Fangar á Litla hrauni lögðu niður störf að morgni fimmtudags og báru fram kröfu um bætt kjör. Páll Winkel, fangelsismálastjóri, sagði í samtali við blaðamann að um helmingur fanga á Litla hrauni taki þátt í verkfallsaðgerðunum. „Ástæðan er óánægja með tvennt,“ sagði hann, „annars vegar með fæðisfé, sem fangelsismálastofnun ákveður upphæðina á“. Páll sagði að upphæð fæðisfjár hafi verið hækkuð um sex prósent síðustu áramót og aftur um sex prósent frá 1. september, til að koma til móts við verðlagsþróun.„Þannig að við höfum í tvígang á þessu ári brugðist við þeirri verðbólgu sem geisar í landinu.“
Hin krafa fanganna, að sögn Páls, „snýst um upphæð þóknana fanga fyrir vinnuframlag, annars vegar, og hins vegar upphæð dagpeninga fyrir þá sem ekki geta eða vilja vinna. Þessar upphæðir eru festar í reglugerð sem ráðherra þarf að breyta. Þannig að það er ekki á okkar forræði að breyta þeim upphæðum. Verði þær hækkaðar þá hækka fjárframlög til stofnunarinnar sem því nemur.“
Dagpeningar 12.000 krónur á mánuði
Guðmundur Ingi Þóroddsson er formaður Afstöðu, „Félags fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun“. Í samtali við blaðamann gerir hann ljósar þær fjárhæðir sem um er að ræða:
„Eins og ég segi tekur Afstaða ekki þátt í mótmælum, hvetur ekki til mótmæla eða annarra harkalegra aðgerða. Heldur viljum við að þetta sé samtal og samvinna á málefnalegum grundvelli. En aftur á móti hafa fangar auðvitað ótrúlega fá tækifæri til að koma sínum málefnum á framfæri. Og þegar myndast svona gremja og erfiðleikar inni í fangelsunum – af því þetta er erfitt, það er dýrt að vera í fangelsi og það er erfitt að geta aldrei gert neitt. Inni í fangelsunum, geta ekki keypt sér buxur eða boli eða skó eða gjafir handa börnunum eða leyft sér eitthvað aðeins meira heldur en í síðasta mánuði. Dagpeningar hafa ekki hækkað í næstum tvo áratugi. Þeir eru 630 krónur á dag, fimm daga vikunnar, það eru rétt rúmlega 12.000 krónur yfir mánuðinn. Ef þú ert svo heppinn að fá eitthvað að gera, vinnu, þá færðu þóknun, en þá missirðu dagpeninga á meðan. Og það er ekki sjálfgefið að menn fái eitthvað að gera. Það er skortur á vinnu í fangelsunum.“
– Maður hefur séð þetta þannig fyrir sér að það væri endalaust verið að smíða númeraplötur eða eitthvað þannig en það er ekki raunin?
„Jú, það eru alltaf númeraplötur en það er bara vinna fyrir tvo og stundum er það ekki neitt neitt. Stundum er það bara vinna tvo tíma á dag. Þetta er voða lítið. En viðvarandi vinna, jú jú, það er alltaf einhver vinna. En það vantar meiri vinnu. Og segjum til dæmis að fangaverðir fari í frí, þá er ekkert kallað inn, þá eru bara allir fangar í fríi þann dag líka. Eða ef fangaverðir verða veikir og svo framvegis.“
Kröfur um sálfræðiþjónustu og félagslega aðstoð
„Við höfum fullan skilning á því að okkar skjólstæðingar hafi ekki úr of miklu að moða,“ sagði Páll. „En það er okkar verkefni að fara vel með fé og við teljum að upphæð fæðisfjár sé langt í frá of há, en sé í samræmi við neysluviðmið Velferðarráðuneytisins.“
Eins og Guðmundur Ingi gerir skýra grein fyrir er Afstaða ekki aðili að verkfalli fanga eða yfirstandandi mótmælum á Litla hrauni. Hann segir hins vegar kröfugerðina snúast um fleira en greiðslur til fanga.
„Auðvitað þurfum við meiri félagslega aðstoð og betri aðgang að sálfræðingum og hjúkrunarfræðingum og – ég meina, það þarf að hækka fæðisfé og laun eða þóknanir og dagpeninga og slíkt, þannig að ég get ekki verið neitt annað en sammála þessu. Þetta eru baráttumál Afstöðu til margra ára, jafnvel áratuga. Við höfum barist mikið og erum alltaf þar inni í þessu. Það eru bara örfáar vikur síðan við vorum að nefna þetta við ráðuneytið, til dæmis. Hins vegar er þetta svolítið viðkvæmt, að því leytinu til að við höfum aldrei mátt ræða þessi mál opinberlega. Almenningur tekur ekki mjög vel í það að fangar séu að mótmæla kjörum og fæði. Þannig að við höfum bara sleppt því að vera með það opinberlega. En maður skilur alveg gremjuna þarna inni á sama tíma.“
Guðmundur segir hins vegar mikilvægt að mótmæli snúi að réttum aðilum. „Og Fangelsismálastofnun hefur ekkert með þetta að segja, í raun og veru, nema fæðisfé. Og þeir hafa brugðið á það ráð strax í morgun að hækka fæðisfé – ekki mikið en hækka það samt. Um einhvern hundrað kall á dag. Það er sama og síðasta hækkun var fyrir ári síðan eða svo. Aðrar kröfugerðir eiga að snúa að Dómsmálaráðuneytinu og Heilbrigðisráðuneytinu.“
– Þú nefnir aðgang að sálfræðiþjónustu sem hluta af kröfunum. Er það hluti af kröfu fanganna sem nú eru í verkfalli, betra aðgengi að stuðningi?
„Já í raun og veru. Þeir virðast vera að krefjast – já, hluti af því er skortur á verkefnum og vinnu og úrræðum og heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð. Þannig að ég get alveg verið sammála að félagslega aðstoð þyrfti að bæta til muna. Heilbrigðisþjónustan er nokkuð góð, eða svona. Auðvitað má alltaf bæta. Það sem við setjum helst út á er að það séu ekki hjúkrunarfræðingar á bakvakt. Skilurðu, ef eitthvað gerist, að það sé hægt að hringja í þær og annað slíkt. Það má ekki þannig að það er bara hringt á sjúkrabíl eða Læknavaktina, sem er margfalt dýrara. En þetta hefur samt ekkert með Fangelsismálastofnun að gera, í raun. Þetta eru bara Heilbrigðis- og Félagsmálaráðuneytin sem bera ábyrgð á þessu.“
Föngum verði ekki refsað fyrir verkfallsaðgerðir
Spurður hvort það sé rétt skilið að kröfugerð fanganna beinist að tveimur aðilum, Fangelsismálastofnun annars vegar, ráðuneytinu hins vegar, svarar fangelsismálastjóri:
„Já, þetta er frekar óljós kröfugerð því okkur hefur ekki borist nein kröfugerð. Við einfaldlega heyrðum af þessu í gærkvöldi, að hluti hópsins ætlaði sér ekki að mæta í vinnu eða stunda nám. Og þá er það okkar að bregðast við og skoða hvað við getum gert. Og hvort við getum og þurfum að gera eitthvað. Við erum búin að bregðast við hvað þetta varðar og vonumst til að sem flestir mæti til vinnu seinni hluta dags í dag eða á morgun.“
–Þið viljið að fangar taki upp störf seinni partinn í dag, er mönnum refsað ef þeir gera það ekki?
„Nei. Nei nei nei, alls ekki,“ svarar Páll. „Þetta er val hvers og eins, hvort hann vill mæta í vinnu eða sinna námi. Það er greitt fyrir þá vinnu og nám. Það eru engar refsingar. En það er auðvitað bagalegt að vinnustaðurinn loki. Þvottahús fangelsisins, sem dæmi, það eru fangar sem sinna þeim þvotti, og það er þá ekki afgreiðsla á meðan á þessu stendur. En við ætlum að leysa hratt og vel úr þessu eins og hægt er.“
Páll segir að verkföll af ýmsum toga hafi komið upp reglulega í gegnum árin. „Það hefur þá ýmist verið vegna þess að fangar hafa verið með ýmsar kröfur á lofti en líka þegar einstaka fangar eru ósáttir við afgreiðslu á eigin erindum, eru valdamiklir innan hópsins og hafa hreinlega getað bannað öðrum að mæta í vinnu. Þá tökum við öðruvísi á málunum.“
Getur bitnað á framgangi manna í fangavistinni
Spurður hvort þetta er ekki viðkvæm staða fyrir fanga að setja sig í, að mótmæla með þessum hætti, svarar formaður Afstöðu játandi:
„Já, algjörlega. Auðvitað stendur ekki til, held ég, af hálfu Fangelsismálastofnunar, að vera með einhverjar hóprefsingar eða slíkt. En það segir sig sjálft að þegar þú stefnir öryggi og ró fangelsis í einhverja hættu að þá mun Fangelsismálastofnun grípa til einhverra aðgerða. Bara hvaða aðgerða, er maður alltaf hræddur við, sko. Það geta menn verið fluttir á milli fangelsa eða það getur bitnað á framgangi ákveðinna manna í fangavistinni. Það er alveg möguleiki á því. Þá eru það yfirleitt þeir sem stjórna þessum aðgerðum.“
Guðmundur segist að síðustu vonast til að Dómsmálaráðuneytið taki við sér fljótt þannig að það sé hægt að koma til móts við fangana. „Þó að Afstaða sem slík standi ekki í þessum verkföllum þá styðjum við þá samt, þannig, ef hlutirnir eru gerðir rétt og málefnalega. Við vonum að Dómsmálaráðuneytið taki við sér og fundi um þetta strax.“