Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur gert samkomulag við Rauða krossinn á Íslandi um neyðaraðstoð við það fólk sem stjórnvöld úthýstu í sumar, í krafti nýrra útlendingalaga, það er fólk sem hefur fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd en ekki er unnt að brottvísa. Þetta kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins í dag, miðvikudag.
Fulltrúar félagasamtaka hafa lýst stöðunni sem fólkið var sett í sem mannúðarkrísu. Samkomulag ríkisins við Rauða krossinn er tímabundið. Um er að ræða lágmarksþjónustu, samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins: „gistingu og fæði í samræmi við það sem almennt tíðkast í gistiskýlum fyrir heimilislaust fólk“ ásamt því sem „varðar hámarksdvalartíma hvers einstaklings á sólarhring í viðkomandi gistiúrræði sem og fjölda máltíða á sólarhring“.
Í tilkynningunni kemur fram að ráðherra hafi sent tilmæli til félagsþjónustu sveitarfélaganna um málið, Samband íslenskra sveitarfélaga hafi verið upplýst. Þá sé skýrt kveðið á um hvað komi til endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna aðstoðar sveitarfélaga við fólk í þessari stöðu. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög geti vísað fólki til Rauða krossins í lok þessarar viku, segir þar.