Tilkynning Síldarvinnslunnar kom fyrirvaralaust, segir Afl starfsgreinafélag

Afl starfsgreinafélag brást strax á þriðjudag við tilkynningu Síldarvinnslunar hf um fyrirhugaða lokun fiskvinnslu fyrirtækisins á Seyðisfirði, sem leiða mun til þess að allt að 30 manns missi vinnuna. Í yfirlýsingu Afls vegna málsins segir að þar með sé líklegt að „„frystihúsraekstur“ á Seyðisfirði leggist af eftir áratuga samfellda sögu.

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður Afls sagði, í samtali við blaðamann, ákvörðun Síldarvinnslunnar vera vonbrigði. „Þarna erum við að tala um 30 félagsmenn sem missa vinnuna eftir nokkra mánuði. Þessi tilkynning um lokun kemur, að ég vil segja, fyrirvaralaust.“

Reiðarslag í 700 manna bæ

Á Seyðisfirði búa um 700 manns. „Nei, reiðarslag er ekki of stórt orð í þessu samhengi,“ segir Hjördís. „Það er ekkert mjög fjölbreytt atvinnulíf á Seyðisfirði. Mjög margir sækja störf út úr firðinum, og það er auðvitað yfir erfiðan fjallveg að fara eins og komið hefur fram.“

Í viðtali við Austurfrétt sagði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Múlaþings, að ákvörðun Síldarvinnslunnar kæmi ekki á óvart, en væri þó vonbrigði, auk þess sem tímasetningin sé óvænt: „við áttum ekki von á að það yrði svona snöggt.“ Þannig má á honum skilja að ákvörðunin hafi átt sér aðdraganda.

Hjördís segist ekki vita hvaða aðdraganda bæjarstjórinn er þar að tala um. „Það liggur auðvitað fyrir að Síldarverksmiðjan kaupir verkunina og vinnsluna og útgerðina og bræðsluna fyrir um 9 árum síðan. Þá er búist við áframhaldandi starfsemi. Það verður að hluta til, svosem, það á að reka þarna áfram bræðsluna og skipið þó að það landi líklega annars staðar. En loka frystihúsinu. Og nei, ég átti ekki von á þessu.“

Enn að melta tíðindin

Hjördís segist hafa rætt við trúnaðarmann starfsfólks í gær, þriðjudag, og þá hafi fólk „ekki verið búið að ná þessu, þannig. Þetta kom flatt upp á fólk, það var bara að melta tíðindin, í raun og veru.“ Hún segist stefna á að hitta fulltrúa starfsfólksins í næstu viku.

Hjördís segist ekki þekkja samsetningu starfsmannahópsins sem um ræðir til fulls. Samkvæmt rannsókn sem unnin var fyrir tveimur árum síðan voru um 9 prósent íbúa á Austurlandi innflytjendur og líklegt að það hlutfalli hafi að minnsta kosti ekki lækkað. Hjördís segir að síðast þegar hún fór á vinnustaðinn hafi henni virst um það bil þriðjungur til helmingur starfsfólks vera Íslendingar. „Svo er alltaf spurningin hverjir eru Íslendingar. Fólk sem er búið að búa og starfa þarna lengi er þarna auðvitað líka þó að það komi erlendis frá.“

Fólki líður vel á Seyðisfirði

Blaðamaður bar undir Hjördísi þau ummæli sem fylgja tilkynningu Síldarvinnslunar, um að félagið sé reiðubúið að leggja eitthvað af mörkum til annarrar uppbyggingar á svæðinu, sem birtast þó án tiltekinna áforma eða skuldbindinga. „Já, ég veit svosem ekkert hvað þeir eru að hugsa þar,“ svarar Hjördís. „Hins vegar veit ég að það er vilji ákveðinna aðila að setja upp fiskeldi í firðinum en mikil andstaða hjá heimamönnum. Ég veit ekkert hvort þetta tengist eða hvort það er þetta sem er verið að ýja að þar. Það verða aðrir að svara því en ég. Það er nú það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég heyrði þetta. En auðvitað getur verið að það sé verið að skoða eitthvað annað.“

Viðbrögð Afls að svo stöddu eru „bara að hitta fólkið þegar þetta er búið að síast inn og reyna að greiða götu þess varðandi hver næstu skref geta orðið. Það fer svolítið eftir því hvað hver og einn vill gera í framhaldinu. Einhverjum var boðið að færa sig um set og starfa hjá fyrirtækinu annars staðar. Ég hef ekki yfirsýn yfir hvað það er stór hluti af fólkinu sem getur það. Fólk er auðvitað bundið, þau sem eiga húsnæði og annað, það fer ekki einn, tveir og þrír. Mögulega er eitthvert farandverkafólk þarna starfandi sem getur flust á milli en þá er það spurning: kærir það sig eitthvað um það? Ég held að fólki líði almennt bara vel á Seyðisfirði. Það er líka spurning um það, sko.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí