„Þegar stúlkan sér lögregluna koma, þá verður hún ofsalega hrædd“

Tvö hús, annað merkt Útlendingastofnun, hitt ekki merkt neitt yfirleitt, nema að jarðhæðin virðist til leigu. Ég væflast þarna um. Á dyrunum að Útlendingastofnun stendur að afgreiðslan sé opin til tólf á hádegi, sá tími er löngu liðinn. Ég prófa að banka á dyrnar, vitandi að það hefur varla neitt upp á sig. En ef maður væflast nógu lengi í kringum svona byggingu hlýtur einhverjum að þykja maður grunsamlegur, einhver hlýtur að koma og gá. Nóg er af eftirlitsmyndavélum hérna. Og það líður ekki á löngu, loks gengur að minnsta kosti maður út úr merktu byggingunni og fram hjá mér. – Afsakaðu, kalla ég, þekkirðu til þessara húsa? Hann segir að líklega geri hann það. – Ég er að leita að fólki sem ég veit að bíður brottvísunar, segi ég. – Já, ég held að það sé hérna, segir hann og bendir á ómerkta húsið. – Og maður gengur inn á hliðinni eða hvað? spyr ég. – Já, það myndi ég segja, svarar hann.

Og í þann mund ganga fyrir hornið kona með kunnuglegt andlit og stúlkubarn, eitt af átta börnum konunnar. „It took a while to find the place,“ afsaka ég mig um leið og við heilsumst. Konan heitir Jawaher. Hún er einstæð móðir átta barna frá Palestínu og umsækjandi um alþjóðlega vernd hér á landi. Um helgina fréttist að í dag biði þeirra allra brottvísun héðan. Brottvísunin hófst nú á mánudagsmorgun þegar lögregla flutti fjölskylduna frá tímabundnum híbýlum þeirra á Ásbrú, Reykjanesi, yfir í enn tímabundnari híbýlin við Bæjarhraun í Hafnarfirði. Þaðan hyggjast stjórnvöld svo færa þau áfram upp á flugvöll.

Átta mánuðir á Íslandi

Konan stendur fyrir utan dyrnar, í gráum slopp og sýnir mér síma, þar sem birtist mér andlit á karlmanni sem mun annast túlkun fyrir okkur, á milli ensku og arabísku.

Þið hafið verið hér á landi í átta mánuði? spyr ég fyrst af öllu.

„Já, við höfum verið hér í átta mánuði,“ túlkar maðurinn í símanum og bætir við: „Umsókn hennar var synjað. Hún áfrýjaði en áfrýjuninni lauk með annarri synjun í júní.“

Þau tala áfram saman. Jawaher er með glettnislegt augnaráð. Það er þetta sem kemur á óvart við fólk sem hefur verið í fréttum vegna tiltekins hlutverks í tilteknu samhengi, hvað manneskjan er sláandi meira en þetta ákveðna hlutverk. Sumt fólk ber ákveðin persónueinkenni með sér frá fyrstu andrá. Kannski ber meira á þeim þegar maður hefur ekki við sameiginlegt tungumál að styðjast. Í svip og tjáningu Jawahers birtist bæði glettni og staðfesta, þó að um leið blasi við að hún er þreytt. Þó það nú væri.

Jawaher, átta barna móðirin í Bæjarhrauni. Eitt barna hennar var viðstatt viðtalið en vildi síður láta mynda sig.

Sjálfur er ég satt að segja svolítið ringlaður. Ég hef upplifað það áður í áþekkum aðstæðum. Tungumálaörðugleikarnir draga ekki úr því. Að hverju spyr maður manneskju í þessari stöðu? Ég minnist á drenginn, son hennar, sem sagt er að hafi verið í aðgerð í ágúst. Jawaher og maðurinn í símanum skiptast á orðum, hann túlkar – en líklega fer fleira þeim á milli, líklega eitthvað um rokið sem er að trufla okkur þarna úti á stéttinni, því hún ákveður að bjóða mér inn fyrir gættina, í stigaganginn á ómerkta húsnæðisúrræðinu við Bæjarhraun. Við komum okkur fyrir þar, við innganginn á jarðhæð, rétt innan við þröskuldinn, til að maðurinn í símanum heyri betur í okkur og við í honum. Ég endurtek spurninguna um drenginn.

Blaðamenn bannaðir í húsinu við Bæjarhraun

Hann þýðir spurninguna á arabísku og hún byrjar að svara – en þá birtist á stigapallinum fyrir ofan okkur maður í galla sem á stendur „Security“. „Hi, I’m sorry,“ segir hann. Ég heilsa á móti. „Who are you?“ spyr maðurinn mig. Samtalið allt fer fram á ensku, ég kynni mig sem blaðamann á Samstöðinni. „OK, please leave,“ segir hann. Ég get talað við þær úti? spyr ég Já, svarar hann. Það má enginn fara inn? spyr ég. Auðvitað ekki, svarar maðurinn. „Of course not.“ Jawaher opnar dyrnar og stígur út á undan mér. – Þetta er þá svolítið eins og fangelsi? spyr ég á leiðinni út. „What?“ hváir maðurinn. – Ég endurtek athugasemdina. – Hvers vegna myndirðu segja það? spyr hann á móti. Þetta er hvorki staður né stund fyrir þá þrætu. Við gerum eins og fyrir okkur er lagt, stígum út fyrir.

Húsnæðisúrræði Útlendingastofnunar við Bæjarhraun. Það er héðan sem fólki hefur nýlega verið úthýst, þegar umsóknum þess um vernd hefur verið synjað án þess að brottvísun reynist möguleg. Jawaher og börn hennar eru ekki í þeim hópi, heldur bíða nú brottvísunar í húsinu.

Túlkurinn sinnir áfram sínu hlutverki, nú þegar við erum komin aftur út í rokið: „Sonur hennar, sex ára gamall, hann fór í aðgerð í ágúst. „Og læknirinn sagði að sonurinn ætti að koma aftur í athugun eftir sex mánuði.“ Aha, segi ég, og það er þá eftir áramót en þau ætla samt að brottvísa ykkur núna? „Hún segir að þau eigi tíma á sjúkrahúsinu eftir sex mánuði, já. Það er í mars.“

„Enginn veit hvenær lögreglan kemur“

Og nú ætla þau að brottvísa ykkur til Spánar. Hvenær ætla þau að brottvísa ykkur? Í kvöld, á morgun, næstu viku?

„Hún veit það ekki.“

Svo þið bíðið bara hér þar til þau koma og færa ykkur á flugvöllinn?

„Hún bíður bara þar til lögreglan kemur, án fyrirvara, tekur þau og færir til Spánar. Enginn veit hvenær lögreglan kemur.“

Þið eruð frá Palestínu?

„Já, frá Tulkarem.“ Tulkarem er 60 þúsund íbúa borg á Vesturbakkanum. „Þú veist að það er stríð þar,“ segir maðurinn við mig. Já, segi ég.

Eruð þið með einhver tengsl á Spáni? Vini, fjölskyldu? „Ekkert nei, hún er ekki með nein tengsl þar.“

Hversu lengi voruð þið á Spáni?

„Hún var aldrei á Spáni. Hún er með vegabréfsáritun þaðan, en hún var aldrei þar.“

Nú fer ég að hugsa upphátt, eins og viðvaningur, segi já, þannig að þetta er eiginlega fullkomlega handahófskennt, að fara til Spánar? Gæti verið hvaða staður sem er? En svona óljós spurning skilar sér illa gegnum túlkunina. Ég ákveð að snúa mér að áþreifanlegri, beinni og skýrari spurningu: Hvernig líður þér núna?

Þau túlka sín á milli. „Hún segir að hún sé mjög hrædd. Og stelpan hennar er veik, veistu hvað ég á við? Þegar hún sér lögregluna koma, þá verður stúlkan ofsalega hrædd.“

Ég er ekki með fleiri spurningar að sinni. Ég spyr hvort ég megi taka ljósmynd. Jawaher þykir það í góðu lagi – dóttir hennar, sú sem stendur með henni hér úti, víkur sér undan, ég geri ljóst að það sé auðvitað skilið. Í þessum fáránleika, við markalínu lagalegs réttar og óréttar, ég heima hjá mér, þau í miðri brottvísunarvélinni, hlæjum við aðeins saman, að einföldu hlutunum sem tungumálið þvælist ekki fyrir, ekki tungumálið og ekki lögin, hvernig rokið er að leika okkur. Ég segi gangi ykkur vel. Jawaher biður mig fyrir lokaskilaboð í viðtalið: „Help me, please.“ Ég segist munu koma því áleiðis og við kveðjumst.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí