Enn leggur Kristinn til nýjan íslenskan fána

Samfélagið 9. sep 2023

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, lagði til um daginn að krossinn yrði felldur úr íslenska fánanum og er ekki hættur. Nú birtir hann nýja útgáfu að fánanum byggðum á fána Grænhöfðaeyja.

„Á dögunum um fannst mér nokkuð brýnt að breyta íslenska þjóðfánanum og losna við kristna krossinn úr honum. Það er tímaskekkja að vera með þetta forna drápstæki í þjóðfánanum auk þess sem þjóðin er laus við að stunda svokölluð kristin gildi í verki,“ skrifar Kristinn á Facebook. „Sá vilji hefur minnkað dag frá degi í valdatíð ólgarkastjórnar Katínar Jakobsdóttur. Það er ekkert pláss fyrir kristilega mannúð þegar kemur að hælisleitendum og sannarlega ber lítið á mótmælendatrú hjá þjóð sem hatar fátt meira en mótmælendur.“

„Mér flaug í hug að fáninn yrði bara með núverandi grunnlitum og þverröndum í rauða litnum og hinum hvíta – allt á bláum grunni. Fannst einnig við hæfi til að lyfta aðeins ásýnd fánans að bæta þar við þessum þremur flöttu þorskum sem Jörundur Hundadagakonungur, sá mikli lýðræðisfrömuður, setti í fánann sem hann gaf þjóðinni á sinni skömmu valdatíð. Mér fannst það líka ákveðin sáttarbragur á þessu því þeir sem skreyta sig með Jesúdýrkun gætu sagt sem svo að fiskurinn hefði jú verið tákn frumkristninnar og þessir þrír fiskar gætu alveg eins verið tákn hins þríeina Guðs – þó þorskar væru og flattir. Hinir sem trúa á staðreyndir gætu bara séð í fiskunum saltfisk sem var vissulega ein gjöfulegasta og verðmætasta útflutningsvara þjóðarinnar áður en sala á rafmagni og glápplássi við Gullfoss og Geysi varð vinsælli útflutningur.

Sá hængur var þó á að þessi fáni var allt of líkur þjóðfána Grænhöfðaeyja og því varð úr að ég bar tillguna ekki upp undir þjóðina. Það er líka líklegt að Grænhöfðar (eða Grænhjöfðaeyingar) yrðu móðgaðir og sökuðu okkur um hugverkastuld. Þeirra fáni er með hring af 10 stjörnum sem táknar ekki Evrópusambandið heldur eyjarnar í klasanum sem þessi 500 þúsund manna Atlanshafsþjóð býr á.

Grænhöfðar eru betri í fótbolta en við samskvæmt styrkleikalista FIFA og eru þar þrepi ofar. Þessi mæling er að vísu frá því fyrr í sumar og á eftir að uppfæra eftir síðustu leiki. Líklegast er að Grænhöfðaeyjar færist ofar á listann en við neðar. Landslið Grænhöfðaeyja sem kallar sig bláu hákarlana, hefur verið á mikilli siglingu, burstaði Burkino Faso 3:1 og hefur nú raðað sér í fremstu röð landsliða í Afríkuálfu. Við höfum að vísu náð að sigra örríkið Lichtenstein í millitíðinni en töpuðum svo snautlega gegn Luxemburg, öðru smáríki.

Grænhöfðaeyjar voru nýlenda eins og við en fengu sjálfstæði miklu seinna eða árið 1975. Portúgalir voru nýlenduherrar Grænhöfða.

Á árum áður veittum við Grænhöfðaeyjum þróunaraðstoð en því lauk fyrir aldamót. Þetta var á þeim tíma sem þótti betra að aðstoða Afríkuríki fremur en að arðræna og múta.. Þó má halda til haga að við erum enn að aðstoða í Afríku og er öll áherslan lögð á ríki sem nýlega gerði samkynhneigð að dauðasök. Framlag okkar til Grænhöfðaeyja nam um 4 milljónum dollara á 10 árum en það er álíka, en þó aðeins meira, en Morgunblaðið hefur fengið í ríkisstyrk á síðustu árum.

Það er líklegast ekki okkur að þakka að á þessari öld hefur efnahagslegur árangur Grænhöfðaeyja verið undraverður, svo hraður að hætt var að kalla landið þróunarríki fyrir áratug. Það sem vekur athygli er að þetta litla land hefur skotist upp á toppinn á velmegunarlista Afríku þrátt fyrir að vera, ólíkt okkur, fátækt af náttúruauðlindum. Samkvæmt alþjóðlegum úttektum hefur þessi árangur náðst vegna eflingar lýðræðis í landinu. ábyrgrar hagstjórnar, lítillar spillingar, uppbyggingu þjónustuiðnaðar svo sem ferðaþjónustu með skynsömum hætti auk þess að vera með stöðugan gjaldmiðil sem er fasttengdur við Evru.

Í liðnum mánuði ákvað Seðlabanki Grænhöfðaeyja að halda stýrivöxtum óbreyttum. Í einu prósenti.

Aðallandslið Grænhöfðaeyja og Íslands í knattspyrnu karla hafa aldrei mæst. Einn stærsti sigur liðsins í sögunni var gegn Lichtenstein í mars í fyrra 6-0 en þetta var sama liðið og við sigruðum 7-0 í vor.

Ég legg til að KSÍ beiti sér fyrir vináttulandsleik við Grænhöfðaeyjar. Þar mættum við verðugum andstæðingi og verður það einnig verðmæt áskorun að takast á við öflugt landslið sem er fyrir ofan okkur á styrkleikalistanum,“ endar Kristinn þessa færslu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí