Síldarvinnslan hagræðir og sviptir 30 manns vinnunni í 700 manna bæ

Eins og greint var frá í kvöldfréttum RÚV á þriðjudag hefur Síldarvinnslan tilkynnt um lokun bolfiskvinnslu sinni á Seyðisfirði frá og með 1. desember næstkomandi. Í fréttatilkynningu félagsins kemur fram að ákvörðunin muni „hafa áhrif“ á 30 af 33 núverandi starfsmönnum bolfiskvinnslunnar á Seyðisfirði. Af öllum fréttum að dæma er þar átt við að þau missa, með þessari breytingu, vinnuna. Ljóst er því að lokunin er mikið högg fyrir bæjarfélag þar sem búa um 700 manns.

Þróun í átt að stærri og sjálfvirkari einingum

Ástæða lokunarinnar er í stystu máli sögð hagræðing innan stórfyrirtækisins Síldarvinnslunnar. Í tilkynningu félagsins segir að rekstrarumhverfi fiskvinnslunnar hafi „breyst hratt á undanförnum áratugum“, margir kostnaðarliðir hafi hækkað, fjármögnun sé orðin dýrari og þorskheimildir hafi dregist saman. Þar að auki sé fiskvinnslan á Seyðisfirði „komin til ára sinna“ og ljóst að ráðast þyrfti í „framkvæmdir og fjárfestingu“ til að hún yrði „samkeppnishæf við fullkomnustu bolfiskhúsin í dag, þar sem tækniþróun hefur verið ör“. Sá kostnaður hlypi, samkvæmt tilkynningu félagsins „á hundruðum milljónum króna“ og „ljóst að jafn lítil starfseining stæði ekki undir slíku.“

Þá kemur fram í sömu tilkynningu að fyrirtækið hafi nýlega fjárfest í „öflugum fiskvinnsluhúsum í Grindavík“ til að „mæta kröfum um aukna sjálfvirkni, betri nýtingu afurða og auka sveigjanleika í framleiðslu.“ Til að standa undir „slíkum kröfum“ hafi „þróunin undanfarin ár verið í átt að stærri framleiðslueiningum með fjölbreyttari framleiðslu.“ Undir fréttatilkynninguna ritar Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.

Einkar ábatasamur rekstur Síldarvinnslunnar

Bolfiskur telst allur nytjafiskur annar en flatfiskar, síld og loðna. Bolfiskvinnslan á Seyðisfirði var áður rekin af sjávarútvegsfyrirtækinu Vísi en það var á síðasta ári sem Síldarvinnslan keypti allt hlutafé í Vísi fyrir 31 milljarð króna, að því er fram kom í frétt um söluna á þeim tíma. Sú fjárhæð er að meðtöldum yfirteknum lánum. Innherji fullyrti á sínum tíma að Vísir væri verðmætari en sem næmi söluverðinu, og hefði Síldarvinnslan í reynd fengið 6,5 milljarða afslátt frá mögulegu söluverði í meðgjöf. Fjárfestar voru að minnsta kosti kátir yfir kaupunum og hækkuðu bréf í Síldarvinnslunni snarlega um 8,4 prósent eftir að þau vor tilkynnt.

Rekstur Síldarvinnslunnar hefur af öllum merkjum að dæma verið gríðarlega ábatasamur undanliðin ár. Þannig kemur í umfjöllun Kjarnans frá síðasta ári fram að félagið hagnaðist um 11,1 milljarð króna árið 2021 „ef miðað er við með­­al­­gengi Banda­­ríkja­dals en félagið gerir upp í þeirri mynt.“

Við kaupin á Vísi á síðasta ári lét forstjóri Síldarvinnslunnar þó þegar að því liggja að óvíst væri um framtíð bolfiskvinnslunnar á Seyðisfirði. „Við erum litlir í bolfiski, erum með litla vinnslu á Seyðisfirði og það hefur engin afstaða verði tekin til hennar með þessum kaupum,“ sagði hann þá.

Stoðirnar undir byggðarlaginu

Áður hafði Síldarvinnslan keypt öll hlutabréf í útvegsfyrirtækinu Gullberg sem gerði út togarann Gullver NS 12, frá Seyðisfirði, ásamt fiskvinnsluhúsnæði og búnaði Brimbergs í bænum. Það var árið 2014. Í tilkynningu félagsins um þau kaup mátti lesa að áfram yrði gert út frá Seyðisfirði og áhersla lögð á „að tryggja áframhaldandi framleiðslustörf tengd sjávarútvegi í byggðarlaginu“. Þá var staðhæft að með því að hafa útgerð og vinnslu á sömu hendi væri „traustari stoðum skotið undir heilsársstörf og atvinnulíf í byggðarlaginu.“

Stærsti eigandi Síldarvinnslunnar er Samherji, sem á um þriðjungshlut í henni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí