Stjórnvöld ýta undir andúð almennings í garð fólks í gríðarlega viðkvæmri stöðu, segir þingmaður

Nú á þriðjudag gaf Dómsmálaráðuneytið út fréttatilkynningu til að bregðast við umfjöllun fjölmiðla um þá krísu sem komin er upp eftir gildistöku nýrra ákvða Útlendingalaga. Tilkynningin er eins konar upptalning á túlkunum og skilgreiningum ráðuneytisins. Þar má meðal annars finna undirfyrirsagnirnar: Ísland er ekki með opin landamæri, Ekki í boði að „leyfa þeim bara að vera“ og síðast en ekki síst: Ólögmæt dvöl – ekki „umborin dvöl“. Í þeim kafla tilkynningarinnar leggur ráðuneytið áherslu á að sá hópur sem um ræðir sé ekki í umborinni dvöl á landinu heldur ólögmætri dvöl, enda hafi fólkið „ekki leyfi til að dveljast hér og ber lögum samkvæmt að yfirgefa landið.“

Það alvarlegasta eru áhrifin á þetta samfélag

„Þetta er náttúrulega bara orðaleikur,“ segir Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, um þennan greinarmun. „Þetta hugtak „umborin dvöl“ er notað yfir einstaklinga sem er ekki hægt að flytja úr landi, því vanalega ef fólk er í ólögmætri dvöl, þá er það bara flutt úr landi.“

Áherslan á þessa skilgreiningu virðist þó opna fyrir þá túlkun að fólkið sem um ræðir hafi þegar gerst sekt um einhvers konar lögbrot, með því einu að vera hér.

„Sannarlega. Það er það sem er alvarlegast við þetta. Það alvarlegasta við þetta allt saman eru áhrifin á þetta samfélag, sem þessi orðræða stjórnvalda og þessi viðhorf þeirra hafa. Það sem þau eru að gera þarna er að ýta undir andúð gegn þessum einstaklingum. Og það er bara stórhættulegt. Það er mjög alvarlegt mál. Það er það sem þessi lög gerðu fyrst og fremst, og snerust um. Þau gengu fyrst og fremst út á það, að senda fólki þau skilaboð að það sé ekki velkomið. Þessi lög spara engan pening. Þau auka enga skilvirkni. Þau gera ekkert annað en að senda hatursfull skilaboð út til fólks. Og það er það sem er verið að gera með þessu orðalagi. Þau eru bara að ýta undir andúð almennings í garð einstaklinga í gríðarlega viðkvæmri stöðu. Þetta er bara ógeðslegt, ég ætla bara að segja það.“

Henda fólki á götuna til að fangelsi líti út sem lausn

Eins og Samstöðin greindi frá fyrr í dag, þá lýsti dómsmálaráðherra því yfir við mbl.is að hún hafi í hyggju að leggja fram frumvarp sem myndi gera stjórnvöldum kleift að loka í einhvers konar fangabúðum þann hóp sem úthýst hefur verið úr úrræðum fyrir umsækjendur um vernd.

Arndís Anna segir að stjórnvöld hafi ýjað að þessu fyrir löngu. „Og auðvitað hvarflar að manni að þau hafi haft þetta í hyggju og séð þetta sem ágæta leið að því, að henda fólki á götuna og búa þá til einhverja lausn úr þessu fangelsi sem þau vilja byggja upp.“

Hún sagði það mestu varða að breytingar og tillögur Sjálfstæðisflokksins leysi engan vanda. „Þær leysa ekkert af þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir. Það er engin lausn fólgin í þessum tillögum stjórnvalda. Þau eru bara að loka augunum fyrir hinni raunverulegu áskorun sem þau ættu að vera að einbeita sér að, sem er að byggja hér upp gott, frjálst og öruggt samfélag.“

Það er verið að byrgja þeim allar dyr og alla glugga

Blaðamaður bar undir Arndísi ummæli fjármálaráðherra frá því fyrr í sumar, þegar haft var eftir honum að kostnaður við hverja manneskju sem dveldi hér eftir synjun væri um 350 þúsund krónur á mánuði. Er sennilegt, burtséð frá öllum mannúðarspurningum, að lokaðar búðir yrðu hagkvæm lausn?

„Ég get ekki ímyndað mér það,“ svaraði Arndís. „Það eru mjög miklar kröfur gerðar á alþjóðavettvangi til lokaðra úrræða, sem eru mjög dýr.“ Hún bætti því við að ástæðan fyrir kostnaði við dvöl einstaklinga sem bíða eftir svari eða eru búnir að fá synjun er að þau fá ekki að vinna. „Það er verið að neita þeim um að vinna. Þau eiga ekki kost á atvinnuleyfi, nema með mjög ströngum skilyrðum sem mjög fá þeirra geta uppfyllt. Það er verið að byrgja þeim allar dyr og alla glugga.“

Aðspurð hvað hún telji búa að baki þessari vegferð svarar Arndís: „Ég held að það séu fordómar. Og skilningsleysi á stöðu þessara einstaklinga. Fordómar og fáfræði. Og síðan bara það klassíska, rasismi. Það er bara þannig. Það er alþekkt og eitthvað sem mannkyn hefur verið að glíma við í lengri tíma. Við erum ekki saklaus af því, frekar en aðrir.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí