Lífeyrissjóðir, Brim og norskir auðmenn áforma 20 þúsund tonna laxeldi í Ölfusi

Félag með nafnið IS Haf fjárfestingar undirritaði á fimmtudag samning við Thor Landeldi ehf. um fjárfestingu til uppbyggingar á 20.000 tonna laxeldí í Þorlákshöfn. Samningurinn felur í sér hlutafjáraukningu og færir IS Haf fjárfestingum 53% hlut í Landeldi ehf. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins í dag, föstudag.

Fulltrúar verkefnisins tala um hraða uppbyggingu laxeldis og atvinnugrein í miklum vexti. Það má með sanni segja. Miðað við grófa útreikninga Andra Snæs Magnasonar, sem hann birti fyrr í dag, vega þeir villtu laxar sem ganga upp í íslenskar ár samanlagt innan við 500 tonn. Nemur fyrirhugað laxeldi í Þorlákshöfn samkvæmt því varlega áætlað um 40 sinnum meiri framleiðslu en óbreytt náttúra landsins annar, ár hvert.

Í tilfelli Þorlákshafnar er um landeldi að ræða, það er að segja að laxinn verði alinn í kerum á landi, en ekki í kvíum í sjó. Samkvæmt umfjöllun mbl.is í sumar fékk Thor Landeldi lóð undir landeldið, hjá sveitarfélaginu Ölfusi, um 2,5 km vestan við Þorlákshöfn. Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir að stöðin verði byggð upp í þremur áföngum. Samkvæmt miðlinum er þetta þriðja „stóra landeldisverkefnið“ á þessu svæði, auk þess sem þrjár stórar seiðastöðvar séu í nágrenninu. Áforum heildarframleiðsla landeldisins séu um 76.500 tonn á ári.

Lífeyrissjóðir, Brim og norskir auðmenn

Samkvæmt tilkynningu félagsins Arctica Finance, sem veitti seljandanum ráðgjöf í viðskiptunum, munu norskir auðmenn fjárfesta í félaginu. Fram kemur í fréttinni að þeir heiti Frank Yri, sem sé aðstoðarframkvæmdastjóri Seaborn, og Alex Vassbotten, stjórnarformaður sama félags. „Báðir hafa um­tals­verða reynslu úr lax­eldi,“ segir þar, „og fjár­festinga­starf­semi tengdri lax­eldi en Sea­born er norskt sölu­fyrir­tæki á laxi.“

Sjóðurinn IS Haf fjárfestingar var stofnaður í upphafi þessa árs og er í rekstri félags með heitið Íslandssjóðir hf. Stærstu fjárfestar í þessum sjóði eru í tilkynningu Arctica Finance sagðir íslenskir lífeyrissjóðir, ásamt Brim hf. og Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf., sem er sagt kjölfestufjárfestir í sjóðnum.

Í tilkynningunni er haft eftir Kristrúnu Auði Viðarsdóttur, framkvæmdastjóra IS Haf fjárfestinga, að „hröð uppbygging laxeldis á Íslandi“ krefjist „öflugrar aðkomu fjárfesta“. Með fjárfestingu IS Haf í Thor Landeldi ehf. sé „hafin vegferð sem muni þjóna „lykilhlutverki í uppbyggingu nýlegrar atvinnugreinar í miklum vexti.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí