Flóttamannanefnd Evrópuráðsþingsins fundar nú, frá fimmtudegi til föstudags, á Hótel Reykjavík Grand.
Nefndin lagði á fundinum áherslu á að bregðast við tilhneigingu stjórnmálaflokka víða í álfunni til að beita fordómum í garð flóttafólks í kosningabaráttu, enda geti slíkt framferði haft veruleg áhrif á móttöku og réttindi flóttafólks.
Í yfirlýsingu fundarins er varað sterklega við því að stjórnmálaflokkar og stjórnmálafólk beiti málefnum flóttafólks í kosningaherferðum og fyrrnefndir aðilar minntir á bæði þá pólitísku skyldu og þá siðferðilegu ábyrgð að beita ekki fyrir sig haturstali eða útilokandi tungutaki, en fordæma án tafar og án tvíræðni slíkt tal þegar það berst annars staðar að. Þá skorar nefndin, samkvæmt drögunum, á stjórnmálaflokka að koma á laggirnar eigin innri ferlum til að banna og bregðast við haturstali úr röðum meðlima sinna.
Fulltrúi Íslands í nefndinni er Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, áður Miðflokksmaður.
Erindi á fundinum í Reykjavík
Á dagskrá fimmtudagsins var erindi frá Pierre-Alain Fridez, þingmanni sósíalista í Sviss, um afleiðingar þess að taka málefni flytjenda og flóttafólks upp í kosningaherferðum. Þá ræddi Stephanie Krisper, austurrískur þingmaður, um hvernig tryggja má mannréttindi við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Birgir Þórarinsson ræddi í erindi sínu um mannúðarkrísu í uppsiglingu í Afganistan og meðal flóttafólks þaðan.
Umfangsmesti dagskrárliðurinn í störfum nefndarinnar í dag, föstudag, eru pallborðsumræður þar sem sjónum er sérstaklega beint að stöðu málaflokksins á Íslandi. Umræðunum stýrir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu, en þátttakendur í umræðunum eru, auk Birgis Þórarinssonar, Magnús Norðdahl, lögfræðingur, Hussain Merzaye, flóttamaður og meðlimur í samfélagi Afgana á Íslandi, Nína Helgadóttir, teymisstjóri á sviði flóttafólks hjá Rauða krossi Íslands og Mina Sharifi, flóttamaður frá Afganistan og nemi í tölvunarfræði við Háskólann í Torino.
Um Evrópuráðsþingið
Evrópuráðsþingið er íslenska heitið sem veitt hefur verið því nefnist á ensku Parliamentary Assembly of the Council of Europe, og ber ekki að rugla saman við Evrópuþingið, lykilstofnun innan Evrópusambandsins. Á Evrópuráðsþinginu sitja fulltrúar af þjóðþingum allra 46 aðildarríkja Evrópuráðsins. Alþingi á þar þrjá fulltrúa, sem nú eru Bjarni Jónsson, þingmaður VG, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, og Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Af þessum þremur þingmönnum valdist Birgir Þórarinsson til setu í flóttamannanefnd Evrópuráðsþingsins, sem reyndar fjallar ekki aðeins um flóttafólk í skilningi laganna heldur fólk sem flytur milli landa yfirleitt, samkvæmt enska heitinu: Committee on Migration, Refugees and Displaced Persons.