Útlendingar eru þriðjungur fólks í landinu og leggja meira til hagkerfisins en hin

Á Íslandi er fólk með erlendan bakgrunn, að meðtöldum 61.000 innflytjendum, yfir 6.500 annarrar kynslóðar innflytjendum, og öðru fólki af erlendu bergi brotið, alls um 100.000 manns, eða um fjórðungur íbúa og vinnuafls. Þetta segir Friðrik Jónsson, sem áður var forseti Bandalags háskólamanna en starfar nú hjá Utanríkisráðuneytinu, í Facebook færslu á sunnudag.

Útlenski þriðjungurinn á landinu leggur mest til hagkerfisins

Friðrik bendir á að á landinu megi að jafnaði finna um 50 þúsund ferðamenn á degi hverjum – fleiri á sumrin, færri á veturna. Alls þrammi því um landið um 450 þúsund manns á degi hverjum og af þeim sé um þriðjungur „útlendingar“ í víðasta skilningi þess orðs. „Það er einfaldlega beinhörð efnahagsleg staðreynd,“ bætir hann við, „að þessi þriðjungur leggur hlutfallslega meira til hagkerfisins en hin. Eðlilega, þar sem ferðaþjónustan er orðin jafn mikilvægur þáttur í gjaldeyrissköpun og raun ber vitni – meira en sjávarútvegur og stóriðja samanlagt.“

Að því sögðu víkur hann talinu að umræðu um flóttafólk: „Á síðasta ári sóttu 4.518 manns um vernd hér á landi – flóttafólk. Rétt ríflega 1% af þeim heildarfjölda sem er hér á landi dag hvern – ríflega 3% af okkur „útlendingunum“. Stærsti hluti flóttafólks frá annars vegar Úkraínu og hins vegar Venesúela.“ Hann bendir á að sú aukning hafi orðið á tiltölulega skömmum tíma, flóttafólki frá Úkraínu hafi vitaskuld fjölgað vegna innrásar Rússa í landi og þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnar Íslands að veita flóttamönnum þaðan sérstaka meðferð, á meðan aukningin frá Venesúela hafi byrjað árið 2019. Alls geri fjárlög þessa árs ráð fyrir 4.900 umsóknum um vernd á árinu, og að kostnaður við vegna þess verði um 3,2 milljarðar. „Það eru 0,25% af heildarútgjöldum fjárlaga 2023“.

Velsæld og velferð Íslendinga er undir útlendingum komin

„Þessar staðreyndir eru hluti þess sem gerir það að verkum að „útlendingamál eru í tómu tjóni“ samkvæmt einstaka stjórnmálamönnum. Tilvitnun þessi er t.d. fengin frá Sigmundi Davíð. Ég er ekki sannfærður. Og því fer raunar fjarri.“

„Því hvað er í tómi tjóni?“ spyr hann. „Sigríður Andersen má eiga það að hún kjarnaði það í komu flóttamanna frá Venesúela – jú, jú, mikill fjöldi umsókna þaðan er sérkennileg. En stærsti vandinn virðist vera að kerfi afgreiðslu umsókna virðist full hægfara m.v. álagið og þar þarf ekki lagabreytingar til. Aukið fjármagn og aukin mönnun til að flýta afgreiðslu gæti þar án efa gert töluvert. En það breytir því ekki að „útlendingamál eru í tómu tjóni“ er of sterkt til orða tekið. “

Friðrik heldur áfram: „Staðreyndin er einfaldlega sú að framtíðar vöxtur, velsæld og velferð Íslands og íslendinga er undir útlendingum komin. Við þurfum fleira fólk til að vinna fleiri verk. Nema við séum tilbúin til að setja hömlur á vöxt og viðgang mannaflsfrekra atvinnugreina eins og byggingariðnaðar, ferðaþjónustu og velferðarþjónustu. Nú eða vöxt og viðgang hátekju- og hátæknigreina sem kalla á aðflutt sérfræðivinnuafl sem við eigum einfaldlega ekki nóg af heldur.“

Áhyggjur af menningu hundaflauta fyrir kynþáttahyggju

Þá bendir Friðrik á þá þekktu hundaflautu í hópum þeirra sem uppsigað er við innflytjendur að fjargviðrast yfir menningaráhrifum af tilveru þeirra: „Og hvað varðar menningarþáttinn sem á víst að standa einhver ógn af – er það ekki hundaflauta fyrir lítt dulda kynþáttahyggju?“ Hann nefnir að skráðum múslimum á landinu hefur undanliðin 20 ár fjölgað úr 230 í 1.120, eða innan við 0,3 prósent af heildarfjölda landsmanna, en kaþólskum úr um 5.000 í tæp 15.000. „Er það hræðilegt?“ spyr Friðrik. „Á sama tíma hefur fólki utan trú- og lífskoðunarfélaga fjölgað úr 6700 í tæp 30 þúsund,“ segir hann, „og þau sem ekki skilgreina sig innan neinna þeirra tæplega 60 trú- og lífskoðunarfélaga sem skilgreind eru hjá Hagstofu hefur fjölgað á sama tíma úr tæplega 7800 í næstum 73 þúsund. Ætli það séu ekki mest allt innfæddir?“

Þurfum að gera betur í að taka á móti útlendingum

Allt að einu, segir Friðrik, „þessi útlendingaumræða undanfarið hefur verið að fara í taugarnar á mér. Hún er hallærisleg – og já, getur beinlínis verið hættuleg. Mér rennur líka blóðið til skyldunnar verandi af erlendu bergi brotinn sjálfur.“

„Útlendingar eru ekki vandamál – við þurfum hins vegar að gera betur í að taka á móti útlendingum. Sérstaklega þeim sem ætla að setjast hér að og komin eru til að vinna, búa og læra. Það verður t.d. að auka aðgengi að íslenskukennslu. En þar stendur á okkur sem fyrir erum, ekki satt?“

Við hljótum, segir hann að lokum, „að gera þá kröfu að þau sem segja „út­lend­inga­mál eru í tómu tjóni“ tali þá skýrt um nákvæmlega hvað það er sem þau eiga við og hvað þau vilji að verði gert.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí