Lífeyrir þyrfti að hækka um 64% til að halda í við launaþróun frá 1997

Björn Leví Gunnarsson mælti á fimmtudag í annað sinn fyrir frumvarpi um „raunleiðréttingu“ á almannatryggingum. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting á 62. grein laga um Almannatryggingar að fjárhæð örorkulífeyris og ellilífeyris uppfærist ár hvert til samræmis við breytingar á kjarasamningum opinberra starfsmanna.

Frumvarpið var áður lagt fram á síðasta þingi en dagaði þá uppi eftir í Velferðarnefnd, eftir eina umræðu á þingi.

64 prósent kjaragliðnun frá 1997

Flutningsmenn frumvarpsins nú eru fjórtán þingmenn Pírata, Samfylkingarinnar og Flokks Fólksins, „heil 27 prósent af þinginu“ sagði Björn Leví í framsögu sinni, „ef við undanskiljum ráðherrana“. Hann sagði gaman að sjá svona mikinn stuðning við frumvarpið í meðflutningi og gerði ráð fyrir að margir fleiri myndu styðja það ef þeir læsu það.

Fyrirkomulag þessarar greinar laganna er í dag á þann veg, sagði Björn Leví, að lífeyrir skuli hækka í takt við launaþróun en þó aldrei minna sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs. Það hefur hins vegar gerst síðan lögin voru sett, árið 1997, sagði Björn Leví, er kjaragliðnun vegna þess að lífeyrir almannatrygginga hefur ekki haldið í við launaþróun. „Hækkun örorkulífeyris hefur verið meiri en verðbólga, sem betur fer, en lægri en launavísitalan, svo munar mjög miklu, eða 64 prósentum frá 1997. Lífeyrir almannatrygginga ætti að vera 64 prósent hærri til að halda í við launaþróun frá 1997.“

Vantar hvaða skilgreiningu á launaþróun á að nota

„Af hverju ekki hefur verið farið eftir lögum er rosalega áhugaverð spurning,“ sagði Björn Leví og hló við. Þegar spurt er af hverju lífeyrir heldur ekki í við launaþróun fást mjög loðin svör, sagði hann. Raunin virðist vera sú, útskýrði hann, að þær lögbundnu hækkanir sem gerðar eru á lífeyrinum miða við spár um launaþróun fyrir hvert ár framundan. Þegar launaþróunin reynist ítrekað fela í sér meiri hækkanir en spár gerður ráð fyrir gliðnar, ár frá ári, sífellt meira á milli kjara þessara hópa.

„Það vantar hvaða skilgreiningu á launaþróun á að nota. Og af því að skilgreininguna vantar, þá ákveður bara ráðuneytið að nota eitthvað viðmið, einhverja spá, byggða kannski á einhverjum kjarasamningum sem eru í gangi – við fáum ekki að vita það með neinni nákvæmni.“

Það þýðir að bæta þarf skilgreiningu í lögin, sagði Björn Leví, um það hvað launaþróun er. Og til þess væri þetta frumvarp ætlað.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí