Eldislaxinn í ánum „eitt mesta umhverfisslys sem hefur orðið hérlendis“

Eins og fram hefur komið „snorkla“ um þessar mundir norskir kafarar í íslenskum laxveiðiám, með spjót í hönd, til að freista þess að fanga þá eldislaxa sem sloppið hafa úr kvíum og gengið í árnar, áður en þeir hrygna. Fulltrúar eldisfyrirtækjanna segja þetta þrautreynda aðferð frá Noregi, sem muni virka.

Eldislaxar landsins 70-falt fleiri en villtir laxar

Andri Snær Magnason, rithöfundur, gerir grein fyrir því í færslu á Facebook í dag föstudag, hvaða stærðir er um að ræða í þessu samhengi. Talið er, skrifar hann, „að minna en 100.000 villtir laxar gangi upp í íslenskar ár. Ef við gefum okkur að hvert dýr sé um 5kg (sem er mjög ríflegt) þá er heildarstofninn innan við 500 tonn. Þannig má vera ljóst hversu agnarsmár og viðkvæmur stofninn er í samanburði við 35.000 tonna laxeldi í sjó.“

Andri nefnir að í einni kví rúmist hæglega 700 tonn af laxi, sem séu þá fleiri en allir villtir laxar landsins til samans „og ljóst að lítið má út af bregða, eins og komið hefur í ljós.“ Andri segir að það sem eigi sér stað núna „virðist hafa verið óhjákvæmilegt, bara spurning um tíma og norskir froskmenn með skutla í hyljum á tímum þegar árnar eiga að vera í hvíld fyrir hrygningu gera þetta allt einstaklega farsakennt ef það væri ekki svona sorglegt.“

Til hversu er milljarður, spyr Andri, „ef þú getur ekki kastað flugu í straumvatn og talað við Guð eins og Bubbi Morthens myndi segja.“ Með fyrirvara um að tölurnar megi leiðrétta segir Andri að sér „sýnist þetta vera eitthvað mesta umhverfisslys sem hefur orðið hérlendis.“

Ráðuneytið mun rannsaka málið næstu árin

Það eru þó ekki aðeins norskir froskmenn eldisfyrirtækjanna sem bregðast við ástandinu, heldur gera stjórnvöld það líka, á sinn hátt og á sínum hraða. Matvælaráðuneytið lét frá sér tilkynningu í dag, föstudag, til að vekja athygli á þeirri hækkun á framlagi til hafrannsókna sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Hækkunin nemur 180 milljónum króna og er markmið hennar, í tilkynningu ráðuneytisins sagt „að skapa sjávarútvegi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar.“ Til viðbótar er, að því er fram kemur í tilkynningunni, gert ráð fyrirr fjárheimild upp á 126 milljónir króna til að „að styrkja verkefni Hafró á sviði burðarþolsmats fjarðakerfa, þ.m.t. eldissvæðaskiptingu, mat á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis, áhættumat erfðablöndunar og rannsóknir á dreifingu laxa- og fiskilúsar.“ Áformað er að þetta framlag hækki á næstu árum og verði í kringum 226 milljónir árið 2026.

Þannig stefnir í að tryggt verði að umhverfisáhrif laxeldis í fjörðum landsins verði rannsökuð á næstu árum, og að meira fé verði veitt til þeirra rannsókna eftir því sem árin líða. Þar til niðurstöður þessara rannsókna liggja fyrir virðist málið í höndum froskmannanna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí