Þingið kallað saman 12. september – en ekki Silfrið

Silfrið, umræðuþáttur Ríkissjónvarpsins, er ekki á auglýstri dagskrá haustsins, en vanalegur hefur þátturinn byrjað um sama leyti og Alþingi. Þingið kemur saman þriðjudaginn 12. september en Silfrið er ekki á dagskrá sunnudeginum áður og heldur ekki sunnudeginum á eftir. Og engan sunnudag svo langt sem birt dagskrá nær, til og með 8. október.

Í stað Silfursins er þetta kynnt í dagskrá Ríkissjónvarpsins sunnudaginn 10. september, tveimur dögum fyrir þingsetningu:

Sunnudagsmorgun

„Það verður kaffiilmur í myndverki sjónvarpsins alla sunnudaga í vetur. Þá tekur Gísli Marteinn Baldursson á móti góðum gestum sem fara yfir fréttir á vikumótum og ræða stjórnmálin, menninguna og samfélagið. Útsendingu stjórnar Jón Egill Bergþórsson.

Hugleikur Dagsson listamaður, Ragna Árnadóttir fyrrverandi ráðherra og Gerður Kristný skáld verða í sófanum og spjalla um helgarblöðin, Bubbi Morthens og Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður ætla að útkljá deilur sínar um höfundarétt, niðurhal og netþjófnað, Björk Vilhelmsdóttir varaþingmaður og Brynjar Níelsson þingmaður skiptast á skoðunum um nektarstaði, Grímur Atlason framkvæmdastjóri Iceland Airwaves og tónlistarkonan Sóley segja frá því hvað Airwaves gerir fyrir íslenskt tónlistarlíf og efnahag þjóðarinnar og Unnsteinn Manuel Stefánson úr Retro Stefson tekur eitt lag í lokin.“

Og það er heldur ekkert Silfur sunnudagana á eftir. Það virðist því fallið af dagskrá Sjónvarpsins. Og ólíklegt að aðrar sjónvarpsstöðvar taki það upp, nema kannski Samstöðin.

Silfur Egils hóf göngu sína á Sjá einum aldamótaárið 2000 þegar Egill Helgason var 41 árs gamall. Síðar fór Silfrið yfir á Stöð 2 og þaðan yfir á Ríkisútvarpið. Nafnið var svo stytt í Silfrið 2017 þegar Fanney Birna Jónsdóttir tók við umsjón á móti Agli. Síðan hafa fleiri komið að. Það er einstakt að þáttur hafi flakkað svona á milli stöðva, fæstir þættir lifa það af þegar slíkt er reynt. En þátturinn hefur breytt um karakter á þessari ferð, byrjaði sem kæruleysislegur og hispurslaus spjallþáttur á hálfgerðri unglingastöð, fór í gegnum bólur og hrun og endaði sem hálfgerð stofnun á Ríkisútvarpinu.

Innan Ríkissjónvarpsins hafa verið uppi hugmyndir um nýjan fréttaskýringa og umræðuþátt um helgar til að taka við af Silfrinu. Vel má vera að slíkur þáttur skjóti upp kollinum og komi í stað endursýninga á gömlum umræðuþáttum, sem líklega eldast verst alls sjónvarpsefnis.

Myndin er af Agli Helgasyni og Sigríði Hagalín Björnsdóttur að stýra síðasta Silfri síðasta vetrar, sem líklega var síðasta Silfrið á dagskrá Ríkissjónvarpsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí