Alls hafa ríki Evrópusambandsins auk EES veitt rúmum fjórum milljónum úkraínskra ríkisborgara tímabundna vernd frá innrás Rússlands í byrjun ársins 2022 til loka júlímánaðar á þessu ári. Þetta kemur fram í yfirliti sem Hagstofa Evrópusambandsins (Eurostat) birti sl. föstudag.
Samkvæmt opinberum gögnum ríkjanna höfðu yfir 4.114.320 manns frá Úkraínu hlotið vernd í löndum ESB/EES á þessum tímapunkti. Þar af hefur Þýskaland tekið á móti flestu flóttafólki, eða yfir 1,15 milljónum en Pólland næstflestu, rétt undir 970 þúsund. Engin önnur lönd í Evrópu komast nærri þessum tveimur í móttöku flóttafólks frá Úkraínu, í mannfjölda.
Þegar fjöldi flóttafólks er hins vegar tekinn til athugunar sem hlutfall af íbúafjölda í hverju landi eru Tékkar í efsta sæti: þau ríflega 356 þúsund manns frá Úkraínu sem Tékkland hefur veitt vernd nema 3,39% af íbúafjölda landsins, eða 3.391 flóttamanni á hverja 100.000 íbúa.
Ef óhætt er að líta á þetta hlutfall sem grófgerðan mælikvarða á gestrisni hvers lands við stríðshrjáða Úkraínubúa, er Eistland næst-gestrisnasta land Evrópu fyrir þann hóp en þar höfðu 2.651 hlotið vernd á hverja 100.000 íbúa. Pólland, Litháen, Búlgaría og Lettland höfðu líka hvert um sig tekið á móti yfir 2.000 manns á hverja 100.000 íbúa.
Slóvakía, Kýpur, Írland, Þýskaland, Liechtenstein og Finnland skipa sæti annarrar deildar á þessu móti, Slóvakía efst í deildinni með 1.933 flóttamenn á hverja 100.000 íbúa en Finnland í neðsta sæti deildarinnar með 1.047.
Noregur og Ísland eru loks í efstu sætum þriðju deildar: Noregur hefur tekið á móti 910 flóttamönnum frá Úkraínu á hverja 100.000 íbúa en Ísland á móti 849. Austurríki fylgir rétt á hæla Íslandi, með 847. Danmörk er nærri því fallin í fjórðu deild í gestrisni, með 606 úkraínska flóttamenn á hverja 100.000 íbúa, svo litið sé til hinna Norðurlandanna, og þar er Svíþjóð raunar nú þegar, með aðeins 380 úkraínska flóttamenn á hverja 100.000 íbúa í landinu.
Í allra neðsta sæti á þessum lista er loks Frakkland, sem aðeins hefur veitt 95 úkraínskum flóttamönnum vernd á hverja 100.000 íbúa, eða rétt um 65 þúsund manns í landi nærri 68 milljón íbúa.
Meðaltal innan Evrópusambandsins alls er 905 úkraínskir flóttamenn á hverja 100 þúsund íbúa. Noregur er rétt yfir því meðaltali, Ísland nokkuð undir. Þó standa bæði löndin nógu nærri meðaltalinu til að óhætt virðist að líta svo á að þau standi sig í meðallagi vel í að veita íbúum Úkraínu stuðning að þessu leyti.