Þjóðin blekkt um að hún fái viðunandi þjónustu í mölbrotnu heilbrigðiskerfi í staðinn fyrir að henda flóttamönnum úr landi

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, segir að búið sé að blekkja drúgan hluta landsmanna um að með því henda úr landi nokkrum flóttamönnum þá muni hinn almenni Íslendingur skyndilega fá viðunandi þjónustu í mölbrotnu heilbrigðiskerfi. Nú eða húsaskjól á hvellsprungnum húsnæðismarkaði. Kristinn segir í pistli sem hann birtir á Facebook að fasistar Íslands glotti við tönn og búast við því að flokksfylgið fari að stíga.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Kristins í heild sinni.

Þegar gestur minn á Íslandi frá Brasilíu, heyrði tal mitt við þriðja mann um að ættingi hefði tryggt sér húsnæði hjá „Búseta“, saup gesturinn hveljur. Í Brasilíu er orðið svo subbulegt og gróft að hörðustu glæpamenn í gengjum favellu Ríóborgar taka sér það varla í munn án þess að roðna. Búseta er sum sé ljótt niðrandi orð yfir sköp kvenna en virðist miklu grófara en hliðstætt orð í Íslensku sem ég segi bara fyrir viðkvæma lesendur að byrji á t og rími við mussa.

Síðan hafa sérstök hugrenningartengsl vaknað við þetta orð, sérstaklega á það við þegar rætt er um búsetuúrræði í samhengi við hælisleitendur. Eins og Þórður bendir á eru nærri 90% flóttamanna hérlendis (sem hljóta vernd) frá löndum sem fengu skilaboð um að senda hingað sína hrjáðu (Úkraínu og Venesúela) en hinir fá á baukinn fyrir að vera afætur og lúsaplága þrátt fyrir sannanir um annað.

Þegar knattspyrnumenn eru seldir dýrum dómum þarf að greiða vissa fjárhæð til allra félagsliða sem ólu viðkomandi upp enda kostar sitt að ala upp afreksmenn frá unga aldri. Hingað eru hins vegar að koma leikmenn ókeypis, mótað vinnuafl sem brýn þörf er fyrir, því varla er hægt að manna liðin. Rökleysan er alger.

Flóttamenn eru verðmæti fyrir þjóðfélagið, ekki afætur.

Undirliggjandi í þessu máli er óþægilegur sannleikur. Það fylgir vofu fasismans sem gengur ljósum logum víða um heim, það áform að búa til óvin úr flóttafólki. Sú vofa hefur tekið land á Íslandi. Flóttamenn eru fasistum nútímans það sem Gyðingar voru Nasistum Þriðja ríkisins. Óvinurinn sem á að beina óánægjunni að. Beina hatrinu að. Losna við. Láta hverfa. Rýma úr landi – útrýma.

Í hásætissal ráðuneytis hælisleitenda hefur nú tekið sæti drottning sem fær það hlutverk að framfylgja stefnu meirihluta Alþingis frá í vor og frysta óæskilega fólkið úti. Hún er kölluð ísdrottning og hefur í anda hásætisleikanna (Game of Thrones) hótað vetrarhörkum. Í stóra hásæti forsætis er önnur drottning sem kóar með af kvenlegri mildi hins kristilega kærleika. Nú er rætt um að redda málum með „lokabúsetuúrræði með takmörkuðu ferðafrelsi“ þannig að „óværan“ geti komið inn af götunni þegar kólnar. Þetta „úrræði“ myndi hinn brasilíski gestur  skilja sem „tussulegar fangabúðir“. Þaðan á svo að rýma óæskilega fólkið út úr landi – þetta verða því íslenskar útrýmingarbúðir.

Drjúgur hópur landsmanna lætur blekkjast af hatursboðskapnum og telur að með þessu sé verið að tryggja að íslendingar sem standa höllum fæti, fái loks viðunandi þjónustu í mölbrotnu heilbrigðiskerfi eða á hvellsprungnum húsnæðismarkaði. Auðvitað er það villa en áróðurinn selur. Gerði það áður og gerir það enn. Fasistinn glottir við tönn og telur víst að með þessari hatursfullu aflúsunarstefnu muni flokksfylgið stíga. Það er ekki útilokað.

Winter is coming.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí