Katrín vék sér undan því að svara spurningu um útlendingamál í Silfrinu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vék sér undan því að svara spurningu um þróun útlendingamála á kjörtímabilinu, í fyrsta Silfri vetrarins á mánudagskvöld. Það var rúmum tíu mínútum eftir að Drífa Snædal, talskona Stígamóta sagði, í sama þætti: „Ég lít svo á að þessi lög sem voru sett, útlendingalögin, séu skaðlegustu lög sem hafa verið sett, þau ógna beinlínis lífi og heilsu fólks. Og stappa mjög nærri því versta sem hægt er að gera sem löggjafi.“ Katrín sagði það eitt um efnið að „þessir flokkar hafa ekki sömu stefnu í útlendingamálum“ og vék síðan talinu að öðru.

„Nærri því versta sem hægt er að gera sem löggjafi“

Silfrið, umræðuþáttur RÚV um stjórnmál, hóf göngu sína á ný á mánudagskvöld, án Egils Helgasonar sem hefur snúið sér að öðrum verkefnum, eins og víða hefur verið reifað. Umræðum í þætti kvöldsins stýrði Bergsteinn Sigurðsson og tók viðtöl í tvennu lagi: fyrst við Drífu Snædal, Eygló Harðardóttur, fyrrverandi félagsmálaráðherra, og Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs. Seinni hluta þáttarins ræddi Bergsteinn við Katrínu Jakobsdóttur eina.

Drífa Snædal í Silfriníu á mánudagskvöld.

Það var í samhengi við umræður um húsnæðismál og hversu brýnt það væri að tryggja fólki öruggt húsnæði sem Drífa Snædal sagði: „Já, ég er hluti af því fólki sem er að bjarga því að fólk svelti ekki hér úti á götum, af því að ríkisstjórnin ákvað að henda þeim út, með nýjum útlendingalögum. Henda fólki beinlínis út á götuna. Ég lít svo á að þessi lög sem voru sett, útlendingalögin, séu skaðlegustu lög sem hafa verið sett, þau ógna beinlínis lífi og heilsu fólks. Og stappa mjög nærri því versta sem hægt er að gera sem löggjafi.“

Þetta verður verra fyrir okkur öll

– Hér kemur líka til kasta sveitarfélaganna, ekki satt? spurði þá Bergsteinn og virtist ætla að beina spurningunni til bæjarstjóra Kópavogs. Drífa lét orðið ekki eftir svo fúslega og bætti við:

„Jú, síðan er búin að vera einhver störukeppni á milli ríkis og sveitarfélaga. Á meðan er ekki verið að leysa vandamálið.“

Bæjarstjórinn sagði: „Já já en …“

„Og nú erum við komin aftur að neyðarástandi,“ bætti Drífa við.“

Bæjarstjórinn endurtók: „Já já …“

„Ég verð bara að segja,“ sagði loks Drífa, „af því að þetta er mér mjög mikið hjartans mál. Það er ekki bara þetta fólk sem er í húfi, sem er núna hvað, svona 30 til 70 manns, sem er verið að bjarga frá degi til dags. Þetta er samfélagið. Samfélagið verður verra af því að vera með fólk á götunni, örvæntingarfullt, sveltandi fólk á götunni. Þetta verður verra fyrir okkur öll til framtíðar.“

Þá tók bæjarstjórinn loks við sér í tónfalli skrifræðislegrar útþynningar: „Ég er sammála að það er einhver störukeppni í gangi en við höfum fengið álit þess efnis frá sambandinu og þetta er, staðan er þannig, að þetta er fólk sem hefur fengið meðferð og hefur fengið niðurstöðu, hvað, í þrígang …“

Hvað hefur VG fengið fyrir sinn snúð?

Spurningin sem þáttastjórnandi beindi að forsætisráðherra um þetta efni, í seinna viðtali þáttarins, átti sér nokkurn aðdraganda. Bergsteinn spurði Katrínu: „Hvað hefur VG fengið fyrir sinn snúð úr þessu stjórnarsamstarfi?“

Katrín svaraði: „Ég gæti auðvitað sett hér á langa ræðu. Ég gæti talað um þrepaskipt skattkerfi, sem er algjört grundvallaratriði fyrir VG. Ég gæti talað um barnabótakerfið, lengra fæðingarorlof, sem er stórmál, og það væri óskandi að við sæjum viðlíka framfarir þegar kemur að leikskólaplássum, sem eru núna kannski eitt stærsta áhyggjuefni ungs fólks …“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í Silfrinu.

„En tilfinningin er sú að …“ – byrjaði Bergsteinn en Katrín hélt áfram:

„Nei, horfum bara á hvað við höfum verið að gera. Það er auðvitað fyrsta fjármagnaða aðgerðin í loftslagsmálum, kolefnishlutleysi fest í lög, eitt af örfáum löndum sem hefur gert það. Þú nefndir hér höfuðborgarsáttmálann, stórmál fyrir VG, og vonandi hina flokkana líka. Ég gæti haldið áfram hér að romsa, því það er auðvitað ástæðan fyrir því að við erum í þessu …“

Leiðin til mannréttinda liggur um þjóðlendishágarðinn

„En tilfinningin er sú …“ reyndi Bergsteinn aftur.

„Svo ég tali nú ekki um …“ reyndi Katrín á móti en í þetta sinn lét þáttastjórnandinn ekki undan og lauk við setninguna: „… að í stórum málum, þá hafið þið …“ – „Já,“ sagði Katrín – „… þurft að gefa eftir,“ botnaði Bergsteinn.

„Ja, það er einhver saga sem einhver kýs að segja“ var fyrsta svar Katrínar.

„Þjóðlendishágarðurinn,“ sagði Bergsteinn, „það var nú ykkar mál, á síðasta kjörtímabili …“

„Hálendisþjóðgarðurinn,“ leiðrétti Katrín stafaruglið sem væri óþarft að hafa eftir nema í þágu nákvæmni. „Hálendisþjóðgarðurinn, segi ég,“ staðfesti Bersteinn. „Já, sem er í stjórnarsáttmálanum núna,“ sagði Katrín. „Já, við erum að tala um rafbyssur, þið lásuð það bara í Mogganum að löggan væri komin með rafbyssur,“ hélt Bergsteinn áfram upptalningunni. Og vék loks að fyrrnefndu viðfangsefni, með nokkurri áherslu: „Útlendingamálin. Þar bara veit ég að það er stór ágreiningur á milli flokkanna.“

Frá útlendingamálum að mannréttindum innfæddra

Þá tók Katrín orðið á ný, gaf jafnvel til kynna að hún myndi svara einhverju um útlendingamálin en gerði það loks ekki, heldur sneri talinu að öðrum viðfangsefnum sem einnig heyra til mannréttindamála:

„Ég meina, þessir flokkar hafa ekki sömu stefnu í útlendingamálum, en ég meina, af því að þú ert að spyrja um VG, mér finnst þetta áhugavert, af því að þetta er svona dálítið saga sem fólki finnst gaman að segja. Ég ætla að nefna tvö mál hérna. Mannréttindamál. Málið um kynrænt sjálfræði og þungunarrofsmeðferð. Kjarnamál VG sem við náðum fram. Og bara nákvæmlega eins og á síðasta kjörtímabili og þessu, þá auðvitað legg ég og minn flokkur allt í það að við náum málefnalegum árangri. Það þýðir auðvitað líka að hinir flokkarnir hljóta að hugsa þetta eins. Og öll erum við í þessu til að ná málefnalegum árangri. Og það þýðir auðvitað málamiðlanir.“

Þáttastjórnandinn spurði ekki hvort skilja mætti þessa samantekt og niðurlag forsætisráðherra um málamiðlanir sem svo að VG fengi að standa vörð um mannréttindi á sviði kynræns sjálfræðis og þungunarrofs gegn því að Sjálfstæðisflokkurinn fengi að brjóta mannréttindi á því flóttafólki sem hingað leitar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí