Þrjátíu herforingjar og íslenskur skrifstofustjóri funda um fjölgun hermanna

Ísland tekur þátt í árlegri ráðstefnu herráðs NATO í Osló um miðjan þennan mánuð, þar sem rædd verða áform um fjölgun vígbúinna hermanna innan aðildarríkjanna, aukinn hreyfanleika og flutningsgetu, og þróun bandalagsins til að „verja hverja tommu á yfirráðasvæði aðildarríkjanna“ eins og það er orðað í tilkynningu bandalagsins.

Að styrkja varnir og fælingarmátt

Herráðið skipa æðstu yfirmenn varnarmála allra 31 aðildarríkja NATO. Þeir koma í þetta sinn saman til ráðstefnunnar helgina 15. til 17 september, í Osló. Herráðið kemur reyndar saman þrisvar á ári, segir í tilkynningunni: tvisvar sinnum til funda í Brussel og einu sinni til þessarar árlegu ráðstefnu sem aðildarríkin skiptast á að halda. Samkvæmt tilkynningu frá NATO, mun dagskráin í þetta sinn snúast um að að styrkja fælingar- og varnargetu bandalagsins.

Um herráðsfulltrúa er óhætt að nota fornafnið „þeir“ – samkvæmt upplýsingasíðu NATO er engin kona í þeim hópi. Fulltrúar flestra aðildarríkjanna í herráði bandalagsins eru herforingjar. Fulltrúi Íslands í herráðinu er Jónas G. Allansson, sem á íslensku er titlaður „skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins“ en á ensku „Director General, Directorate for Defence Ministry for Foreign Affairs.“ Jónas er mannfræðingur að mennt og með viðamikla reynslu af störfum innan utanríkisþjónustunnar, ekki síst í tengslum við NATO, friðargæsluverkefni og skyld svið.

Í tilkynningu bandalagsins segir að æðstu yfirmenn varnarmála muni á ráðstefnunni hrinda í framkvæmd þeim ákvörðunum sem teknar voru af þjóðarleiðtogum og ráðherrum NATO-ríkjanna á ráðstefnu þeirra í Vilnius í júlí sl, en þar hafi „stór skref verið stigin til að styrkja varnar- og fælingarmátt bandalagsins til lengri tíma, á öllum sviðum og gegn öllum ógnum og áskorunum.“

Hópmynd frá fundi herráðsins í maí 2023.

Gegn Rússlandi og hryðjuverkahópum

Lykilþáttur í þeirri stefnu eru svæðisáætlanir, segir í tilkynningunni, áætlanir bundnar tilteknum landsvæðum, hannaðar til að fæla og verjast Rússlandi og hryðjuverkahópum, ógnunum tveimur sem lýst er í hernaðarstefnu bandalagsins. „Þetta er liður,“ segir þar, „í þróun NATO frá bandalagi sem hæfir tilfallandi aðgerðum utan umdæmisins að bandalagi sem mætir þörfinni fyrir stórsniðnar aðgerðir til að verja hverja tommu á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.“

Í Osló munu fyrrnefndir æðstu yfirmenn varnarmála, þrjátíu herforingjar og einn skrifstofustjóri, ræða hvernig þeim áformum skuli fyllilega hrint í framkvæmd. Meðal þátt í þeirri aðgerðaáætlun er að fjölga reiðubúnum hermönnum; byggja og þróa getu; aðlaga boðleiðir og stjórnleiðir bandalagsins að nýjum markmiðum; auka umsvif í flutningsgetu, stuðningi gistiríkja, viðhaldi, hreyfanleika herja, o.s.frv.. Þá er stefnt að því að fjölga sameiginlegum heræfingum og þjálfun liðsafla aðildarríkjanna.

„Nýtt afllíkan NATO til að reiða fram fleiri hermenn á háu stigi viðbúnaðar.“ Rammi úr kynningarmyndbandi sem framleitt var fyrir fund herráðsins í maí sl.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí