Gögn sýna að Ísland er við meðallag í móttöku flóttafólks frá Úkraínu

Alls hafa ríki Evrópusambandsins auk EES veitt rúmum fjórum milljónum úkraínskra ríkisborgara tímabundna vernd frá innrás Rússlands í byrjun ársins 2022 til loka júlímánaðar á þessu ári. Þetta kemur fram í yfirliti sem Hagstofa Evrópusambandsins (Eurostat) birti sl. föstudag.

Samkvæmt opinberum gögnum ríkjanna höfðu yfir 4.114.320 manns frá Úkraínu hlotið vernd í löndum ESB/EES á þessum tímapunkti. Þar af hefur Þýskaland tekið á móti flestu flóttafólki, eða yfir 1,15 milljónum en Pólland næstflestu, rétt undir 970 þúsund. Engin önnur lönd í Evrópu komast nærri þessum tveimur í móttöku flóttafólks frá Úkraínu, í mannfjölda.

Þegar fjöldi flóttafólks er hins vegar tekinn til athugunar sem hlutfall af íbúafjölda í hverju landi eru Tékkar í efsta sæti: þau ríflega 356 þúsund manns frá Úkraínu sem Tékkland hefur veitt vernd nema 3,39% af íbúafjölda landsins, eða 3.391 flóttamanni á hverja 100.000 íbúa.

Ef óhætt er að líta á þetta hlutfall sem grófgerðan mælikvarða á gestrisni hvers lands við stríðshrjáða Úkraínubúa, er Eistland næst-gestrisnasta land Evrópu fyrir þann hóp en þar höfðu 2.651 hlotið vernd á hverja 100.000 íbúa. Pólland, Litháen, Búlgaría og Lettland höfðu líka hvert um sig tekið á móti yfir 2.000 manns á hverja 100.000 íbúa.

Gögn frá Eurostat. Miðast við þann fjölda flóttafólks frá Úkraínu sem hlotið hafði tímabundna vernd til og með 31. júlí 2023, á móti nýjustu staðfestu gögnum um íbúafjölda, frá 1. jan 2022.

Slóvakía, Kýpur, Írland, Þýskaland, Liechtenstein og Finnland skipa sæti annarrar deildar á þessu móti, Slóvakía efst í deildinni með 1.933 flóttamenn á hverja 100.000 íbúa en Finnland í neðsta sæti deildarinnar með 1.047.

Noregur og Ísland eru loks í efstu sætum þriðju deildar: Noregur hefur tekið á móti 910 flóttamönnum frá Úkraínu á hverja 100.000 íbúa en Ísland á móti 849. Austurríki fylgir rétt á hæla Íslandi, með 847. Danmörk er nærri því fallin í fjórðu deild í gestrisni, með 606 úkraínska flóttamenn á hverja 100.000 íbúa, svo litið sé til hinna Norðurlandanna, og þar er Svíþjóð raunar nú þegar, með aðeins 380 úkraínska flóttamenn á hverja 100.000 íbúa í landinu.

Í allra neðsta sæti á þessum lista er loks Frakkland, sem aðeins hefur veitt 95 úkraínskum flóttamönnum vernd á hverja 100.000 íbúa, eða rétt um 65 þúsund manns í landi nærri 68 milljón íbúa.

Meðaltal innan Evrópusambandsins alls er 905 úkraínskir flóttamenn á hverja 100 þúsund íbúa. Noregur er rétt yfir því meðaltali, Ísland nokkuð undir. Þó standa bæði löndin nógu nærri meðaltalinu til að óhætt virðist að líta svo á að þau standi sig í meðallagi vel í að veita íbúum Úkraínu stuðning að þessu leyti.

Kortið sem Eurostat birti yfir gögnin þann 8. sept 2023.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí