Hagfræðingar Breska seðlabankans (Bank of England) hafa birt rannsóknarniðurstöðu þar sem bent er á að aukin ágóði fyrirtækja sé helsta hindrunin í því að koma böndum á verðbólguna þar í landi. The Guardian segir frá.
Samkvæmt gögnum seðlabankans segjast 45% fyrirtækja ætla að auka hagnaðarprósentuna á næsta ári. Þetta bætist við tölur um að fyrirtæki hafi aukið álagningu sína frá því að verðbólgan tók kipp í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu fyrir rúmu ári. Hagfræðingarnir benda á að 10% stærstu fyrirtækjanna í Bretlandi hafi þegar hækkað hagnaðarprósentu sína upp í nær 30% af veltu og muni halda því áfram á komandi misserum. Hagfræðingarnir kalla þetta á stofnanamáli að „uppbygging hagnaðarframlegðar [fyrirtækja] gæti leitt til þrautseigju verðbógunnar“. Guardian bendir á að meðal hagnaðarprósenta 10% stærstu fyrirtækjanna var um 20% árið 2005 en fyrirtækin stefna að 30% hagnaðarprósentu.
Auðvitað gengur ekki öllum fyrirtækjum eins vel. En það virðist skýrt að öll fyrirtæki sækjast nú eftir að auka hagnaðarprósentu sína sem eðlilega hefur áhrif á verðbólgu. Það kveður við nýjan tón hjá seðlabankanum því þar til nú hefur bankinn vísað því á bug að græðgissókn fyrirtækja (e. profiteering) eigi þátt í verðbólgunni og krafið verkalýðsfélög um að halda aftur af væntingum sínum. Rannsóknir hagfræðinganna virðast hafa leitt til þess að bankinn hefur skipt um skoðun. Kemur það í kjölfarið á því að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og Evrópski seðlabankinn hafa áður bent á þátt græðgissóknar fyrirtækja í verðbólgunni.
Framkvæmdastjóri Unite verkalýðsfélagsins, Sharon Graham, fagnar þessari nýju áherslu Breska seðlabankans og bendir á að verkalýðsfélög hafi fyrir mörgum mánuðum sett fram rannsóknir þar sem sýnt var fram á hlut græðgissóknar í verðbólgunni. Verkalýðsfélagið hafi bent á hvernig verslanir, sérstaklega stórverslanir, hafi nýtt sér verðbólguna til að hækka hagnaðarprósentuna. „Frá því að græðgisbólgan hófst (e. greedflation) hefur breski Seðlabankinn ráðist stanslaust á verkafólk en lágmarkað græðgissókn fyrirtækja“.
Rannsóknir sýna að græðgissókn fyrirtækja er ekkert einsdæmi í Bretlandi, heldur almennt út um hinn kapítalíska heim. Það væri því verðugt verkefni fyrir íslenska Seðlabankann að gera rannsóknir hvernig staðan er á Íslandi.