Íslenskt þjóðfélag gjörbreytt frá árinu 1981

Samfélagið 12. sep 2023

Manntalið 31. janúar 1981 var síðasta manntal á Íslandi sem tekið var með hefðbundnum hætti, þ.e. með því að leggja spurningareyðublöð fyrir alla íbúa á einum og sama degi. Alls eru 60% þeirra sem þá voru í manntalinu enn á lífi og búsettir hérlendis en þó aðeins 35% núlifandi Íslendinga. Af ýmsum ástæðum sem raktar eru í greinargerð um manntalið var það ekki gefið út á sínum tíma. Veturinn 2021-2022 var hins vegar gerð atlaga að því að búa manntalið í sama búning og nýrri manntöl sem tekin hafa verið síðan 2011 en þau byggja á skrám úr stjórnsýslunni og öðrum gögnum Hagstofunnar.

Staða kvenna hefur breyst mikið á tímabilinu 1981-2021, bæði hvað varðar atvinnu- og menntunarstöðu. Þetta hefur gerst samhliða breyttu fjölskyldumynstri með hlutfallslegri fækkun barna og minnkandi fjölskylduheimilum. Einnig hefur aukið hlutfall erlendra ríkisborgara einkennt þróunina hin síðari ár.

Helstu niðurstöður i manntalinu 1981
Talsverð breyting hafði orðið á samsetningu fjölskyldna frá manntalinu 1960 til manntalsins 1981 og munaði mestu um fækkun barna undir 15 ára

  • Atvinnuþátttaka kvenna jókst mest á milli 1950 og 1981
  • Hlutfall barna 0-9 ára var 18,3% í manntalinu 1981
  • Hlutfall erlendra ríkisborgara var einungis 1,4% árið 1981, það sama og það var tæpum 20 árum áður
  • Talsverður munur var á menntun karla og kvenna árið 1981 þegar 51% kvenna höfðu lokið menntun umfram skyldunám en 68% karla
  • Tæp 92% íbúa landsins bjuggu á fjölskylduheimilum árið 1981

Manntöl hafa verið tekin á Íslandi allt frá 1703 en reglubundin manntalsgerð hófst 1835. Mikilvægt er að skoða niðurstöður hvers manntals í samhengi við fyrri manntöl en þar sem svo langt er liðið frá manntalinu 1981 er erfitt skoða það nema í samhengi við nútímann. Af þessum sökum er manntalið 31. janúar 1981 borið hér saman við manntölin 1. desember 1950 og 1960 og manntölin 31. desember 2011 og 1. janúar 2021 en ítarlegri upplýsingar er að finna í greinargerð og talnaefni sem fylgir þessari úgáfu.

Hlutfall barna af heildarmannfjölda hefur lækkað mikið
Alls voru 226.587 íbúar á landinu í manntalinu 31. janúar 1981. Íbúum hafði fjölgað á 31 ári, frá manntalinu 1950 um 57,4% en 30 ára fjölgun frá 1981 til 2011 var 39,3%. Árleg meðalfjölgun frá 1950-1981 var 1,5% en 1,1% frá 1981-2011.

Hlutfall kynjanna hefur verið nokkuð jafnt og voru karlar 0,8 prósentustigum fleiri í manntalinu 1981 en minnstu munaði á hlutfalli karla og kvenna í manntalinu 2011 (0,2 prósentustigum) og mestu í manntalinu 2021 (1,9 prósentustig). Samkvæmt manntalinu 1950 voru karlar í fyrsta sinn fleiri en konur og hefur það haldist síðan.

Árið 1981 var samsetning mannfjöldans nokkuð frábrugðin því sem nú er. Þjóðin var þá mun yngri og var rúmur helmingur hennar undir 30 ára aldri en í manntalinu 2021 var hlutfallið komið í tæp 40%. Í manntölunum 1950 og 1960 var hlutfall fólks yngra en 30 ára svipað og 1981 en mun færri hlutfallslega voru undir 10 ára aldri í manntalinu 1981 miðað við fyrri manntöl og sá aldurshópur ekki lengur fjölmennastur.

Heimilisstörf voru kvennastörf 1981
Í manntalinu 1981 var í fyrsta sinn spurt um þátttöku í heimilisstörfum. Því miður er ekki hægt að finna slíkar upplýsingar úr skrám þannig að enginn samanburður er til við fyrri eða síðari manntöl. Allir 13 ára og eldri voru spurðir hvort þeir hefðu sinnt heimilisstörfum í a.m.k. 120 klukkustundir á árinu 1980. Ef aðeins eru skoðaðir 16 ára og eldri var mikill munur á körlum og konum.

Í manntalsvikunni 24.-30. janúar 1981 höfðu 63,1% karla sinnt heimilisstörfum í innan við 10 klukkustundir en einungis 16% kvenna. Ef allir eru taldir með og meðalvinnutími lauslega áætlaður var framlag hvers karls 16 ára og eldri til heimilisstarfa í manntalsvikunni að jafnaði 3-4 klukkustundir en hverrar konu 25-26 klukkustundir.

Hlutfall erlendra ríkisborgara mjög lágt árið 1981
Hlutfall erlendra ríkisborgara var einungis 1,4% í manntalinu 1981, lítið breytt frá því í fyrri manntölum. Mun fleiri erlendir ríkisborgar eru hins vegar í síðari manntölum.

Atvinnuþátttaka kvenna jókst mest milli 1950 og 1981
Atvinnuþátttaka karla á aldrinum 15-74 ára var 82,0% samkvæmt manntalinu 1981 en kvenna 60,9%. Það var veruleg breyting frá manntalinu 1960 þegar atvinnuþátttakan var 36,2% og álíka mikil 1950. Í manntölunum 2011 og 2021 hefur dregið mjög saman á milli kynjanna, bæði vegna hlutfallslega færri karla í starfi og aukinnar þátttöku kvenna.

Menntun
Talsverður munur var á menntunarstöðu karla og kvenna árið 1981. Þá hafði 51% kvenna 15 ára og eldri lokið menntun umfram skyldunám á móti 68% karla. Þetta hafði þó breyst frá 1950 og 1960 þegar hlutfallslega færri konur en karlar höfðu lokið námi eftir skyldunám. Á árinu 1981 höfðu karlar nokkurn veginn náð því menntunarstigi sem þeir hafa haldið síðan en í manntalinu 2011 höfðu konur nálgast karlana og fóru svo fram úr þeim í manntalinu 2021.

Heimilin
Flestir landsmenn bjuggu á fjölskylduheimilum 1981 og fyrr en síðan hefur dregið úr hlut þeirra Einkaheimili á landinu voru 69.150 í manntalinu 1981 og bjó langstærstur hluti íbúa landsins á fjölskylduheimilum eða 91,7%. Hlutfall íbúa á fjölskylduheimilum var ívið hærra í manntalinu 1960 (95,1%) en árið 2021 var hlutfallið komið niður í 79,9%.

Í manntalinu 1981 voru að meðaltali 3,73 einstaklingar á hverju fjölskylduheimili. Í eldri manntölunum voru fjölskylduheimilin stærri en þau hafa minnkað síðan. Samsetning fjölskylduheimilanna er þó svipuð á milli manntala allt frá 1950 og er fækkun á fjölskylduheimilunum mestmegnis vegna fækkunar barna, einkum yngri barna.

Frétt af vef Hagstofunnar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí