Borgin var í órétti er hún krafði íbúa félagslegs húsnæðis um að taka á móti heimsóknum starfsfólks

Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu á síðasta ári að skilmálar sem félagsþjónusta Reykjavíkurborgar hafði sett í leigusamning fyrir félagslegt húsnæði, um að íbúi skyldi taka við heimsóknum starfsfólks félagsþjónustunnar tvisvar í mánuði, væri ólögmæt. Þar væri brotið á stjórnarsrkárvörðum rétti fólks „til að stofna og halda heimili“. Leigusamningurinn allur væri þar með ólögmætur.

Tvær skylduheimsóknir í mánuði

Reykjavíkurborg gerði það að skilyrði fyrir úthlutun félagslegs leighúsnæðis í að minnsta kosti einu tilfelli að íbúar húsnæðisins „skyldu taka á móti starfsmanni sveitarfélagsins á heimili sínu tvisvar sinnum í mánuði.“ Þetta kemur fram í ársskýrslu Umboðsmanns Alþingis 2022, sem birtist í liðinni viku.

„Skilyrðið kom fram í samningi sem var hluti leigusamnings fyrir húsnæðið,“ segir í stuttri samantekt umboðsmanns í skýrslunni. „Kom þar m.a. fram að færi leigutaki ekki að skilyrðum samningsins gæti húsaleigusamningurinn fallið tafarlaust úr gildi án undanfarandi uppsagnar eða riftunar.“

Málið var sent Umboðsmanni Alþingis til álitsgjafar. Umboðsmaður veitti það álit að „jafnvel þótt í heimsókn starfsmanna stjórnvalda inn á heimili kynni að felast þjónusta eða aðstoð“ þá væri „um íþyngjandi ráðstöfun að ræða.“

Samningurinn ólögmætur

Þá segir ennfremur: „Þótt Reykjavíkurborg hefði svigrúm við útfærslu og fyrirkomulag þeirrar þjónustu sem borginni væri skylt að veita á grundvelli laga … sætti það svigrúm þeim takmörkunum sem leiða mætti af þeim lögum sem gilda um slíka samningsgerð.“

Niðurstaða embættisins var því að „ákvæði húsaleigulaga fælu ekki í sér heimild fyrir Reykjavíkurborg til að setja leigutökum það skilyrði að þiggja „eftirfylgd“ af þessu tagi og að samningurinn hefði verið ólögmætur.“

Ársskýrslu Umboðsmanns má finna hér.

Í kjölfarið á athugasemdum Umboðsmanns við Reykjavíkurborg vegna þessa máls greindi borgin frá því að ákveðið hefði verið að hætta að setja skilyrði um heimsóknir í leigusamninga félagslegs húsnæðis eða áfangahúsnæðis. „Leigutökum væri nú boðinn stuðningur á miðstöðvum borgarinnar og þurfi því að mæta þangað til að fá hann. Óski leigutakar sérstaklega eftir því að starfsfólk vitji þeirra á heimili, þá sé orðið við slíkum beiðnum.“

Réttur til að stofna og halda heimili er varinn í stjórnarskrá

Í ársskýrslunni lætur umboðsmaður þessu máli fylgja almennar athugasemdir um þann lærdóm sem stjórnvöld megi draga af því. „Við framkvæmd félagsþjónustu skal einstaklingurinn hvattur til að bera á sjálfum sér og öðrum, sjálfsákvörðunarréttur hans virtur og hann styrktur til sjálfshjálpar,“ segir þar.

„Undir félagsþjónustu fellur fjölbreytt þjónusta af ýmsum toga, m.a. í húsnæðismálum. Þegar þjónusta er á einhvern hátt íþyngjandi fyrir notanda hennar þarf að huga vel að lagagrundvelli hennar og þeim heimildum og takmörkunum sem leiða af honum. Ákvarðanir sveitarfélaga um skilyrði fyrir búsetu í húsnæði á vegum þeirra kunna m.a. að hafa þýðingu um stjórnarskrárvarinn rétt manna til að stofna og halda heimili og verða þá að eiga sér stoð í lögum.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí