Andspænis árásinni á Ísrael leggja íslensk stjórnvöld áherslu á mannúðaraðstoð, segir utanríkisráðherra

Á sunnudag gaf Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra til kynna að Ísland verði tilbúið að taka á móti flóttafólki frá Palestínu eftir því sem tilefni verður til, í kjölfar árásar Hamasliða á Ísrael á laugardag.

Þrenns konar viðbrögð við árásinni

Andspænis fjölþættri og mannskæðri árás Hamas-liða frá Gazaströndinni á Ísrael á laugardag má greina meginviðbrögð af þrennum toga. Í fyrsta lagi sjokk eða áfall, langt út fyrir svæðið sem atburðarásin á sér stað á. Myndefni frá árásinni barst nær samstundis um samfélagsmiðla, myndir af fórnarlömbum, af gíslatökum, af látnum og í sumum tilfellum af niðurlægjandi meðferð þeirra. Skelfingin sem fylgir árásinni felur ekki, sem slík, í sér afstöðu.

Jafnharðan birtust yfirlýsingar um samstöðu með Ísrael, ýmist tiltölulega varfærnislegar eins og í tilfelli utanríkisráðherra Íslands, sem segist fordæma árásirnar harðlega. Sú yfirlýsing birtist á X (áður twitter), með enska orðalaginu „Iceland strongly condemns the attacks by Hamas on Israel.“ Þeirri yfirlýsingu fylgdi þó ekki afstaða til fyrirsjáanlegra varna eða hefndaraðgerða Íraselsríkis. Hins vegar birtust einarðari yfirlýsingar, á við þá sem Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, lét frá sér sama dag. Zelensky sagði: „Andspænis hryðjuverkaárás sem þessari verða allir sem bera virðingu fyrir lífi að sýna samstöðu.“ Þá lagði hann að jöfnu stöðu Ísraels undir árás frá Gaza og Úkraínu undir árás Rússa og sagði afstöðu Úkraínumanna skýra: hvern sem beitti „hryðjuverkaógn og dauða“ hvar sem er á jörðinni þyrfti að draga til ábyrgðar. Þá bætti forsetinn við við: „Ísrael hefur fullan rétt til að verja sig gegn hryðjuverkum. Rétt eins og hvert annað ríki.“

Í þriðja lagi minnir sá fjöldi fólks sem hefur sýnt frelsisbaráttu Palestínu samstöðu til ára eða áratuga á það víðara samhengi árásarinnar. Úr þeim hópi lýstu margir þegar á laugardag yfir stuðningi, ef ekki við Hamas þá við baráttu Palestínumanna almennt: Palestínumenn hafi rétt á að verjast yfirgangi og aðskilnaðarstefnu Ísraels. Meðal þeirra mátti víða sjá stöðu Palestínu undir oki Ísraels líkt við stöðu Úkraínu undir oki Rússa. Slíkar yfirlýsingar virðast í fljótu bragði algengari meðal almennings en ráðamanna. Til dæmis má nefna orðsendingu Sverris Agnarssonar sem hann birti á Facebook á laugardag, þar sem hann sagði: „Ég óska Hamas alls hins besta í löglegri sjálfsvörn gegn erlendu hernámi en óttast heift og hefnigirni Ísraela.“

Og um það eitt virðist ríkja fullvissa í öllum herbúðum: að Ísrael muni, eins og talsmaður hersins orðaði það aðfaranótt sunnudags, veita fordæmalaust viðbragð við þessari fordæmalausu árás. Að hörmungar séu framundan.

Ísland opnar faðminn gagnvart flóttafólki frá Palestínu

Vísir ræddi um stöðuna við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í dag, sunnudag. Ráðherrann sagðist hafa „raunverulegar og alvarlegar áhyggjur af því hvernig þessu kannn að vinda fram.“ Hún sagði að spennustig fari nú hækkandi á fleiri svæðum, og nefndi, auk innrásar Rússa í Úkraínu, stöðuna á milli Armeníu og Aserbaídsjan.

Um aðstoð við flóttafólk frá Palestínu sagði hún: „Palestína hefur í gegnum árin verið áhersluland varðandi aðstoð. Þegar svona tilfelli koma upp, í þessu tilfelli bein hryðjuverkaárás á annað ríki, erum við með okkar mekanisma eða tól til að verða að liði eins og til dæmis mannúðaraðstoð. Við munum að skoða allar slíkar leiðir en skoða hvernig málum vindur fram og svo hlusta á það sem kallað er eftir og eftir getu bregðast við því hvar þörfin er mest og hvaðan köllin koma.“

Hér verður ekki dregið úr þeirri réttmætu gagnrýni sem ítrekað kemur fram í garð íslenskra stjórnvalda og tregðu þeirra til að veita umsækjendum alþjóðlega vernd í mörgu samhengi. Því má þó halda til haga að í tilfelli umsókna frá Palestínu fer utanríkisráðherra hér ekki með fleipur: það sem af er þessu ári hafa 155 manneskjur frá Palestínu sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. 100 úr þeim hópi hafa á sama tíma fengið vernd, ýmist með fullri viðurkenningu á stöðu þeirra sem flóttamanna eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Á síðasta ári sóttu 233 Palestínumenn um vernd hér á landi og fengu 217 jákvæða niðurstöðu. Það er umtalsvert hærra hlutfall en gengur og gerist.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí