Á miðvikudag í síðustu viku sendi blaðamaður skriflega fyrirspurn til félagsmálaráðherra um fyrirhugaðar lausnir í málum þeirra tuga sem nú hefur verið úthýst úr húsnæðisúrræðum yfirvalda, án stuðnings, án atvinnuleyfis og án fyrirséðrar brottvísunar. Móttaka erindisins var staðfest á fimmtudag en nú um miðjan mánudag, fimm dögum eftir að spurningin var lögð fram, hefur enn ekki borist svar. Fyrri tilraunir til að ná tali af ráðherra í síma hafa ekki borið árangur.
Sema Erla Serdaroglu, formaður samtakanna Solaris, svaraði fyrispurn blaðamanns í dag, mánudag, og sagðist ekki hafa heyrt frá ráðherranum heldur, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, og þá ekki frá öðrum ráðamönnum: „Ekkert að frétta af samskiptum við ráðherra og nokkurn í stjórn ríkis eða sveitarfélaga. Við erum bara hunsuð.“
Óásættanleg staða, sagði ráðherrann í ágúst
Tæpur mánuður er nú liðinn frá því að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, lét hafa það eftir sér í samtali við blaðamann mbl.is, að staðan væri óásættanleg og þess vegna væri hann „að stíga inn í þetta til þess að finna lausnir með mínu góða fólki. Ég er sannfærður um að við finnum lausn og hana verður að finna sem allra fyrst.“ Talsmenn réttindasamtaka og baráttuhópa hafa ítrekað innt ráðherrann eftir þessari lausn, en ekki hefur enn borið á svörum. Á meðan fjölgar í hópi úthýstra og réttindasviptra.
Fyrirspurnin sem blaðamaður sendi ráðherra í liðinni viku var svohljóðandi:
„Nú er komið á fimmtu viku frá því að almenningur frétti fyrst af úthýsingum fólks á flótta úr húsnæðisúrræðinu við Bæjarhraun. Samkvæmt hjálparsamtökum á sviðinu eru nú að minnsta kosti á milli 50 og 60 manns í þeirri stöðu að hafa, í samræmi við nýlegar breytingar á 33. grein Útlendingalaga, verið svipt rétti á þjónustu hins opinbera án þess að hafa verið veitt atvinnuleyfi eða að fyrir liggi brottvísun. Þau, eða nokkur fjöldi þeirra eru með öðrum orðum á landinu en virðast í einskis manns landi að þessu leyti, að vera fyrirmunað af yfirvöldum að sjá sér farborða með löglegum hætti. Fulltrúar hjálparsamtaka hafa nefnt þetta ástand mannúðarkrísu, sem virðist ekki úr vegi. Borist hafa fréttir af ummælum frá þér um að ráðuneytið leiti lausna á málinu en ekki hefur frést af lausninni sjálfri enn sem komið er. Ljóst er að allar tafir geta orðið afdrifaríkar í þessum aðstæðum. Því virðist óhjákvæmilegt að spyrja: hvers konar lausn er í bígerð og hvenær er hennar að vænta?“
Orkuskipti ofar í huga
Drífa Snædal, talskona Stígamóta, vakti athygli á því í liðinni viku að enginn stjórnarliði minntist á þetta viðfangsefni í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, né minntist forsætisráðherra á efnið sjálf. Guðmundur Ingi nefndi ýmsa hluti í sinni ræðu. Hann sagði loftslagsmál vera „stærstu velferðarmál 21. aldar“ og tiltók að í ráðuneytinu sé nú unnið að tillögum „um hvernig bifreiðastyrkir til örorkulífeyrisþega geti nýst til kaupa á rafbílum“. Stöðu þeirra sem stjórnvöld hafa sett á götuna og þeirra sem stjórnvöld halda áfram að setja á götuna um þessar mundir nefndi hann ekki.