Pepp, grasrót fólks í fátækt og félagslegri einangrun, fordæmir áður kynntar breytingar á leiguverðslíkani Félagsbústaða hf. og skorar á Félagsbústaði hf. og Reykjavíkurborg að taka til baka hækkanir á leiguverði til tekjulægstu hópanna nú á sama tíma og verðbólga fer hækkandi og miklar verðhækkanir hafa orðið á brýnustu nauðsynjum.
„Það er ekki á ábyrgð leigjenda í félagslegu leiguhúsnæði að fasteignamat breytist á milli hverfa á mismunandi tímum og því með öllu óskiljanlegt að slíkt sé notað til að refsa tekjulægstu leigjendunum fjárhagslega,“ segir í yfirlýsingu Pepp.
„Allar mælingar á fátækt sýna að sá hópur sem stendur verst í okkar samfélagi eru fjölskyldur sem samanstanda af fötluðum og/eða langveikum foreldrum og börnum þeirra en þar sem einungis 1,1% þeirra barna sem búa við fátækt á Íslandi eru frá heimilum þar sem báðir foreldrar eru fatlaðir og/eða langveikir þá segir það sig sjálft að almennt eru flest þeirra barna sem búa við fátækt á Íslandi
börn einstæðra foreldra á örorku- eða endurhæfingarlífeyri sem hafa enga möguleika á að auka tekjur heimilisins í samræmi við skyndilega útgjaldahækkun um tugþúsundir króna á mánuði.
Er þetta í alvöru fólkið sem á að bera fjárhagslega ábyrgð á Félagsbústöðum og breytingum á fasteignamati og það án þess að það komi til hækkunar á húsnæðisbótum á móti?
Við minnum á að þó breytingin þýði lækkun á húsaleigu fyrir 1.111 leigjendur sem munu fagna breytingunni er það engin huggun fyrir þá 1.538 leigjendur sem eiga nú að kreista peninga úr þurru lofti á meðan ábyrgðin liggur hjá þeim sem þykjast kunna að kreista tár úr steini yfir örlögum leigjendanna á meðan börnin fara svöng að sofa.“