftir Joe Ajaero, forseta regnhlífarsamtaka stéttarfélaganna, að eftir niðurfellingu niðurgreiðslanna komist fólk ekki frá einum stað á annan. Ferðakostnaður innan margra borga hefur tvöfaldast, til samræmis við eldsneytisverð, en 63 prósent íbúa landsins búa þegar við fjölþætta fátækt.
Stéttarfélögin hafa lagt til að kjarasamningar verði teknir til endurskoðunar í ljósi stöðunnar, en að sögn Ajaero hafa stjórnvöld ekki tekið tillöguna til skoðunar.