Segir Svandís ræða fiskveiðistjórn af fáfræði og út frá trúarbrögðum

Jón Kristjánsson fiskifræðingur gagnrýnir fiskveiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar harðlega í grein í Mogga dagsins og Svandís Svavars­dótt­ir mat­vælaráðherra sérstaklega fyrir að ræða fiskveiðistjórnina af fáfræði. Svandís skrifaði grein í Morg­un­blaðið fyrir skömmu sem hét „Varúð hef­ur skilað ár­angri“ og fjallaði hún þar um hve mik­ill ár­ang­ur hefði náðst í nú­ver­andi kvóta­kerfi með því sem hún kall­ar varúðarnálg­un.

„Grein­in ein­kenn­ist af fá­fræði og trú­ar­brögðum,“ segir Jón. „Svandís vís­ar í Huxley um að fisk­stofn­ar séu óþrjót­andi og menn geti ekk­ert gert sem hafi áhrif á þá en á hans tíma voru ekki til aðferðir til að mæla stofna með neinni ná­kvæmni frek­ar en nú. Stofn­ar þorsks og annarra hvít­fiska fóru ekki að minnka fyrr en farið var að stjórna veiðum á átt­unda ára­tugn­um.“

Jón segir að Dav­id H. Cus­hing hafi bnt á árið 1970 að þegar haldið væri að rýrn­un fisk­stofna væri vegna of­veiði væri það í flest­um til­fell­um vegna van­veiði, og skapaðist af röngu hlut­falli fæðu og fiska­fjölda. Cus­hing sagði sér­staka hættu á ferðinni þegar þjóðir hefðu full yf­ir­ráð yfir eig­in fisk­veiðilög­sögu. „Þetta hef­ur held­ur bet­ur komið í ljós á síðustu ára­tug­um en afli er á flest­um stöðum ekki svip­ur hjá sjón miðað við það sem áður var,“ skrifar Jón.

Í grein sinni segir Svandís að náðst hafi að byggja síld­ina sem hvarf upp aftur. „Úr hverju?“ spyr Jón. „Forn­leifa­upp­gröft­ur í Svíþjóð hef­ur leitt í ljós að síld­ar­stofn­ar hafa sveifl­ast í 50 ára takti um ald­ir. Þá hafa borkjarn­a­rann­sókn­ir í Kyrra­hafi sýnt svipað, mikl­ar sveifl­ur í an­sjó­su löngu áður en farið var að veiða hana. Sveifl­ur í fisk­stofn­um eru eðli­legt fyr­ir­brigði og eina leiðin til að draga úr þeim er að halda uppi mik­illi sókn.“

Hver er svo þessi meinti ár­ang­ur varúðar­stjórn­ar? spyr Jón og svarar sjálfur: „Jú, hann er sá að þorskafl­inn er far­inn úr 450 þúsund tonn­um í ára­tuga óstjórn í um 200 þúsund tonn eft­ir 40 ára vís­inda­lega stjórn. Hef­ur Svandís ekki lesið sér til um þetta?“

Jón bendir á að Svandís segi að enn sé gát­unni ósvarað um slak­ari nýliðun þorsks eft­ir 1980. „Þannig var að eft­ir að kvóta­kerfi var tekið upp var farið að stækka möskva (vernda smá­fisk) og tak­marka mjög afla,“ útskýrir Jón. „Fóru áhrif­in að koma fram 1988 þegar nýliðun þorsks minnkaði all­veru­lega og hef­ur hald­ist lít­il síðan. Frá 1964-1988 var meðal­nýliðun þorsks 220 millj­ón­ir þriggja ára þorska, en meðaltalið frá 1988 til dags­ins í dag er um 150 millj­ón­ir þorska. Hvernig stend­ur á þessu?“ spyr Jón.

Og heldur áfram: „Ég hélt fyr­ir­lest­ur fyr­ir Svandísi og stóru nefnd­ina 17. apríl sl. og setti fram eft­ir­far­andi til­gátu að skýr­ingu: Ein af vís­dóms­setn­ing­un­um í banka Hafró hef­ur löng­um verið að stór hrygn­ing­ar­stofn gefi meiri nýliðun en lít­ill, þess vegna sé um að gera að hafa hann sem stærst­an. Fyr­ir um 10 árum fór hrygn­ing­ar­stofn þorsks að stækka, þökk sé mak­ríln­um. Árið 2018 var hann orðinn stærri en hann hafði verið frá 1963. Hann er orðinn um þris­var sinn­um stærri en hann var löng­um á ní­unda og tí­unda ára­tugn­um. En nýliðunin læt­ur standa á sér. Hvernig má það vera? Til þess að ungviðið kom­ist upp verða að vera til þess skil­yrði. Fisk­stofn­ar geta ekki stækkað enda­laust. Ef stofn­inn er stór er orðin þröng á þingi og mik­il sam­keppni um mat. Þess vegna er erfitt fyr­ir ungviðið að kom­ast á legg.“

Í grein­inni sagði Svandís einnig: „Ef fiski­fræðing­ar van­meta stofn þýðir það meiri afla í framtíðinni. Of­meti þeir stofn­ana þýðir það að áfallið verður minna í framtíðinni ef eng­ar höml­ur hefðu verið. Aug­ljóst er að betra er að van­meta stofn en of­meta, það er ástæðan fyr­ir því að varúðarnálg­un við stjórn­un fisk­veiða er skyn­sam­leg nálg­un.“

„Hvað er hún að reyna að segja?“ spyr Jón. „Að það gef­ist vel að geyma fisk í sjó þar sem hann bíður af­hroð vegna sam­keppni, fóður­skorts eða verður ét­inn? Það set­ur nú að mér hroll þegar ég heyri þetta, hún hlýt­ur að vera illa les­in og hafa slæma ráðgjafa. Ætlar vit­leys­an að halda áfram enda­laust?“

Jón hefur nokkrum sinnum komið að Rauða borðinu og gagnrýnt þar ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og fiskveiðistjórnina. Hér má sjá nýjasta viðtalið þar sem hann skýrar gagnrýni sína.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí