Túnis verður greitt fyrir að hindra flutninga fólks til Evrópu, ítreka ráðamenn í heimsókn til Lampedusa

Ursula Von Der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, heimsótti eyna Lampedusa á Ítalíu á sunnudag, í tilefni af því að þangað höfðu komið nokkur þúsund manns í flutningum undanliðna viku, sjö eða átta þúsund, á um hundrað bátskænum, á einum degi. Fólkið hafði lagt úr vör í Túnis.

Á Lampedusa búa um sex þúsund manns, mannmergðin þegar hundrað bátar náðu höfn var því ekki minni en þegar skemmtiferðaskip leggst að bryggju á Ísafirði. Munurinn er auðvitað sá að margir úr hópi þeirra sem komu til Lampedusa þörfnuðust aðhlynningar.

Í vafasömum félagsskap

Von der Leyen heimsótti eyna í fylgda Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, og formanni flokksins Bræður Ítalíu, sem ýmist hefur verið nefndur popúlískur hægriflokkur, flokkur þjóðernisíhaldsmanna, öfgahægriflokkur, nýfasískur flokkur eða póstfasískur. Ljóst er í öllu falli að andúð á innflytjendum, einkum innflytjendum frá heimshlutunum austan og sunnan við Evrópu, er lykilþáttur í stefnu flokksins og formannsins.

Von der Leyen og Meloni dvöldu á eynni í þrjár klukkustundir, til að skoða aðstæður. Þeim þúsundum flytjenda sem höfðu valdið þar nokkurri mannþröng á torgum í liðinni viku hafði þó að mestu verið komið til annarra afgreiðslustaða, á Sikiley og á meginlandi Ítalíu, og segir í umfjöllun The Guardian að á Lampedusa hafi eiginlega allt þegar verið orðið „spikk og span“.

Lampedusa þegar mannmergðin stóð sem hæst, á miðvikudag í liðinni viku.

Meloni vill stöðva brottfarir frá Afríku

Von der Leyen og Meloni ávörpuðu báðar fjölmiðla í heimsókninni. Meloni sagði að ef einhver héldi að að hægt væri að leysa yfirstandandi krísu einvörðungu innan landamæra Ítalíu væri það kolrangt, allir þurfi að taka höndum saman um að leysa vandann. Um það eru þær út af fyrir sig sammála, enda hefur Leyen lagt áherslu á að komið verði á laggirnar sam-evrópsku móttökukerfi flóttafólks, til að dreifa álagi móttökunnar á ríki og svæði sambandsins, og að lönd eða litlar byggðir sem leggja þannig að sjó að flestir leiti þangað sitji ekki uppi með málaflokkinn ein á báti. Andstaða við slíkt kerfi hefur ekki síst borist frá löndum Mið- og Austur-Evrópu, þar sem þau íhaldsöfl sem ráða ríkjum í Póllandi og Ungverjandi, meðal annars, leggjast alfarið gegn því að fallast á nokkra skyldu til að taka við flóttafólki.

Þetta er þó ekki það sem Meloni á við, eins og hún útskýrði nánar: „Ég held því til streitu að við munum aldrei leysa vandann með því að tala aðeins um dreifingu, eina leiðin til að leysa hann er að stöðva brottfarir.“ Með öðrum orðum: að flytjendur sunnan að komi ekki til Evrópu yfirleitt.

„Við munum ákveða hverjir koma“

Þó að áherslur von der Leyen séu aðrar setti hún sig ekki beinlínis upp á móti þessu tali Meloni og hét því að hverjum sem ekki fengi viðurkenndan rétt til alþjóðlegrar verndar yrði brottvísað úr álfunnni snarlega. Stemning virðist hafa skapast fyrir því að virðast hörð í horn að taka á þessu sviði, og bætti von der Leyen við: „Við munum ákveða hverjir koma til Evrópusambandsins og undir hvaða kringumstæðum. Ekki smyglararnir,“ og vísaði hún þar til þeirra sem selja fólki bátsferðir sem ekki á þess kost að fara með áætlanaflugi.

Smábátahöfn Lampedusa, sunnudaginn 17. september 2023. Meloni horfir yfir suma þeirra báta sem fólk hafði siglt yfir Miðjarðarhaf, undanliðna daga.

Fólki sem býr í ríkjum Afríku og vill, ýmist af viðurkenndri neyð eða öðrum ástæðum, flytjast til Evrópu, er í flestum tilfellum meinað að fljúga á þeim leiðum sem liggja milli álfanna, að kröfu Evrópuríkjanna. Sum þeirra fara því sjóleiðina, í óskráðum bátum, oft afar ótryggum, eins og margsinnis hefur frést af. Stjórnvöld Evrópuríkja og Evrópusambandsins hafa brugðist við þessum siglingum með margvíslegum hætti, allt frá björgunarðagerðum til þess beinlínis að stuðla að því að fólk drukkni á leiðinni.

Ástæða hinna miklu flutninga þessa tilteknu daga fyrr í vikunni voru meðal annars veðurfarslegar: fjöldi báta sem hefðu siglt hver á sínum deginum biðu þess að fært yrði yfir hafið og lögðu svo allir úr vör samdægurs. Að baki flutningunum sjálfum liggja auðvitað aðrar ástæður. Flestir koma nú frá eða í gegnum Túnis.

Frá undirritun „fé gegn flutningum“-samkomulagsins við Túnis í júlí 2023.

„Fé gegn flutningum“-samningur ESB við Túnis

Fyrirheit von der Leyen um að „við munum ákveða hverjir koma“ hvíla meðal annars á samningum við lönd utan Evrópu um að hindra brottfarir fólks til álfunnar. Í júlí á þessu ári gerði Evrópusambandið afar umdeilt samkomulag við yfirvöld í Túnis, sem nefnt hefur verið „cash for migrants“ eða fé gegn flutningum: að ESB muni stuðla að auknum viðskiptum við landið og auknum fjárfestingum á ýmsum sviðum, auk aðkomu að orkuskiptum, en Túnis muni á móti hindra brottfarir fólks frá ströndum þess til Evrópu. Nákvæmar tölur komu ekki fram á þeim tíma en síðan hafa verið nefndar 785 milljónir evra, eða í kringum 113 milljarða króna. Meloni og von der Leyen voru báðar viðstaddar undirritun samningsins.

Malin Björk, Evrópuþingmaður sænska Vinstriflokksins.

Malin Björk, fulltrúi sænska Vinstriflokksins á Evrópuþinginu, varaði við því í liðinni viku að Túnis væri ekki örugg fyrir eigin borgara, hvað þá fyrir fólk sem leitar verndar vegna ofsókna annars staðar. „Að greiða harðstjórnum fyrir að hindra fólk frá því að koma til Evrópu er ekki leiðin áfram, en það virðist vera líkanið sem Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vill nú tileinka sér,“ sagði hún.

Þá hefur Emily O’Reilly, í embætti Umboðsmanns Evrópu, gert alvarlegar athugasemdir við samninginn í ljósi mannréttindabrota í Túnis. Samningurinn virðist hins vegar njóta stuðnings þjóðarleiðtoga víða í Evrópu og líklega meirihluta innan Evrópuþingsins.

Ísland á enga aðkomu að samningsgerðinni en er eftir sem áður meðal þeirra landa sem verða fyrir áhrifum af samningum sem þessum, vegna aðildar landsins að Schengen-svæðinu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí