Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, segir að um tuttugu þúsund manns lifi rétt við eða undir lágmarksmörkum og þola engar óvæntar uppákomur. „Bíllinn má ekki bila, allar hækkanir á vöruverði og þjónustu bitna hart á þessum hópi, ekkert má fara úrskeiðis. Þessi hópur getur ekkert veitt sér. Það er ekki mikið stuð á þeim bæjum,“ segir Helgi.
„Kjör og aðstæður þeirra sem verst eru sett eru hins vegar einu ríkasta samfélagi heims til ævarandi skammar. Þetta er fólk sem hefur litlar sem engar lífeyristekjur, hefur alla tíð haft lítil laun, er að hluta til aðflutt og í miklum meirihluta konur. En eitt auðugasta samfélag heims toppar sig auðveldlega með því að láta hundrað okkar elstu bræðra og systra liggja á göngum og geymslum á sjúkrahúsum,“ skrifar Helgi m.a. í grein í Mogga dagsins.
Og segir að Landssamband eldri borgara leggji til sértækar aðgerðir fyrir þau verst settu:
- Sérstakt skattþrep/hækkun persónuafsláttar taki fyrst og fremst til lífeyristaka.
- Minni eða engar skerðingar hjá þeim sem eru undir viðurkenndu framfærsluviðmiði.
- Þau lægstu fái sérstakar greiðslur sem fjari út í hlutfalli við tekjur.
- Við leggjum til almennar aðgerðir sem koma þeim best sem eru með lágar og miðlungstekjur:
- Hækkun frítekjumarks í 100.000 kr. Frítekjumarkið er 25 þúsund krónur og hefur ekki hækkað síðan 2017. Kæmi þeim best sem eru með lægstan lífeyri.
- Ellilífeyrir verði aldrei lægri en lægsti kauptaxti. Hann er núna 315 þúsund, tæplega 90 þúsund undir lágmarkstaxta.
- Árlegar hækkanir lífeyris og frítekjumarka fylgi launavísitölu.
„Við viljum endurskoða útreikning vegna frestunar á töku ellilífeyris – reikna hækkun vegna frestunar áður en lífeyrir er skertur,“ skrifar Helgi. „Við viljum að sama regla gildi við meðferð leigutekna við ákvörðun lífeyris og gert er við álagningu fjármagnstekjuskatts. Þá viljum við að 300.000 kr. frítekjumark fjármagnstekna gildi einnig gagnvart lífeyri frá almannatryggingum og að lífeyristakar njóti hækkana frá lífeyrissjóðum sem hækkun atvinnutekna.“