Katrín segir stjórnvöld efla barnabætur, sem greining Eflingar sýnir þó að eru í sögulegri lægð

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í Silfrinu á RÚV á mánudagskvöld að ríkisstjórn hennar hafi eflt barnabótakerfið. Það er ekki rétt, samkvæmt greiningu stéttarfélagsins Eflingar, sem segir opinber útgjöld til barnabóta stefna í að verða í „sögulegri lægð“ árin 2023 og 2024.

Hinn þráláti undanfari þess að bæta lífskjör

Meginþráðurinn í um fimmtán mínútna löngu viðtali Bergsteins Sigurðssonar við Katrínu Jakobsdóttur í Silfrinu á RÚV á mánudagskvöld var sú spurning hvar ummerki sæjust um aðild Vinstri grænna að ríkisstjórninni í verkum og ákvörðunum hennar.

„Við erum auðvitað búin að vera að fást við efnahagsmálin, það er stóra mál vetrarins að mínu viti,“ sagði Katrín um verkefni ríkisstjórnarinnar í Silfrinu á RÚV á mánudag, „að endurheimta efnahagslegan stöðugleika til að unnt sé að bæta lífskjör.“ Að verðbólga fari niður, forsendur skapist til að lækka vexti, og stuðla að farsælum kjarasamningum. Þetta verkefni hefði orðið erfiðara „einfaldlega bara vegna innrásar Rússa í Úkraínu og þessara hræringa á alþjóðavettvangi.“

Þá spurði Bergsteinn hvort þessi staða í efnahagsmálum hefði ýtt aftur öllum hinum háleitu markmiðum, um orkuskipti, samgöngur og húsnæði. „Við erum auðvitað búin að vera að bæta við í innviði“ svaraði Katrín og „greiða upp ákveðna innviðaskuld.“ Hún nefndi heilbrigðismál, samgöngukerfi og byggingu nýs Landspítala til dæmis, verkefni sem hefði velkst í kerfinu árum saman en rjúki nú upp.

Prúttað um fjölda nýrra íbúða

Bergsteinn ítrekaði þá spurninguna og bar það undir forsætisráðherra að markmiðin virðist þó fjarlægjast. Kolefnishlutleysi, uppbygging húsnæðis, samgöngusáttmálinn, „fjármálaráðherra talar svolítið eins og hann vilji slá Borgarlínu af og svo framvegis.“

Katrín vék talinu fyrst að húsnæðismálum. „Þriðjungur nýrra íbúða sem byggðar eru í landinu á undanförnum árum,“ sagði hún, „er byggður vegna framlaga hinu opinbera.“ Bergsteinn nefndi markmið um fjölda, að þau næðu eftir sem áður ekki 3.500 nýjum íbúðum á ári, sem Katrín brást við án þess að andmæla, og nefndi að stjórnin hefði tvöfaldað framlögin, þannig að byggðar verði „2.000 íbúðir á næstu árum í stað 1.000 áður“.

Það var þá sem forsætisráðherra vék að barnabótakerfinu: „Á sama tíma erum við búin að bæta í húsnæðisstuðning,“ sagði hún, „við erum búin að efla barnabótakerfið, þannig að það nær til fleiri aðila en áður.“

Barnabætur í sögulegri lægð, segir Efling

Orðalag ráðherra er nógu opið og óljóst til að það væri ekki alfarið ærlegt að saka hana um ósannsögli, enda hægt að leggja margvíslega merkingu í sögnina „að efla“. Þó er ljóst að stjórnvöld hafa ekki eflt barnabótakerfið í þeim skilningi að hækka framlög til þess. Það kom fram í greiningu stéttarfélagsins Eflingar á fjárlagafrumvarpi næsta árs, þar sem sérstök athygli var vakin á því að „kostnaður við barnabætur stefnir í að verða í sögulegri lægð árin 2023 og 2024, þrátt fyrir að ríkisstjórnin segist vera að efla kerfið.“ Útgjöld til barnabóta verða á næsta ári „rétt um helmingur af því sem var árið 1998 og fyrr, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.“

Þá virðist sá samdráttur ekki veginn upp með öðrum framlögum, enda hafa útgjöld vegna vaxtabóta skroppið saman í einn tíunda af því sem var kringum aldamót, sem hlutfall af landsframleiðslu.

Húsnæðisbætur vega ekki gegn hárri leigu

Í greiningu Eflingar kemur fram að húsnæðisbætur, áður húsaleigubætur, hafi „haldið sér betur að raunvirði yfir tíma en barna- og vaxtabætur“. Það hafi þó ekki dugað til að vega gegn hárri leigu. Meðal leigjandi á landinu greiði nú um 45% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu, en markmið stjórnvalda „bæði hér á landi og í ESB-löndunum er að byrði húsnæðiskostnaðar hjá leigjendum fari ekki yfir 25% af ráðstöfunartekjum.“

Samantekið segir í greiningu Eflingar: „Barnabætur og húsnæðisstuðningur eru ein öflugustu tækin til að draga úr fátækt meðal barnafjölskyldna. Þeim tækjum hefur ekki verið beitt í nærri sama mæli og var á tímabilinu frá 1988 til 1995 – og áfram á aðeins lægra stigi til 2004.“ Félagið segir að í ljósi versnandi afkomu heimilanna vegna hækkandi húsnæðiskostnaðar og verðbólgu, og rýrnandi kaupmáttar ráðstöfunartekna, „hefði verið æskilegt að stórauka útgjöld til þessara stuðningskerfa heimilanna, sem hefði skipt láglaunafólk miklu máli.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí