Á undanliðnum dögum hefur borið mikið á nýju orðfæri frá dómsmálaráðherra og öðrum handhöfum ríkisvaldsins, í kringum málefni flóttafólks. Ljóst er, eins og tíðkast, að stjórnvöld hyggjast beita valdi sínu til áhrifa á orðfæri almennings gegnum fjölmiðla, þá einkum með því að draga úr og grugga hugtök um valdbeitingu hins opinbera, annars vegar, en skerpa og ýkja lagalegar skilgreiningar um þá sem verða fyrir þeirri valdbeitingu hins vegar.
Fyrst varð vart við þessa tilhneigingu í tali ráðherra, til dæmis, þar sem vandræðahugtök á við móttökubúðir, brottvísunarbúðir og endursendingarbúðir hafa orðið að „búsetuúrræði með takmörkunum“. Þingmenn Pírata hafa haldið því til streitu að tala tæpitungulaust um hvers konar fyrirbæri er um að ræða og hvað takmarkanir þýða í þessu samhengi, að átt er við einhvers konar fangabúðir.
Þá hafa stjórnvöld talað um „niðurfellingu þjónustu“ þegar átt er við að bera fólk út á götu og skilja það þar eftir, ekki aðeins án þjónustu heldur án réttarins til sjálfsbjargar: án leyfis til að vinna fyrir sér, til að skýrasta dæmið sé tekið.
Ósamvinnufúst fólk, á eigin ábyrgð
Ráðherra hefur rökstutt þessa niðurfellingu á þjónustu með því að eftir synjun umsóknar um vernd sé umsækjandi hér „á eigin ábyrgð“, þegar sama ríkisvald gerir sömu manneskjum einmitt ókleift að axla ábyrgð á tilveru sinni, með því að banna þeim að vinna fyrir sér.
Eins og lögin sjálf eftir nýlegar breytingar nota stjórnvöld nú það orðfæri að fólk sé ekki „samvinnufúst“ ef það lætur sig ekki hverfa, til dæmis þegar það á ekki í önnur hús að venda. Í sumum tilfellum vita stjórnvöld að það er svo. Það á til dæmis við í tilfelli Blessing Newton, sem fréttir herma að hafi verið synjað um vernd, ekki vegna þess að efast sé um að hún hafi sætt mansali og sé í hættu, heldur vegna þess að stjórnvöld líta ekki á skilríki hennar sem traustvekjandi. Engin ástæða virðist til að efast um frásögn hennar, en í bókum stjórnvalda heitir sú staða sem hún er í nú einfaldlega að hún sé ekki samvinnufús.
„Sjálfviljug heimför“ er skylt hugtak, þó að það hafi verið lengur í umferð: stundum hefur sjálfviljug heimför farið fram í lögreglufylgd alla leið upp á völl.
Þá hefur ráðherra látið það frá sér að landamæri Íslands séu ekki opin heldur lokuð. Það hefði þótt sæta tíðindum þegar sóttvarnir vegna heimsfaraldursins stóðu hæst og framámenn í Sjálfstæðisflokknum börðust ötullega fyrir því að landamæri Íslands yrðu opnuð á ný, sem flestir töldu að hefði einmitt orðið ofan á.
Þú skalt segja ólögmæt dvöl
Þetta eru aðeins nokkur dæmi. En frá og með þriðjudegi þessarar viku er þessi viðleitni yfirvalda til að hafa stjórn á málnotkun í þessu samhengi ekki bundin við talmáli ráðamanna sjálfra, heldur hefur hún birst skriflega, í textum með andblæ fyrirmæla, þó að engin valdheimild liggi þar að baki. Á þriðjudag lét Dómsmálaráðuneytið frá sér fréttatilkynningu með yfirskriftinni „Varðandi niðurfellingu þjónustu vegna umsókna um vernd“. Fréttatilkynningin er að meginuppistöðu röð orðskýringa og skilgreininga ráðuneytisins á hugtökum. Þar á meðal má finna sitthvað af ofangreindu, þó með fastara formi en þegar það berst aðeins úr munni ráðamanna. Annað er nýtt.
Lykilkafli í tilkynningunni ber yfirskriftina Ólögmæt dvöl – ekki „umborin dvöl“. Þar segir að því hafi verið ranglega haldið fram að manneskjurnar sem stjórnvöld úthýstu á dögunum séu í umborinni dvöl á landinu, eftir synjun séu þau hér í ólögmætri dvöl. „Röng notkun hugtaksins,“ segir ennfremur í fréttatilkynningunni „gefur villandi til kynna að dvöl umræddra útlendinga hér á landi sé að einhverju leyti lögleg eða í „hálfgerðu lagalegu tómarúmi“, en svo er alls ekki.“
Þessi áhersla ráðuneytisins gefur þannig til kynna að með því einu að vera á tilteknum stað, innan tiltekinna landamæra, gerist manneskjurnar sem í hlut eiga sekar um lögbrot, án þess að nokkur dómur hafi fallið í þá veru. Ekki er ljóst hvaða tilgangi slíkt stílbrot innan réttarríkis þjónar, nema þá að rægja fólkið sem í hlut á og ýta undir andúð almennings á því, eins og þingmaður Pírata hefur orðað það.
Taumhaldið á tungunni
Í dag, miðvikudag, birtist loks í Vísi grein frá þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Diljá Mist Einarsdóttur, undir fyrirsögninni „Hverjir eru flóttamenn?“. Á greininni má skilja að þingmaðurinn líti svo á að tungumál lúti vilja löggjafans. Þeir einir eru samkvæmt skilningi þingmannsins flóttamenn sem ferli og duttlungar stjórnvalda hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að séu flóttamenn. Þingmaðurinn skrifar:
„Við hljótum t.a.m. að gera ríkar kröfur til fjölmiðlafólks um að það viðhafi fagleg vinnubrögð, m.a. með því að nota hugtök eins og flóttafólk ekki á rangan hátt. Enda er það mikilvægt fyrir almenning sem treystir á réttar og sannar upplýsingar og heiðarlega framsetningu úr þeim ranni, sem er í samræmi við siðareglur blaðamanna.“
Þannig ýjar þingmaðurinn að því að það varði við siðareglur þegar orð sem fyrirfinnast innan laganna eru notuð á annan hátt en löggjafinn gerir sjálfur. Svo lengi sem yfirvöld viðurkenna ekki rétt Blessing Newton sem flóttamanns, í krafti þess til dæmis að skilríki hennar þykja ekki nógu góð, ætti, samkvæmt þingmanninum, enginn að tala um hana sem flóttamann.
Af greininni mætti einnig ráða að skyldu stjórnvöld reyna að opna „búsetuúrræði með takmörkunum fyrir umsækjendur um vernd eftir synjun fram að framkvæmd brottvísunar“, ættu almenningur og fjölmiðlar ekki að leggja sig eftir því að sjá í gegnum moðið og nota vel þekkt og mátuleg orð yfir stofnanir sem eru reistar til að læsa fólk inni. Ekki segja lokaðar flóttamannabúðir, fangabúðir, hvað þá fangelsi, eins þó að einhverjum þætti slíkt orðfæri meira lýsandi fyrir áformin. Þingmaðurinn virðist líta svo á að hver sem talar skýrt þegar stjórnvöld vilja rósamál hljóti þar með að vera brotlegur við eitthvað, þó ekki væri nema siðareglur blaðamanna.