Ísland tekur þátt í árlegri ráðstefnu herráðs NATO í Osló um miðjan þennan mánuð, þar sem rædd verða áform um fjölgun vígbúinna hermanna innan aðildarríkjanna, aukinn hreyfanleika og flutningsgetu, og þróun bandalagsins til að „verja hverja tommu á yfirráðasvæði aðildarríkjanna“ eins og það er orðað í tilkynningu bandalagsins.
Að styrkja varnir og fælingarmátt
Herráðið skipa æðstu yfirmenn varnarmála allra 31 aðildarríkja NATO. Þeir koma í þetta sinn saman til ráðstefnunnar helgina 15. til 17 september, í Osló. Herráðið kemur reyndar saman þrisvar á ári, segir í tilkynningunni: tvisvar sinnum til funda í Brussel og einu sinni til þessarar árlegu ráðstefnu sem aðildarríkin skiptast á að halda. Samkvæmt tilkynningu frá NATO, mun dagskráin í þetta sinn snúast um að að styrkja fælingar- og varnargetu bandalagsins.
Um herráðsfulltrúa er óhætt að nota fornafnið „þeir“ – samkvæmt upplýsingasíðu NATO er engin kona í þeim hópi. Fulltrúar flestra aðildarríkjanna í herráði bandalagsins eru herforingjar. Fulltrúi Íslands í herráðinu er Jónas G. Allansson, sem á íslensku er titlaður „skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins“ en á ensku „Director General, Directorate for Defence Ministry for Foreign Affairs.“ Jónas er mannfræðingur að mennt og með viðamikla reynslu af störfum innan utanríkisþjónustunnar, ekki síst í tengslum við NATO, friðargæsluverkefni og skyld svið.
Í tilkynningu bandalagsins segir að æðstu yfirmenn varnarmála muni á ráðstefnunni hrinda í framkvæmd þeim ákvörðunum sem teknar voru af þjóðarleiðtogum og ráðherrum NATO-ríkjanna á ráðstefnu þeirra í Vilnius í júlí sl, en þar hafi „stór skref verið stigin til að styrkja varnar- og fælingarmátt bandalagsins til lengri tíma, á öllum sviðum og gegn öllum ógnum og áskorunum.“
Gegn Rússlandi og hryðjuverkahópum
Lykilþáttur í þeirri stefnu eru svæðisáætlanir, segir í tilkynningunni, áætlanir bundnar tilteknum landsvæðum, hannaðar til að fæla og verjast Rússlandi og hryðjuverkahópum, ógnunum tveimur sem lýst er í hernaðarstefnu bandalagsins. „Þetta er liður,“ segir þar, „í þróun NATO frá bandalagi sem hæfir tilfallandi aðgerðum utan umdæmisins að bandalagi sem mætir þörfinni fyrir stórsniðnar aðgerðir til að verja hverja tommu á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.“
Í Osló munu fyrrnefndir æðstu yfirmenn varnarmála, þrjátíu herforingjar og einn skrifstofustjóri, ræða hvernig þeim áformum skuli fyllilega hrint í framkvæmd. Meðal þátt í þeirri aðgerðaáætlun er að fjölga reiðubúnum hermönnum; byggja og þróa getu; aðlaga boðleiðir og stjórnleiðir bandalagsins að nýjum markmiðum; auka umsvif í flutningsgetu, stuðningi gistiríkja, viðhaldi, hreyfanleika herja, o.s.frv.. Þá er stefnt að því að fjölga sameiginlegum heræfingum og þjálfun liðsafla aðildarríkjanna.