Þingmenn Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar lögðu á þriðjudag í sameiningu fram frumvarp ti llaga um breytingu á lögum um útlendinga til að afnema þá þjónustusviptingu sem lagabreytingar síðasta vors höfðu í för með sér og hefur þegar leitt til úthýsingar tuga innflytjenda án atvinnuleyfis eða fyrirliggjandi brottvísunar.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir mælti fyrir frumvarpinu, „til breytingar á lögum um útlendinga, eða réttar sagt til leiðréttingar á mistökum sem gerð voru við breytingar á lögum um útlendinga hér á Alþingi þann 15. mars síðastliðinn.“
Forsendur reglunnar eru rangar
Arndís Anna lýsti því í framsögu sinni hvernig breytingar síðasta vors hefðu svipt umsækjendur um alþjóðlega vernd „allri þjónustu að 30 dögum liðnum eftir synjun umsóknar.“ Áður en þessi breyting tók gildi, í sumar, þá hafi það verið þannig að flestir einstaklingar sem er synjað um vernd fari með eða án aðstoðar lögreglu. Þau sem ekki vilja fara séu flutt, hvort sem þeim líkar það betur eða verr. „Í einstökum tilfellum er það ekki hægt. Í einstökum tilfellum búa stjórnvöld við ómöguleika við að flytja fólk úr landi, þrátt fyrir að það hafi fengið synjun og sé ekki með leyfi hér til dvalar. Almennt vegna skorts á samningum við þau ríki, þangað sem á að senda fólk.“
Arndís sagði það hafa verið skýrt og yfirlýst markmið breytinganna að knýja fólk sem er synjað um vernd til að fara af landinu – „og ég ætla að setja hér innan gæsalappa „sjálfviljugt““ bætti hún við „þegar ekki væri hægt að flytja það nauðungarflutningum.“ Þegar við spurðum, sagði Arndís þá, „hvað ef þau fara ekki … þrátt fyrir að vera svipt þjónustu?“ hafi verið svarað: „Þau eiga bara að fara.“ Það gefur auga leið, sagði hún, „að forsendur þessarar reglu eru rangar. Forsendurnar eru að fólk geti farið. Það getur það ekki alltaf.“ Hingað til sagði hún að hugtakið „umborin dvöl“ hefði verið notað til að lýsa þeirri stöðu, „þegar einstaklingur hefur ekki rétt til dvalar en ekki er hægt að flytja hann.“
Stjórnvöld vilja vinna kapphlaupið á botninn
Dómsmálaráðuneyti Sjálfstæðisflokksins hafi hins vegar gefið út sérstaka yfirlýsingu og skipt hugtakinu út fyrir hugtakið „einstaklingar í ólöglegri dvöl, til þess að sýna það að það er allt í lagi að henda þeim á götuna.“
„Íslensk stjórnvöld hafa nefnilega ákveðið að reyna að vinna kapphlaupið á botninn,“ sagði þingmaðurinn. „Við erum með mansalsfórnarlömb á götunni. Þessu vöruðum við við sérstaklega. Ég man ekki hvað ég hélt margar ræður hér uppi í pontu þar sem ég sagði: það er ekki einu sinni undanþáguákvæði í þessari blessuðu lagagrein … fyrir fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu, til dæmis konur sem eru fórnarlömb mansals.“
Embætti Landlæknis taldi þetta ákvæði óásættanlegt, nefndi Arndís, og vitnaði í umsögn embættisins sem sagði að það „að njóta heilbrigðisþjónustu eru grundvallarmannréttindi.“ Hún vísaði einnig til umsagna Amnesty International, Mannréttindastofnunar HÍ, presta Þjóðkirkjunnar og fjölda fleiri aðila sem andæft hafa umræddu ákvæði laganna eftir breytingar síðasta vors. „Við erum búin að skapa nýja ógn við okkar samfélag og við einstaklinga sem þegar voru í mikilli neyð. Við hljótum að sjá það að þessi lög eru ónýt. Þessi mistök þarf að leiðrétta.“