Síðastliðinn þriðjudag komu ráðherrar saman til ríkisstjórnarfundar og báru þar nokkur mál hver undir annan. Innviðaráðherra ræddi um skipulags- og byggingarlöggjöf, félags- og vinnumarkaðsráðherra um nýja skýrslu um kynþáttafordóma. Umhverfisráðherra kynnti skýrslu sína um loftslagsþolið Ísland, menningar- og viðskiptaráðherra fór yfir hagvísa ferðaþjónustu. Og utanríkisráðherra bar fram eitt erindi, sem í útgefnu ágripi af fundargerð er aðeins lýst sem svo: „Ásmundarnautur og endurgerð hamarsins.“
Einhverjir meðal lesenda hafa líklega hugmynd um hvað málið varðar. Fyrir öðrum má ætla að þetta hljómi nokkuð dularfullt. Hvað er Ásmundarnautur? Og ef endurgera þarf einhvern hamar, hvað varðar ríkisstjórnina um það? Ekki bara ráðherra heldur ríkisstjórnina alla?
Hamar nr. 1, 1952–1960
Að beiðni ríkisstjórnarinnar skar Ásmundur Sveinsson, listamaður, út fundarhamar til að færa Sameinuðu þjóðunum að gjöf, árið 1952. Þennan hamar nefndi Ásmundur „Bæn víkingsins fyrir friði“. Aðrir hafa nefnt hann Ásmundarnaut, eftir listamanninum. Hamarinn virðist hafa verið notaður til að setja fundi Allsherjarþingsins næstu ár í kjölfarið. Árið 1960, aftur á móti, brotnaði hamarinn, þegar forseti Allsherjarþingsins beitti honum til að „yfirgnæfa lætin í Níkíta Krústsjoff“, aðalritara sovéska Kommúnistaflokksins, eins og atvikinu er lýst á vef Stjórnarráðsins.
Árið 1961 færðu íslensk stjórnvöld því Sameinuðu þjóðunum annan hamar. Hann skar út, samkvæmt Morgunblaðinu, húsgagnasmiður að nafni Jón Benediktsson, eftir frummyndinni. Þessi Hamar nr. 2 entist í um áratug en brotnaði árið 1972. Í það skiptið virðist ný endurgerð ekki hafa verið færð Sameinuðu þjóðunum. Þremur árum síðar var hins vegar Atlantshafsbandalaginu færður hamar að gjöf, eftir þessari sömu hönnun Ásmundar, í tilefni leiðtogafundar. Sá hamar var stuttu síðar sagður hafa týnst en kom aftur í leitirnar, samkvæmt vef Stjórnarráðsins, við flutninga bandalagsins í nýjar höfuðstöðvar árið 2018.
Hamar nr. 3, 1980–
NATO-hamarinn kemur auðvitað fundarhamri Sameinuðu þjóðanna lítið við, nema þá til marks um ákafan vilja íslenskra stjórnvalda til að koma þessum grip í hendur fundarstjóra innan alþjóðstofnana. Þriðji hamarinn sem færður var Sameinuðu þjóðunum var skorinn út af Jóni Benediktssyni og komið til stofnunarinnar á níunda áratug síðustu aldar, það er 1980 og eitthvað. Um tveimur áratugum síðar eða árið 2005 var íslenskum stjórnvöldum tjáð að sá hamar, hamar 3 ef við teljum aðeins þá sem gefnir hafa verið Sameinuðu þjóðunum, hefði týnst. Þá afhenti Davíð Oddsson stofnuninni nýtt eintak, hamar 4, útskorinn af listakonunni Sigríði Kristjánsdóttur, sem í umfjöllun Stjórnarráðsins er einnig nefnd Sigga á Grund í Villingaholtshreppi.
Eitt eintak enn hefur verið skorið út af hamrinum í millitíðinni en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra afhenti forseta Lettlands eintak af hamrinum í maí síðastliðnum, á atburði í Hörpu, við lok leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík. Hugmyndin virðist vera að þeim hamri verði beitt á vettvangi Evrópuráðsins en forseti Lettlands tók þá við forsæti ráðsins. Vefmiðillinn Vísir greindi frá gjöfinni undir fyrirsögninni „Sendi forseta Lettlands leyndó í hamrinum“ en í fréttinni kemur fram að leynihólf sé í stokki undir hamrinum, sem handhafar hans geta nýtt til að færa eftirmönnum sínum skilaboð. Líkt og hamar nr. 4 var þessi skorinn út af Sigríði Kristjánsdóttur. Þó að hann sé byggður á sömu hönnun eða sama frumverki verður hann ekki talinn hér í röð þeirra hamra sem gefnir eru Sameinuðu þjóðunum, ekki frekar en NATO-hamarinn.
Hamar nr. 5, 2024–
Það er þá hamar nr. 4, sá frá árinu 2005, sem brotnaði loks við fundarstjórn á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna nú í september. Þórdís hafði þegar vísað til hamarsins í ræðu sem hún hélt á þeim vettvangi, sagði eitthvað á þá leið að lítill venjulegur tréhamar verði í höndum forsetans tæki sem getur „náð stjórn á umræðum milli valdamestu manna og kvenna heimsins.“ Svo brotnaði hann bara. „Fór í sundur“ eins og ráðherra orðaði það. Eina ferðina enn.
Og það er þá hamar nr. 5 sem ríkisstjórnin ráðgerir nú að láta smíða eða skera út og senda Sameinuðu þjóðunum til að enn megi beita þessum þjóðlega og nú hálf-þráhyggjukennda grip til að stjórna umræðum á þeim vettvangi. Ásmundarnautur nr. 5, Bæn víkingsins fyrir friði nr. 5 eða Thor’s gavel eins og virðist ætlunin að kalla gripinn á ensku, væntanlega í höfuð hins norræna goðs … friðar og alþjóðasamvinnu?