Spurður um hunsun á mannúðarkrísu þóttist ráðherra móðgast yfir orðfæri

Félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur brugðist við fyrirspurn blaðamanns um lausnir á vanda þeirra innflytjenda sem úthýst hefur verið úr húsnæðisúrræðum án atvinnuleyfis, félagslegs stuðnings eða fyrirliggjandi brottvísunar og eru því á götunni. Ráðherra hefur sagt að ráðuneytið vinni að lausn á málinu. Blaðamaður spurði: „Hvers konar lausn er í bígerð og hvenær er hennar að vænta?“

Fyrirspurnin var send Guðmundi Inga Guðbrandssyni, ráðherra, á miðvikudag í liðinni viku. Í gær, mánudag, birti Samstöðin frétt þess efnis að ekkert svar hefði enn borist frá ráðherranum. Viðbragð ráðuneytisins barst seinna sama dag, að loknum skrifstofutíma. Fleira bar þó til tíðinda í málinu þann dag – eða öllu heldur: að ekkert hafði borið til tíðinda birtist á fleiri veg en einn.

Ráðherra inntur svara á þingi

Í frétt Samstöðvarinnar á mánudag kom einnig fram að Sema Erla Serdaroglu, formaður samtakanna Solaris sem borið hefur hitann og þungann af því að forða hinum úthýstu frá því að vera beinlínis á götunni, hefði ekki heldur heyrt frá ráðherranum.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, innti ráðherrann eftir svörum við því í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi þennan sama mánudag, hvers vegna enn bólaði ekki á lausn á stöðu fólksins, og hví hann hefði ekki haft „samband við þau sjálfboðaliðasamtök sem gripu þennan bolta fyrir hans hönd“.

Ráðherrann svaraði því annars vegar til að sveitarfélögum beri að taka mál fólksins fyrir, hins vegar standi yfir vinna að útfærslu þjónustu á vegum ríkisins sem ráðherrann sagðist vonast til að sjái fyrir endann á „sem allra fyrst“.

Um samskipti við félagasamtök á við Solaris svaraði Guðmundur Ingi loks:

„Ég veit ekki betur en að ég hafi einn ráðherra mætt á fund með 30 félagasamtökum hérna í lok ágúst eða byrjun september og átti þar samtal og hlustaði á það sem þau höfðu fram að færa þannig að það er ekki um það að ræða að ég hafi ekki talað við félagasamtökin.“

Ráðherra segir fólki óhætt að skrifa sér aftur

Anna Arndís tók þá aftur til máls og sagði að sér virtist sem ráðherrann teldi þetta ekki mikið vandamál: „Það er verið að skoða þetta, það er verið að vinna þetta í ráðuneytinu. Mig langar til þess að minna hæstvirtan ráðherra á að það er fólk sem er á götunni í þessum töluðu orðum, einhverjir tugir einstaklinga. Því langar mig til að spyrja: Hyggst hæstvirtur ráðherra láta hjálparsamtök úti í bæ sjá um að halda þessu fólki lifandi á meðan unnið er að byggingu fangelsisins eða hvaða lausna sem hann hyggst koma með á þessu?“

Um samskiptaleysi ráðherra við félagasamtökin spurði Arndís ennfremur:

„Ætlar hann að láta þetta hvíla á hjálparsamtökum úti í bæ, sem hafa ítrekað haft samband við hæstvirtan ráðherra með símtölum og tölvupóstum sem hæstvirtur ráðherra svarar ekki? Það nægir ekki að mæta á einhvern opinn fund og segja sömu tugguna og kom fram í einhverjum ræðum hérna í mars. Hyggst hæstvirtur ráðherra ekki eiga neitt samtal við hjálparsamtök umfram þennan fund sem átti sér stað?“

Þessu svaraði ráðherra því til að hann myndi eftir einu símtali sem hann hefði ekki náð að svara. „Það skal ég alveg fúslega viðurkenna. Ég kannast ekki við að hafa fengið marga tölvupósta en það má þá alltaf bara senda þá á mig aftur.“

Þá þóttist ráðherran móðgaður yfir því að þingmaður hefði notað orðið „tugga“ og lét í veðri vaka að þar hefði hún átt við landslög en ekki ummæli ráðherrans sjálfs.

Ráðherra leggur „þunga áherslu á þetta mál“

Það var rúmri klukkustund eftir þessi orðaskipti á þingi sem upplýsingafulltrúi ráðuneytisins brást við fyrirspurn Samstöðvarinnar með framangreindum tölvupósti. Viðbragð upplýsingafulltrúans er svohljóðandi:

„Endanlegt fyrirkomulag liggur ekki fyrir hvað varðar þjónustu við umrædda einstaklinga. Líkt og fram hefur komið leggur ráðherra þunga áherslu á þetta mál og áfram er unnið að því innan ráðuneytisins.“

Viðbragðið fól ekki í sér efnislegt svar, en að forminu til má þó segja að erindi blaðamanns hafi verið svarað. Sama er ekki að segja um tilraunir fyrrnefndra félagasamtaka til að ná tali af ráðherra. Á mánudagskvöld brást Sema Erla við ummælum ráðherrans á þingi með færslu á Facebook þar sem hún birti skjáskot af tveimur tölvupóstum sem hún hefur sent ráðherranum og hann ekki svarað. Í færslunni skrifaði Sema Erla meðal annars:

„Í dag, eftir að ráðherra sagðist ekki kannast við ósvaraða tölvupósta en „það mætti bara senda aftur“ gerðum við einmitt það og ítrekuðum beiðni okkar um skýr svör við því hvert nákvæmlega fólk á að fara til þess að sækja þessa nauðsynlegu grunnþjónustu sem ráðherra tók þátt í að svipta fólkið.

Þögnin er ærandi frá manninum sem fyrir mánuði sagði að „sér sviði yfir því að þetta hafi gerst!“ Aðgerðarleysið er algjört hjá manninum sem fyrir mánuði sagði að það væri „ekki gott að horfa upp á að fólk sofi í gjótu!““

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí