Vinstri græn prinsipplaus í útlendingamálum og senda afleiðingarnar annað, sagði Þórunn

Vinstri græn hafa gengið bak allra sinna loforða og þeirra grunngilda sem flokkurinn hefur hingað til sagst standa fyrir í útlendingamálum, sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir á Alþingi nú í dag, fimmtudag. Hún sagði tímabært að flokkurinn horfist í augu við „prinsippleysi sitt í útlendingamálum.“ Tilefnið var hringlandaháttur stjórnvalda um afleiðingar af breytingum sem gerðar voru á útlendingalögum síðasta vor og það sem Þórunn kallaði nýjan stjórnunarstíl félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem sendi nú út tilskipanir til sveitarfélaga um „hvernig hlutirnir eigi að vera þegar ríkisstjórnin er komin í svo vond mál með afleiðingar ákvarðana sinna að hún þarf að senda afleiðingarnar annað.“

Blendnar tilfinningar til samnings við RKÍ

Í gær, á miðvikudag, tilkynnti félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, að ráðuneyti hans hefði samið við Rauða krossinn á Íslandi um neyðarþjónustu fyrir þær manneskjur sem, 30 dögum eftir endanlega synjun umsókna um alþjóðlega vernd, er úthýst úr húsnæðisúrræðum stjórnvalda, án atvinnuleyfis eða annarra leiða til að sjá sér farborða. Neyðarþjónustan verður að sögn ráðherra og fulltrúa Rauða krossins rekin með sama hætti og neyðarskýli fyrir annað fólk sem stríðir við heimilisleysi, sem náttstaður og vettvangur máltíða, en yfir daginn verða skjólstæðingar úrræðisins reknir úr húsi.

Það mátti skilja á þeim viðmælendum Samstöðvarinnar sem komið hafa að björgunaraðgerðum í þær sex vikur sem liðu frá því að fyrst fréttist af úthýsingunum þar til þessi neyðarþjónusta kemur nú til sögunnar, að þau hefðu afar blendnar tilfinningar. Reiði, annars vegar, yfir að stjórnvöld virtust ekki hafa í hyggju að leiðrétta þá lagabreytingu sem skapaði þessar aðstæður til að byrja með, heldur aðeins plástra yfir afleiðingarnar. Hins vegar, um leið, léttir yfir því að kominn væri farvegur til að forða fólkinu sem í hlut á frá algjörri berskjöldun og jafnvel lífshættu, ef það skyldi enda á götunni án matar og annarra helstu grunnþarfa.

Sveitarfélögin lýsa yfir vonbrigðum

Önnur hlið á málinu varðar hins vegar sveitarfélögin. Í tilkynningu ráðherra kom einnig fram að hann hefði sent sveitarfélögum tilmæli vegna aðstoðar við hópinn sem um ræðir. Svo virðist vera sem ráðuneytið geri ráð fyrir að sveitarfélögin komi til móts við grunnþarfir þessa réttindasvipta hóps, sé þess kostur, og Rauði krossinn bjóði aðstöðu til þrautavara, „þar sem óvíst er hvort dvalarsveitarfélag í hverju tilviki fyrir sig hafi yfir að ráða úrræði til að hýsa umrædda einstaklinga, sem ekki eiga í önnur hús að venda,“ eins og það er orðað í tilkynningu ráðherrans. Þá hafi breytingar verið gerðar á reglum ráðuneytisins um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga í þessu samhengi og skýrt hvaða útlagða kostnað skuli endurgreiða sveitarfélögunum úr ríkissjóði.

Sama dag og tilkynning ráðuneytisins birtist sendi Samband íslenskra sveitarfélaga frá sér tilkynningu þar sem „þessi einhliða aðgerð“ ráðherrans er sögð „gríðarleg vonbrigði“ enda „tekin með fullri vitneskju ráðherra um algjöra andstöðu sveitarfélaganna við þessa ráðstöfun.“ Vísar sambandið í fyrri bókun stjórnar þess um málið og ítrekar þá afstöðu stjórnarinnar að sveitarfélögum sé „hvorki heimilt né skylt að veita þeim erlendu ríkisborgurum fjárhagsaðstoð, sem vísað hefur verið úr þjónustu ríkisins“ í þessu samhengi. Sambandið segist munu fara yfir stöðuna og skoða möguleg viðbrögð.

Prinsippleysi VG í útlendingamálum

Það er þá til þessa viðvarandi ágreinings sem Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vísaði í ræðu um störf þingsins nú að morgni fimmtudags. „Það var hart tekist á um breytingar á útlendingalögunum í þessum sal á síðasta þingi,“ sagði hún, „og ekki að ástæðulausu, enda kaus meiri hlutinn hér að fara gegn öllum góðum ráðum þeirra sem gerst þekkja til í útlendingamálum.“

Nú hefði félagsmálaráðherra boðað fulltrúa sveitarfélaganna á sinn fund „til að tilkynna einhliða aðgerðir ráðherrans um breytingar á reglugerðum og samningum við Rauða krossinn.“ Þórunn sagði að hér gripi ráðherrann til nýs stjórnunarstíls á Íslandi. „Það eru „dírektíf“ gefin út og sveitarfélögum, sem á stundum eru mærð í þessum sal og eru talin sjálfstæð, er tilkynnt hvernig hlutirnir eigi að vera þegar ríkisstjórnin er komin í svo vond mál með afleiðingar ákvarðana sinna að hún þarf að senda afleiðingarnar annað.“

Þórunn sagði tilgang hins umdeilda 30 daga ákvæðis útlendingalaganna frá síðasta vori ekki hafa verið þann að senda fólk aftur til sveitarfélaganna. „Það var það aldrei. Það átti að senda skilaboð út í heim um að hér væri fólk ekki velkomið og að halda einhverju öðru fram er ekkert annað en að slá ryki í augu fólks og kjósenda. Og kannski er kominn tími til þess, frú forseti, að Vinstri græn horfist í augu við prinsippleysi sitt í útlendingamálum og hvernig þau hafa gengið bak allra sinna loforða og þeirra grunngilda sem flokkurinn hefur hingað til sagst standa fyrir.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí