Rannsóknablaðamennska heimsins er í hættu. Franskir blaðamenn safnast saman á Lýðveldistorginu eftir handtöku og yfirheyrslur blaðamanna í kjölfar uppljóstrana á ríkisleyndamálum.
Á úlfatímanum – sex að morgni – á þriðjudag réðst franska öryggislögreglan og hryðjuverkavarðsveitin inn á heimili rannsóknarblaðakonunnar Ariane Lavrilleux vegna skrifa hennar um hugsanlegan þátt franska ríkisins í stríðsglæpum í Egyptalandi en vísað er til málsins sem Sirli-skandalsins sem talinn er varða þjóðaröryggi.
Blaðakonunni ungu var haldið í varðhaldi í tæpa tvo sólarhringa og hún krafin um að vísa á heimildarmenn sína. Blaðakonan neitaði og var látin laus í kjölfarið á mótmælum kollega hennar. Franskir blaðamenn fylkja sér um blaðakonuna og krefjast skýrari laga um verndun heimildarmanna því nú sé lýðræðið að veði og aðför að störfum blaðamanna heims.
Í viðtali við France info í dag er blaðakonan spurð út í kröfu blaðamannsstéttarinnar um aukna vernd heimildarmanna, hvers vegna hún sé svo mikilvæg og hún spyr á móti: Hver þorir annars að koma upp um alvarlega glæpi gegn ríkinu eða óréttlæti innan okkar meginstofnanna? Þessi vernd er grundvöllur lýðræðis okkar. Og ekki eingöngu franskir blaðamenn taka undir þau orð því í dag var haldinn blaðamannafundur á vegum ESB um málið og það ítrekað að slík aðför að blaðamönnum væri óásættanleg í lýðræðisríkjum og sambandsríkin hvött til að endurskoða lagaramma sína með tilliti til grundvallarlögmáls réttarríkisins.