Brottvísun einstæðrar palestínskrar móður, tveggja uppkominna barna hennar og sex barna hennar á barnsaldri, hófst nú að morgni mánudags eins og tilkynnt var um helgina að yfirvöld hefðu í hyggju. Starfsmenn Ríkislögreglustjóra virðast ekki hafa skrópað í vinnuna til að standa gegn framkvæmdinni, eins og Freyja Haraldsdóttir hvatti þá til, réttindagæslumaður fatlaðs fólks og talskona samtakanna Tabú. Engir mótmælendur voru viðstaddir samkvæmt heimildum Samstöðvarinnar.
Fyrir liggur að fjölskyldan verði færð til Spánar, en hún kom til Evrópu í gegnum Spán. Þar sem Spánn er fyrsta móttökuríki þeirra innan álfunnar veitir Dyflinnarreglugerðin íslenskum stjórnvöldum heimild til að neita að veita umsókn þeirra efnislega meðferð og senda mál þeirra til umfjöllunar þar í landi. Fjölskyldan hafði dvalið í átta mánuði hér á landi.
Þegar fréttist af áformum stjórnvalda í þessu máli, nú um helgina, benti Freyja Haraldsdóttir á að brottvísunin stæðist illa samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem sérstaklega er kveðið á um vernd fatlaðra kvenna og fatlaðra barna. 24 ára dóttir konunnar lifir við þroskaskerðingu, 10 ára dóttir hennar er flogaveik og eitt yngri barnanna er að jafna sig eftir nýlega skurðaðgerð.
Samtökin Réttur barna á flótta fordæmdu aðgerðina.