„Nú er fyrsta haustlægðin að ganga í garð og útlit er fyrir að ansi kalt verði í kvöld og nótt. Veðurspáin hefur ekki stoppað ríkislögreglustjóra í að halda áfram að henda flóttafólki á götuna síðustu daga.“ Þetta skrifar Sema Erla Serdaroglu, formaður samtakanna Solaris, á Facebook, síðla dags í dag, föstudaginn 1. september 2023. Gul veðurviðvörun er í gangi á höfuðborgarsvæðinu.
„Að sama skapi hefur enginn fulltrúi ríkisstjórnarinnar eða sveitarfélaga haft samband við einu aðilana sem vita eitthvað um stöðu fólksins sem enginn vill, og hvar það er að finna, nú þegar óveður er á leiðinni,“ skrifar hún og spyr: „Er hægt að vera meira sama um afdrif fólks?“
Í dag eru 21 dagur frá því að fréttist af úthýsingu Blessing Newton og fleiri kvenna í sömu stöðu úr húsnæðisúrræði Útlendingastofnunar. Fjöldi flóttafólks hefur síðan lent í sömu sporum. Hversu margir er óljóst, en vitað er að tugir eiga það hlutskipti yfir höfði sér að vera svipt því sem yfirvöld kalla þjónustu, en er um leið réttindaleysi, að því leyti sem þeim er bannað að framfæra sér með vinnu.
„Nú er enn ein vika liðin, skrifar Sema Erla, „án þess að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi leyst úr stöðu flóttafólks sem fyrir vikum og mánuðum síðan var gert heimilislaust og dæmt til hungursneyðar þrátt fyrir yfirlýsingar ráðherra um að „enginn vilji hafa flóttafólk á götunni!““ og spyr: „Hvernig sofið þið á næturnar?“
Færslunni lýkur á að hún innir eftir meðvitund viðbragðsaðila um stöðuna: „Í fréttum var haft eftir fulltrúa Björgunarsveitanna að þeir séu undirbúnir undir það sem koma skal í kvöld og nótt. Nær það til þess að finna flóttafólk sem mögulega verður úti í einhverri gjótu einhvers staðar í kvöld vegna kulda og hungurs? Vegna sinnuleysis þeirra sem fara með völdin í þessu landi.“